Linda Hrönn Þórisdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum, segir að einelti sé mjög flókið hugtak og að oft sé erfitt að þekkja einkenni eineltis og bregðast við. Hún segir mikilvægt að hlusta á börn sem tala um vanlíðan tengda skólanum til að koma auga á möguleg vandamál og leita ekki að sökudólgum og fórnarlömbum, heldur leggja áherslu á forvarnir og að skapa góða menningu innan barnahópa svo að þeim líði öllum vel.

„Allir sem rannsaka einelti eru sammála um að einelti sé einhvers konar útilokun sem er endurtekin og veldur niðurlægingu og vanlíðan hjá þeim sem verða fyrir því,“ segir Linda. „Neikvæð hegðun í samskiptum er eðlileg stundum, en ef hún er endurtekin og beinist ítrekað að sama einstaklingi getur það verið einelti.

Það er mikilvægt að gjaldfella ekki hugtakið og líta ekki á einstök tilvik neikvæðra samskipta sem einelti. En neikvæð samskipti geta þróast í einelti ef það er ekki gripið inn í og þess vegna er mikilvægt að gera það snemma,“ segir Linda. „Oft er einelti mjög falið og það litla sem sést er eins og toppur á ísjaka. Því eiga fullorðnir oft erfitt með að bera kennsl á það og oft ekki nema þegar það er líkamlegt.“

Óæskileg menning

Barnaheill reyna meðal annars að svara því hvers vegna sumir leggja aðra í einelti.

„Við byggjum námsefnið Vináttu meðal annars á rannsóknum danska fræðingsins Helle Rabøl Hansen, en hún talar um að einelti verði til í aðstæðum þar sem neikvæð samskipti fá að þróast. Þá verður menningin í hópnum þannig að börnin þekkja ekkert annað og finnst þetta eðlilegt,“ segir Linda. „Stundum er þetta líka leið barnanna til að þrauka. Á meðan fullorðnir geta skipt um vinnustað ef þeir upplifa einelti hafa börn mjög litla stjórn á sínu umhverfi. Þau þurfa því oft að finna leiðir til að þrífast í umhverfinu sem þau eru sett í.

Linda segir að einelti brjóti sjálfsmynd barna markvisst niður svo þau haldi stundum að þau eigi eineltið skilið. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar og börn með brotna sjálfsmynd geta verið viðkvæm fyrir ýmsum hættum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Oft skapast óöryggi og börnin verða hrædd um að tilheyra ekki eða verða ekki metin að verðleikum og þá myndast rígur. Það eru ekki endilega börn sem hafa veikleika sem eru lögð í einelti, stundum skapast það af því að önnur börn sjá styrkleika og finna til öfundar,“ segir Linda. „Gerendur eru heldur ekki endilega með jákvæðari afstöðu til ofbeldis en aðrir. Rannsóknir sýna að þegar einelti fær að þrífast getur hver sem er orðið fórnarlamb og gerandi og stundum verða hlutverkaskipti ef fórnarlambið sér tækifæri til að komast úr sínu hlutverki og setja annan í það. Þau kunna ekki að fara út úr umhverfinu eða hafna þessari menningu, heldur gera bara það sem þau geta til að líða sem best.“

Reyndi sjálfsvíg fyrst níu ára

„Það er frumþörf mannskepnunnar að tilheyra og þegar við vorum frumstæðari var það spurning um líf og dauða,“ segir Linda. „Við sjáum stundum hræðilegar afleiðingar af einelti, svo það má velta fyrir sér hvort það sé enn þannig. Því miður þekkjum við dæmi um að einstaklingar sem upplifa einelti hafi tekið eigið líf, þó að vissulega sé aldrei hægt að fullyrða neitt um orsakir og afleiðingar sem þarf að skoða í víðu samhengi.

Það var 25 ára gömul kona sem var lögð í einelti alla sína grunnskólagöngu sem opnaði sig um það á námskeiði hjá okkur um daginn að hún reyndi fyrst að fremja sjálfsvíg þegar hún var níu ára, en þá reyndi hún að hengja sig í efri koju í herberginu sínu,“ segir Linda. „Þetta er því oft spurning um líf og dauða, ekki síst ef maður lítur á stóra samhengið og skoðar ákvarðanir sem fólk sem hefur brotna sjálfsmynd tekur síðar meir.

Það er verið að brjóta sjálfsmynd viðkomandi markvisst niður og hún verður oft svo slök að börnin halda að þau beri jafnvel ábyrgð á eineltinu eða eigi það skilið,“ segir Linda. „Þegar börn fara með þessa brotnu sjálfsmynd út í lífið verða þau viðkvæm fyrir ýmsum hættum, eins og að leiðast út í óæskilegan félagsskap til að fá að tilheyra hóp. Félagsfærni þessara barna er líka oft ekki góð því þau fengu ekki að vera hluti af hópnum og þroskast eins og hinir. En ef fórnarlömb fá góðan stuðning geta þau jafnað sig og haft það jafn gott og aðrir.

