Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri, verður 98 ára í sumar en eins og margir landsmenn fékk hann ekki staðist að ferðast til Geldingadala til að líta þar glóandi sjónarspilið eigin augum.

„Við Þóra Fríða tengdadóttir mín brugðum okkur að gosstöðvunum í morgun,“ skrifaði Páll á Facebook-síðu sinni í dag. „Það er erfitt að lýsa gosinu með myndum, það er allt önnur tilfinning og meira lifandi að sjá það með berum augum.“

Páll fór með þyrlu að gosstöðvunum og lenti á hæð þar nálægt til að virða fyrir sér gosið. „ Ég sá nú Heklugosið 1947 og reyndar ýmis gos síðan. En þetta er nú mjög sérstakt, þetta gosasvæði. Þar sem er náttúrlega athyglisverðast við gosið er hvernig glóandi hraunið spýttist upp. Manni flaug í hug hvernig það myndi vera að stinga sér til sunds í þetta fyrirbæri.“

Fréttablaðið/Aðsent