Kulnun í starfi er ekki sjúkdómur heldur greining á sálrænu ástandi. Fólk sem brennur út í starfi hefur upplifað mikið álag, jafnt í vinnu sem einkalífi. Þar má til dæmis nefna umönnun veikra aðstandenda, barna eða foreldra.

Algengt er að mikil streita geri vart við sig hjá starfsmönnum þegar miklar breytingar eru stöðugt í gangi í vinnunni hvað varðar uppbyggingu, stjórnun og markmið. Sömuleiðis ef fólk telur sig ekki geta ráðið við eigin verkefni. Þeir sem gera miklar kröfur á sjálfa sig auka streitu og álag, einnig þeir sem sífellt búast við viðurkenningu eða eru viðkvæmir fyrir því sem öðrum finnst um þá.

Það getur tekið langan tíma að jafna sig eftir kulnun. Þunglyndi er fylgifiskur og meðferð við henni er nauðsynleg um leið og viðkomandi byggir sig upp. Að auki gæti starfsmaðurinn þurft að fara í léttara starf innan fyrirtækisins þegar hann kemur til baka í vinnu.

„Það eru mörg merki sem koma fram hjá þeim sem eru að brenna út í starfi,“ segir Ingunn Amble geðlæknir í grein sem birtist í psykologisk.no. „Kulnun er skilgreind út frá þremur einkennum sem eru tilfinningaleg þreyta, persónulegt viðhorf einstaklingsins til sjálfs sín og skynjun á að eigin starfsgeta sé skert.“ Ingunn segir að tilfinningaleg þreyta snúist í raun um yfirþyrmandi innri streitu. Jafnvel lítil verkefni sem flestir leysa auðveldlega virðast skyndilega allt of krefjandi. Starfsleiði er einn fylgifiskur og margir finna fyrir áhugaleysi gagnvart því sem fram fer á vinnustaðnum og um leið skerðist sjálfsmyndin sem getur leitt til mikillar neikvæðrar hugsunar. Þá hefur verið talað um einbeitingarörðugleika og heilaþoku eða skert minni.

Ingunn segir að margt sé hægt að gera til að koma í veg fyrir kulnun í starfi og því ætti fólk að leita sér hjálpar áður en það verður of seint.

Hvernig getur fólk vitað að það þjáist af kulnun í starfi?

  • Starfsmaður ræður ekki við að vinna það verk sem að honum er rétt.
  • Starfsmaður bregst oft við aðstæðum með reiði og óþolinmæði. Skapbrestir eru algengir og erfitt að hafa stjórn á tilfinningum sínum.
  • Svefnvandamál. Fólk sem er undir miklu vinnuálagi eða er andlega þreytt sefur illa.
  • Skert kynferðisleg löngun.
  • Þeir sem eru andlega þreyttir sækjast frekar í eitthvað óhollt eins og sykur, fitu, nikótín eða áfengi. Einnig þekkist að fólk hafi litla matarlyst.
  • Þunglyndi og andleg þreyta fer oft saman.
  • Kvíðaástand, jafnvel kvíði fyrir því að vekjaraklukkan hringi.
  • Syfja, einbeitingarleysi og orkuskortur eru dæmigerð einkenni fyrir þá sem eru að brenna út.
  • Þeir sem eru á andlegu brúninni finna mikið fyrir líkamlegri vanheilsu, höfuðverkur gerir oft vart við sig, vöðva- og magaverkir.