Sigur­lín Bjarn­ey Gísla­dóttir sendi á dögunum frá sér sína fyrstu skáld­sögu, Sól­rúnu, sem segir frá sam­nefndri konu um átt­rætt sem á­kveður að láta sig hverfa úr þjónustu­í­búð fyrir aldraða og leggur af stað norður í land á puttanum. Sigur­lín segir bókina eiga sér langan að­draganda. Hún byrjaði að skrifa söguna í kringum 2010 en þegar bók með svipað um­fjöllunar­efni kom út ári síðar setti hún hand­ritið á ís.

„Ég var í rit­hóp þar sem ég þurfti að skila inn köflum. En síðan kom Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf út og þá setti ég þetta hand­rit bara lengst ofan í skúffu í mörg ár. Ég er búin að vera að malla með þetta núna í mörg ár og búin að breyta fram og til baka. Ég veit ekki hversu oft ég er búin að endur­skrifa, ég hef ekki tölu á því. Ég held að maður geti verið að endur­­­skrifa inn í ei­lífðina. En maður þarf ein­hvern tíma bara að á­kveða hve­nær þetta er til­búið.“

Í Sól­rúnu er minnst á kvik­myndina Börn náttúrunnar eftir Frið­rik Þór Frið­riks­son sem einnig fjallar um gamalt fólk sem flýr af elli­heimili. Spurð hvort um sé að ræða á­kveðið minni í bók­mennta­sögunni segir Sigur­lín Bjarn­ey:

„Já, þetta er örugg­lega partur af því. Mér fannst ég verða að á­varpa þá bíó­mynd í bókinni og hún (Sól­rún) er sko al­deilis ekki sam­mála því að hún sé eins og fólkið í henni því hún er bara ekkert svona gömul eins og þau. Það er svo fal­legt þegar maður er orðinn gamall og finnst maður verða ei­líf­lega tví­tugur. Það er mikið af svona bókum og verkum en það sem mér finnst oft ekki vera nógu gott er að það er oft svona ein­hver krútt­leiki í kringum það. Ég er að reyna að fara ekki þangað en það er eigin­lega bara les­enda að dæma hvort mér takist það.“

Ég held að maður geti verið að endur­­­skrifa inn í ei­lífðina. En maður þarf ein­hvern tíma bara að á­kveða hve­nær þetta er til­búið.

Ó­yfir­stígan­legt kyn­slóða­bil

Sigur­lín telur það vera eðli­legan part af mann­legri til­veru að vilja sleppa frá ellinni og dauðanum. Þá er annað um­fjöllunar­efni sem hana langaði sér­stak­lega að fjalla um, sem er kyn­slóða­bilið.

„Sól­rún hittir oft ungt fólk sem hún skilur ekki alveg og það er svo­lítið að segja henni til syndanna en á mjög fal­legan hátt. Í ein­hver skipti lærir hún af þeim og ég held að það sé svo mikil­vægt af því þetta kyn­slóða­bil er stundum bara ó­yfir­stígan­legt. Ég held að það sé svo ó­trú­lega mikil­vægt að þegar ég verði gömul þá verði ég til­búin að læra af þeim sem eru yngri og öfugt. Af því það er kannski ein­hver mýta að maður verði eitt­hvað vitur og sett­legur þegar maður verður gamall, ég held að við séum alls konar á öllum aldurs­skeiðum.“

Sólrún er fyrsta skáldsaga Sigurlínar Bjarneyjar.
Kápa/Bjartur

Ástin og dauðinn

Í Sól­rúnu er einnig fjallað um mál­efni sem er ekki al­gengt um­fjöllunar­efni í bók­menntum, hin­segin ástir eldra fólks. Sól­rún upp­götvar að hún er tví­kyn­hneigð og hefur sam­búð með Birnu, konu sem hún kynnist á elli­heimilinu. Spurð hvort þetta hafi verið eitt­hvað sem hana langaði sér­stak­lega að fjalla um segir Sigur­lín Bjarn­ey:

„Þetta bara gerðist. Ég var með þessa per­sónu Birnu og svo allt í einu kom þetta upp. Ég veit ekki hvort ég á­kvað það en það gerðist og Sól­rúnu finnst ekkert eðli­legra. Það er í rauninni um­hverfið sem er ein­hvern veginn að segja henni til um hvernig hún á að vera og svo fær hún sam­tal með æsku­vin­konu þar sem hún þarf kannski svo­lítið svona að velta þessu fyrir sér. Vonandi er það fram­tíðin og að um­hverfið fari ekki að reyna að stýra hlutunum. Það eru ekkert allir endi­lega að koma út úr skápnum þegar þeir eru ungir eða ung­lingar, kannski er fólk að koma út úr skápnum á elli­heimilum.“

Þótt saga Sól­rúnar virki blátt á­fram til að byrja með þá er margt ó­rætt undir yfir­borðinu og á­kveðinn an­kanna­leiki svífur yfir vötnum.

„Sól­rún lendir í­trekað í því að fólkið sem hún hittir, hún kemst að því eftir á að það er látið. Þannig að þetta er svona á ein­hverjum mörkum lífs og dauða. Ég hef það bara svo­lítið opið. Kannski er hún nú þegar dáin, kannski dó hún bara í þjónustu­í­búðinni eða kannski er hún að deyja í Dimmu­borgum, ég veit það ekki. Það verður hver og einn að finna fyrir sig,“ segir Sigur­lín Bjarn­ey.