„Breytingar á menningu eru óhjákvæmilegar. Þá skiptir engu hvort um er að ræða breytingar sem ráðast af því að fyrirtæki þróast í tímans rás, nýir stjórnendur koma til sögunnar eða samruni við annað fyrirtæki á sér stað. „Við samruna og/eða yfirtökur getur menning hvors fyrirtækis um sig verið ýmist hindrun eða lykilþáttur í að nýtt og sameinað fyrirtæki nái því markmiði sem að var stefnt í upphafi,“ segir Hanna María.

„Það að breyta menningu getur verið mikil áskorun. Skipulag og innleiðing breytinga á menningu fylgir þó ekki endilega sömu lögmálum og breytingar á verklagi eða skipulagi innan fyrirtækisins. Menningu verður ekki handstýrt með einföldum hætti. Reynslan sýnir að til þess að menning þróist og taki jákvæðum breytingum er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga.

Það getur gefið betri raun að leggja minni áherslu á það hverju á að breyta og hvernig á að gera það en meiri á að lýsa því hver draumaniðurstaðan á að vera. Langflestir hafa góðar hugmyndir um hvernig á að komast þangað og geta hjálpað til við að breyta því sem þarf að breyta.

Vel kortlögð samskipti þar sem sögð er saga, sem bæði stjórnendur og starfsfólk geta samsamað sig við, séð tækifærin og tengt við heildina, skipta höfuðmáli. Lykilfólk í breytingum er það fólk sem getur endurtekið söguna. Þetta eru ekki endilega stjórnendur heldur það fólk sem getur sagt góða sögu og haldið öðrum spenntum með frásögninni. Að finna sögumennina og hafa þá með í skapandi ferli breytinganna getur gefið betri raun en þrautskipulögð innleiðingarverkefni. Stærsta áskorunin við að fylgja þessu eftir er að halda út. Að treysta því að þetta sé að skila árangri. Treysta á fólk til að finna lausnir, koma með góðar hugmyndir, vera skapandi og hafa eldmóðinn sem þarf til að breyta eins flóknum hlut og menningu.

Þegar allt kemur til alls erum við tilfinningaverur. Það hefur áhrif á hvernig við högum okkur, hugsum og tjáum okkur. Ef við trúum á þá sýn eða þann draum sem fyrirtækið okkar stendur fyrir er hálfur björninn unninn. Þess vegna er mikilvægt að stilla ekki upp innantómum orðum í formi gilda eða slagorða, að slengja ekki fram einkunnarorðum eða lýsa tilgangi fyrirtækisins á þann veg að öllum sé í raun alveg sama um það. Sá hópur fólks sem ætlar sér að láta sýn sína eða drauminn rætast samanstendur af lausnamiðuðu, þrautseigu, bjartsýnu og traustu fólki. Saman mun þetta fólk mynda menninguna. Menningin mun snúast um að láta drauminn rætast.“