Helga vinnur á elliheimili og frístundaheimili á daginn og fer oft á milli staða saman daginn. Hún er alltaf fín til fara, en segir að það geti verið mikið púsl að finna föt sem henta á báðum stöðum.

„Mér finnst gaman að klæða mig í eitthvað fallegt og vera tilbúin í hvað sem er. Mér finnst líka eins og gamla fólkið og krakkarnir elski að sjá í hverju ég mæti í vinnuna,“ segir Helga.

Helga hefur sinn eigin stíl og segist ekki mikið vera að fylgjast með hvernig aðrir klæða sig.

„En ég skoða mikið ný föt á Asos og Curvy og ef mér líkar við eitthvað þá kaupi ég það. Svo annað hvort virkar það eða ekki,“ segir hún.

„En það virkar oftast fyrir mig. Það besta sem maður getur klætt sig upp í er nefnilega sjálfstraustið. Ef maður er með sjálfstraust þá virkar í raun og veru allt, ef þú trúir á það.“

Uppáhaldsbúðin hennar Helgu á Íslandi er Curvy og hún segist eiginlega hvergi versla annars staðar en þar, hér á Íslandi.

„En ég panta líka mikið af Asos. Þegar vinkona mín var að læra ljósmyndun þá sat ég mikið fyrir á ljósmyndum hjá henni og þá fengum við oft lánuð föt frá Curvy. Ég hef sett myndirnar á Instagram og stundum báðu þær hjá Curvy mig um að fá að pósta myndunum. Mér fannst rosalega gaman að sjá myndir af mér á Instagram hjá öðrum,“ segir hún.

Helga segist samt ekki vera áhrifavaldur, heldur setji hún bara inn myndir af sér á Instagram að gamni sínu. Hún segir að sér þyki mjög gaman að sitja fyrir á myndum og horfa á sjálfa sig frá öðru sjónarhorni en ef hún hefði sjálf tekið myndirnar.

„Þannig að þess vegna var ég alltaf til í að gera alls kyns verkefni með vinkonu minni þegar hún komst inn í ljósmyndunarnámið,“ útskýrir hún.

Helgu finnst gaman að sitja fyrir á myndun og sjá sig frá sjónarhorni annarra.

Gúgglaði hvernig á að vera falleg

Helga segir að sér finnist mikilvægt að konur og stelpur í stærri stærðum hafi fyrirmyndir í tískuheiminum og að þær sjáist á tískuljósmyndum.

„Ég man þegar ég var yngri þá sá maður þær aldrei, en svo þegar ég varð eldri fór ég að sjá þær oftar og hugsaði: Vá! Ég get þetta líka,“ segir Helga.

„Þegar ég var yngri þá gúgglaði ég „how to be beautiful“, eða hvernig á að vera falleg. Ég var alveg komin þangað af því ég hef alltaf verið í stærri kantinum. Þá fékk ég ógeðslega gott ráð sem hefur fylgt mér síðan. Það var að horfa bara í spegilinn, finna það sem þér líkar við og segja: Þú ert falleg, þú ert bara það sem þú ert. Þetta hefur hjálpað mér mjög mikið,“ bætir hún við.

Í dag hefur Helga svo sannarlega tekið sjálfa sig í sátt, fundið að hún er falleg og lært að líða vel í eigin skinni.

„Ég er kannski með aðeins of mikið sjálfstraust. Ég elska að vera í fötum sem sýna allt. Það er að segja sýna hvernig ég er. Öll lögin á mér. Þannig líður mér best,“ segir hún ánægð.

Stundum þegar Helga fer út og er búin að klæða sig upp kemur fólk upp að henni og hrósar henni.

„Ég ber svo mikla virðingu fyrir fólki sem gerir það. Ég vildi að ég gerði meira af því að hrósa öðrum. Það gerir svo mikið fyrir mann.“

Helga elskar að kaupa sér föt en uppáhaldsflíkin hennar er þessi guli jakki sem hægt er að nota bæði spari og hversdags. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Getur ekki lokað skápunum

Helga segist kaupa svo mikið af fötum að það sé að nálgast að verða vandamál.

„Ég er búin að fylla fataskápana mína . Svo er ég með kommóðu og hillur sem eru fullar líka. Þetta er allt fullt, ég á erfitt með að loka þessu,“ segir hún hlæjandi.

„Ég fer yfirleitt með það sem ég er hætt að nota í Rauða krossinn, en ég hef líka alveg hugsað um að fara með þau í fatamarkaði til að selja þau. Það væri alveg gaman. En það er málið að mér þykir svo vænt um mikið af þessum fötum og mér þykir svo gaman að horfa á þau,“ segir hún og hlær meira.

Uppáhaldsflíkin hennar Helgu er gulur jakki sem hún segir að passi við allt.

„Hann er mjög fínn en það er bæði hægt að dressa hann upp og niður. En svo lengi sem ég er ekki í buxum þá er ég ánægð. Ég reyni að forðast buxur eins og heitan eldinn. Af brýnni nauðsyn fer ég í buxur en annars er ég bara vetur, sumar, vor eða haust í hjólabuxum undir kjól eða pilsi,“ segir hún.

Helga segir að hún kaupi sér pottþétt mest af kjólum af öllum gerðum og stílum. En hún á sér þó eina draumaflík sem er jakki, eða í raun peysa.

„Hún fæst hjá Hildi Yeoman og er ótrúlega falleg. Hún er með loðkraga og loði á ermunum. En hún er bara því miður ekki til í minni stærð. Það er oft vandamál að minni fyrirtæki eru sjaldan með eitthvað í stærri stærðum. En það verður vonandi einn daginn."

Kjólar eru í miklu uppá­haldi hjá Helgu, sem fer bara í buxur af brýnni nauðsyn.
Helga er óhrædd við að klæðast því sem hún vill. Hér er hún er í fallegum sumarkjól.