Þáttaröðin Jarðarförin mín er vinsælasta efni Sjónvarps Símans frá upphafi og þótt endalokin hafi ekki beinlínis kallað á framhald eru þrír af sex höfundum fyrri seríunnar byrjaðir að skrifa framhaldið sem þau kalla Brúðkaupið mitt.

Laddi var miðpunkturinn í Jarðarförin mín í hlutverki dauðveiks manns sem er staðráðinn í því að undirbúa og halda sína eigin glæstu jarðarför með því að vera viðstaddur til að kveðja sína nánustu.

„Við erum þrjú af sex sem höldum áfram með söguna og erum búin að leggja línurnar fyrir seríu tvö,“ segir Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir sem skrifar handritið ásamt Kristófer Dignusi og Jóni Gunnari Geirdal sem báðir voru í upprunalega hópnum auk þess sem Kristófer leikstýrði Jarðarförin mín og Jón Gunnar átti grunnhugmyndina.

Framhaldslíf?

„Við þrengjum fókusinn aðeins niður á þennan stærsta hluta af lífinu sem er ástin og ástarsambönd í víðu samhengi,“ heldur Hekla áfram og nefnir foreldraástina, ást barna á foreldrum, rómantíska ást, vináttuna og ástarsorgina.

En var svona auðvelt og gaman að jarða Ladda að hann dó ekki? Eða hvað?

„Ja, það verður bara að fá að koma í ljós,“ svarar Hekla og hlær mátulega leyndardómsfull. „Við fylgjumst sem sagt svolítið meira með aukapersónunum úr seríu eitt og fáum kannski svona innsýn í þeirra viðhorf og upplifun af ástinni.“

Ástin og dauðinn

Hekla segir framhaldið síður en svo hafa verið sjálfgefið og neitar því ekki að miklar vinsældir Jarðarfararinnar hafi í það minnsta ekki dregið úr þeim. „Það spillir ekki fyrir en það er kannski ekki fyrr en að við förum svona að sjá hvaða viðbrögð aukapersónurnar fengu sem við förum að spá í að þeirra sögur eigi sér framhaldslíf og að það sé af nægu að taka í sambandi við lífið og dauðann,“ segir Hekla og viðurkennir að þau séu ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur.

„Það er áskorun að koma með einhverja ferska sýn á þetta súbjekt en það er áskorun sem við ætlum að taka,“ segir Hekla sem er komin með titilinn „umsjónarmaður handrits,“ á milli sería.

„Þetta bara gekk og gengur ógeðslega vel og við erum bara mjög samstíga sem var ekki endilega eitthvað sem ég þorði að vona að myndi gerast við að skrifa seríu tvö,“ heldur Hekla áfram og bendir á að framhaldið fari óhjákvæmilega ekki af stað í jafn föstum skorðum og sería eitt hafi verið til að byrja með.

„En það er mikill samhljómur í teyminu og það sem mér fannst, og okkur öllum, er að það er svolítið erfitt að réttlæta það að gera aðra seríu þegar hringurinn lokast svona fallega,“ segir hún um lok fyrstu þáttaraðar og leggur áherslu á að þess vegna hafi henni þótt mjög mikilvægt að það væri nóg kjöt á beinunum í framhaldinu.

Ánægjuleg reynsla

Hekla var og er eina konan í höfundateyminu og segir samvinnuna sem fyrr vera mjög ánægjulega. „Þetta var mjög góð reynsla og það má segja að ég hafi mjög víðtæka reynslu af því að vinna með hvítum miðaldra karlmönnum,“ segir hún og vísar til þess að hún kemur úr auglýsingabransanum.

„Þannig að það mætti segja að ég kunni það og það kom mér skemmtilega á óvart að það var tekið mikið mark á mér. Auðvitað óttaðist ég til að byrja með að það væri bara gott að hafa konu á pappírnum en ég yrði ekki endilega atkvæðamikil í hópnum, en það fór allt á besta veg. Enda gengur handritavinna kannski langbest þegar mismunandi sjónarmið mætast hjá fólki sem er á ólíkum stað í lífinu, með ólíka reynslu að baki,“ segir Hekla um Jarðarförina og nú Brúðkaupið en sem fyrr framleiðir Glassriver þættina fyrir Sjónvarp Símans en sería tvö er þó varla væntanleg fyrr en 2022.