Myndlistarlíf hér á landi er í miklum blóma, æ fleiri ljúka námi í myndlist og allnokkrir myndlistarmenn hafa náð góðum árangri á alþjóðavettvangi. Vondu fréttirnar eru þær að fjárframlög ríkisins hafa á sama tíma svo til staðið í stað.

Hlynur Helgason, myndlistarmaður og lektor í listfræði við Háskóla Íslands, og Anna Eyjólfsdóttir, myndlistarmaður og formaður SÍM, segja að stærsta baráttumálið á þessu ári verði hækkun starfslauna. „Starfslaunin eru verktakalaun, um 400 þúsund á mánuði, sem þýðir í rauninni að eftir standa 260 þúsund, sem nægir einstaklingi ekki til að framfleyta sér, hvað þá myndlistarmönnum sem eru fjölskyldufólk. Þannig eru þeir dæmdir til að vera í aukavinnu á sama tíma og þeir eru á þessum launum. Þessi laun þarf að hækka þannig að þau verði á pari við kennaralaun,“ segir Hlynur. „Það þarf líka að efla og bæta í þá sjóði þar sem launahlutfall er lægst. Miðað við fjölda umsókna fá fæstir laun úr myndlistarsjóði og hönnunarsjóði. Það er mikilvægt að auka veg þessara sjóða.“

Sjóður með háleitt markmið

Hlynur og Anna segja einnig mikilvægt að berjast fyrir áframhaldandi tilveru Listskreytingasjóðs ríkisins sem hefur það háleita markmið að fegra opinberar byggingar víða um land og umhverfi þeirra með listaverkum og veita þannig landsmönnum aðgang að myndlist í sínu daglega umhverfi.

„Listskreytingasjóður hefur verið rekinn síðan 1982 og hefur keypt mörg hundruð listaverk fyrir fjölda stofnana undanfarið en skortir fé til að sinna mikilvægum þáttum, eins og eftirliti með þessum listaverkum sem eru um allt land. Við finnum fyrir gríðarlegum áhuga, en sjóðurinn hefur lengi ekki haft bolmagn til að sinna eftirspurn. Það er hins vegar jákvætt að líta til þess að menntamálaráðherra hefur nú nýverið tekið undir okkar sjónarmið um að efla sjóðinn,“ segir Anna.

Áhugi almennings

Þau leggja áherslu á að tengsl milli almennings og myndlistarheimsins séu efld enn meir en nú er. „Það þarf að skapa sjálfbært myndlistarlíf á Íslandi með því að fá fólk í auknum mæli til að kynnast listinni, myndlistarmönnum og eignast myndlist,“ segir Hlynur.

„Torgið, hin árlega listamessa á Korpúlfsstöðum, hefur breytt miklu í þessu sambandi og fer áhuginn greinilega vaxandi. Í fyrrahaust voru um 60 myndlistarmenn sem sýndu og seldu verkin sín þar, en í haust voru þeir hundrað og um tólf þúsund manns komu á sýninguna. Áhugann má líka skynja á því að jólasölusýning sem haldin var í Ásmundarsal var líka afar vel sótt,“ segir Anna.

„Í gegnum Torgið höfum við séð gríðarlegan áhuga almennings á því að komast í samband við listamenn,“ segir Hlynur. „Við viljum koma á öflugu skipulagi og regluverki um aðild einkaaðila og fyrirtækja að myndlist og myndlistarstarfsemi. Þar má til dæmis hugsa sér að fyrirtæki fái skattaafslátt fyrir að kaupa list, eins og tíðkast í útlöndum. Við erum svo með hugmyndir um stofnun, eins konar ráðgjafarstofu, sem gæti ráðlagt einstaklingum sem hafa áhuga á því að styðja við myndlistarstarf eða vilja fjárfesta í myndlist. Við erum með þokkalegt opinbert kerfi í formi listamannalauna og erum með myndlistarsjóð, en okkur vantar að koma upp farvegi fyrir fjármagn frá einkaaðilum til myndlistarheimsins. Það þarf að auka möguleika fólks á því að styðja við og efla myndlistarlíf í landinu.“