Það þarf líka að hjálpa gerendum. Það er oft eitthvað undirliggjandi sem veldur því að þeir séu gerendur sem þarf að bæta úr,“ segir Linda. „Þess vegna skiptir máli að leita ekki að sökudólgum og fórnarlömbum, heldur styrkja allan barnahópinn sem heild, svo allir komi út úr ferlinu með reisn. Það verður að ráðast að uppruna vandans með því að vinna með samskipti og menningu innan hópa. Annars koma sömu vandamál upp ítrekað.“

Óbein merki um einelti

Það getur verið mjög erfitt að koma auga á einelti, en það eru óbein merki sem hægt að vera vakandi fyrir.

„Oft eru fyrstu merkin þau að börn kvarta undan því að vera illt í maganum eða höfðinu og vilja ekki fara í skólann, eðlilega,“ segir Linda. „Þau eiga oft erfitt með að átta sig á eigin líðan og koma henni í orð og stundum gera þau sér ekki einu sinni grein fyrir því að það sé verið að leggja þau í einelti. En það þarf að taka þessum merkjum alvarlega.

Barnaheill vinna eftir námsefninu Vinátta – Fri for mobberi sem kemur frá Danmörku og hefur skilað góðum árangri þar. Það hefur fengið mjög góðar viðtökur frá börnum, kennurum og foreldrum hér á landi. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Ef börn virðast alltaf vilja vera ein þarf líka að komast að því af hverju,“ segir Linda. „Það er gott ef barnið getur verið eitt, en ef það vill það alltaf gæti verið að það sé búið að gefast upp á að reyna að komast inn í hópinn því það hefur fengið nóg af höfnun.“

Það skiptir miklu máli að bregðast alltaf rétt við

„Börn sem verða fyrir einelti ættu að tala við einhvern fullorðinn sem þau treysta,“ segir Linda. „Það er líka mikilvægt að fullorðnir séu tilbúnir til að hlusta og taka mark á börnum, sama hvaða ofbeldi þau eru að segja frá. Ef fyrsta fullorðna manneskjan bregst ekki við ættu börn að halda áfram að segja fullorðnum frá þar til einhver hlustar. Þau bera ekki ábyrgð á þessu, en með því að segja frá eru líkur á að þetta stoppi.

Ef barn leitar til fullorðins vegna eineltis skiptir máli hvernig er brugðist við,“ segir Linda. „Það er ekki gott að bregðast við með reiði eða æsingi, heldur þarf að halda ró sinni, þakka þeim fyrir að segja frá og tala svo strax við skólayfirvöld og afla sér frekari upplýsinga.“

Hefur áhrif á allan hópinn

„Við höfum fjögur gildi að leiðarljósi í kennslu til barna, en þau eru umhyggja, virðing, umburðarlyndi og hugrekki. Námsefnið okkar er fyrir 0-9 ára og gengur út á að kenna börnum að setja sjálfum sér mörk og hjálpa öðrum ef þeir verða fyrir órétti,“ segir Linda. „Þau þurfa að læra frá unga aldri að það sé ekki í lagi að sjá aðra verða fyrir einelti. Við erum með fullt af verkfærum sem hjálpa börnum að læra að segja stopp eða leita til fullorðinna.

Börnum sem horfa upp á einelti líður líka oft illa. Unga konan sem ég talaði um áðan sagði til dæmis frá því að hún hitti gamlan bekkjarfélaga sem hafði ekki tekið þátt í eineltinu í strætó þegar hún var 18 ára,“ segir Linda. „Hann bað hana afsökunar og þegar hún sagði að hann hefði ekki gert neitt sagði hann: „Það er einmitt málið. Ég gerði ekkert.“ Þetta kemur við allan barnahópinn og því þarf að vinna með þau sem heild.“

Það þarf meira til

„Það hefur náðst mikill árangur í baráttunni gegn einelti á heimsvísu, en því miður gefa rannsóknir til kynna að það hafi aukist hér á landi á síðustu árum, þrátt fyrir að unnið sé eftir Olweus-áætluninni í mjög mörgum grunnskólum, sem hefur skilað góðum árangri,“ segir Linda.

„Að mörgu leyti snýst baráttan gegn einelti um að bregðast við þegar skaðinn er skeður, en við viljum reyna að sinna forvörnum til að hann verði ekki. Það þýðir að byggja góðan félagsanda og styrkja sjálfsmynd barnanna.

Við vinnum eftir námsefninu Vinátta – Fri for mobberi sem kemur frá Danmörku og hefur skilað góðum árangri þar enda er námsefnið mjög útbreitt í Danmörku og rannsóknir þar í landi sýna fram á að einelti hefur minnkað. Við erum komin styttra á leið hér á landi með útbreiðslu námsefnisins en samt sem áður fengið mjög góðar viðtökur frá börnunum, kennurum og foreldrum,“ segir Linda. „Olweus ruddi leiðina fyrir áframhaldandi rannsóknir, en það þarf meira til svo enginn þurfi að upplifa þessa ömurlegu líðan sem einelti felur í sér.

Við hvetjum sem flesta sem vinna með börnum til að kynna sér þá nálgun og hugmyndafræði sem Barnaheill beita. Það þarf stöðugt að viðhalda þekkingunni í forvarnarstarfi, því alltaf koma ný börn og nýir foreldrar og kennarar,“ segir Linda.