Ég er alin upp á Eskifirði og það setur auðvitað að einhverju leyti mark sitt á efnisvalið og söguna sjálfa,“ segir Benný sem býr nú í Kópavogi og er með MA-gráðu í þjóðfræði auk náms í hagnýtri íslensku. „Ég dreif mig í aftur í háskólann þegar ég var rétt orðin fertug og börnin mín fimm orðin meira sjálfbjarga. Mitt helsta áhugasvið í þjóðfræðinni er tuttugasta öldin og ég skrifaði BA- og MA-verkefni um ættarnöfn Íslendinga.“

Hún segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á bókum. „Ég las mig gegnum bæjarbókasafnið þegar ég var krakki. Þetta var draumur sem alltaf blundaði í mér en ég dreif ekki í því fyrr en farið var að hægjast um á heimilinu, börnin orðin stærri og ég var búin með námið. Þá fannst mér að nú væri loks komið að skuldadögum, komið að því að nú ætti ég að skrifa en ekki bara lesa.“


Verðlaunabókin heitir Gríma og fjallar um vinkonur sem búa báðar í litlu þorpi fyrir austan. „Þetta er samt ekki Eskifjörður, þó auðvitað sæki ég ýmsar sviðsmyndir í söguna þangað, heldur svona almennt á Austfjörðunum,“ segir Benný. „Þetta er saga sem gerist á fimmta og sjötta áratugnum og er allt í senn þorpssaga, ástarsaga og átakasaga. Hún fjallar um Grímu og Önnu vinkonu hennar og breytingar sem verða á þeirra högum þegar nýsköpunartogari kemur í plássið.“

Benný bendir á að þessu umfjöllunarefni, hlutskipti kvenna í sjávarþorpum, hafi ekki verið gerð mikil skil í íslenskum bókmenntum. „Það hafa verið skrifaðar nokkrar sögur um sjómannslífið á þessum tíma eins og Pelastikk eftir Guðlaug Arason og Njörður P. Njarðvík skrifaði bók sem heitir Hafborg. En það hafa ekki verið skrifaðar margar skáldsögur á Íslandi um sjómannskonurnar, hvernig var að vera ein heima að bíða sem var þó hlutskipti mjög margra kvenna og ekki alltaf eitthvað sem þær völdu sér sjálfar,“ segir hún. „Það fór konum misvel að vera heima og bera einar ábyrgð á börnum, barnauppeldi og öllu heimilishaldi á meðan sjómennirnir og feðurnir komu bara heim stöku sinnum og þá nánast eins og gestir og konurnar urðu að vera húsbændur á heimilinu. Ég var svona svolítið að skoða hvernig það hefði verið.“


Benný bendir líka á að þó að það hafi oft á tíðum verið erfitt að vera sjómaður á þessum árum hafi ekkert endilega verið auðvelt að bíða í landi. „Og líka þessar sífelldu áhyggjur. Á þessum tíma voru skipsskaðar algengir og lengra úthald á fiskiskipum, þau fóru lengra og í erfiðari aðstæður, jafnvel upp á Grænlandsmið. Ég er dóttir skipstjóra þannig að mamma var í þessari stöðu og tengdamamma mín líka,“ segir hún. „Ég ræddi þetta aldrei við þær og byggi söguna ekkert á þeim en þetta er samt veruleiki sem ég tengi við og eldri systkini mín og held ég flestir sem eru aldir upp í sjávarplássum og eiga feður sem eru úti á sjó.“

Hún bendir á að hlutfall sjómanna og sjómannsfjölskyldna hafi verið enn hærra á árum áður þegar þurfti meiri mannskap til að manna skipin. „Ég held að börn velti ekki fyrir sér hvaða byrðar foreldrar þeirra bera og það er ekki fyrr en á fullorðinsaldri sem ég fer að velta þessu fyrir mér. Og ég vel að setja söguna þarna í tíma því það hlýtur að hafa verið enn þá erfiðara þegar engin samskipti voru möguleg, ekkert verið að senda SMS eða neitt þannig, bara hægt að vonast eftir kveðju í útvarpsþættinum Á frívaktinni sem spilaði óskalög sjómanna og svo var auðvitað hlustað á veðurfréttirnar til að fylgjast með og hafa áhyggjur af öllum veðrunum sem dynja á. Ég held að það hafi verið óskaplega erfitt að sitja og bíða og vona, vikum og mánuðum saman, aftur og aftur.

Sagan er um þetta, hvernig þetta gengur hjá þeim, þessum stöllum Grímu og Önnu.“


Í umsögn bókmenntaráðgjafa Miðstöðvar íslenskra bókmennta um bókina segir:

„Gríma er söguleg skáldsaga sem segir frá örlögum kvenna í íslensku sjávarþorpi um og eftir miðja tuttugustu öld. Sagan er grípandi, persónusköpun sterk og bygging verksins vel úthugsuð. Textinn er lifandi og skemmtilegur en um leið lýsir höfundur harmrænum atburðum af einstakri næmni. Frásagnargleði og væntumþykja fyrir viðfangsefninu einkenna þessa hrífandi skáldsögu.“

Frásagnargleði Bennýjar er að skila sér í fleiri bókum en í haust kemur út eftir hana barnabók hjá Bókabeitunni. „Ég var lengi heimavinnandi meðan stelpurnar mínar voru litlar og þá var mikið stúss í kringum tómstundir og núna var kominn tími til að sinna því sem mig langaði til. Mér finnst líka þurfa kyrrð í lífið til að skrifa.“ Hún segist ekki hafa skrifað báðar bækurnar í einu. „Grímu var ég búin að skrifa fyrst en svo er þetta allt dálítið langt ferli og gerist svona í bland og samhliða.“ Hún segir næstu skáldsögu fyrir fullorðna vera komna vel á veg. „Það er mjög góð tilfinning að halda áfram með hana þegar ég hef fengið svona viðurkenningu.“

Ásamt Bennýju fékk ljóðskáldið Þorvaldur Sigurbjörn Helgason nýræktarstyrk fyrir ljóðabókina Gangverk en nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta hafa verið veittir síðan 2008.