„Þetta eru rétt tæplega þrjár og hálf sýning á hvern sýningardag,“ segir Atli Þór Albertsson, markaðsstjóri Þjóðleikhússins, en sé dagatal Þjóðleikhússins skoðað sést að í október eru sýndar hvorki meira né minna en 82 leiksýningar á aðeins 24 sýningardögum.

Atli segir að þetta sé mesti fjöldi sýninga sem sýndar hafa verið á svo skömmum tíma á fjölum hússins. „Það man enginn hér eftir öðru eins og við finnum engar sambærilegar tölur frá fyrri tíð í okkar gögnum svo við leyfum okkur að telja að þetta sé mesti fjöldi sýninga á svona skömmum tíma.“ Atli bendir á að það sé uppselt á flestar af þessum sýningum sem sé auðvitað sérstaklega ánægjulegt.

Mikil spenna er fyrir Ronju ræningjadóttur í leikstjórn Selmu Björnsdóttur en uppselt er á sýninguna út árið. Miðasala á sýningar ársins 2019 hefst í dag. Aðrar sýningar hafa gengið nánast fyrir fullum sal segir Atli. „Við erum að sýna þétt á öllum okkar sviðum auk þess sem við bjóðum elstu bekkjum leikskólanna upp á sýningar á Sögustund í þessari viku. Það er uppselt á Ronju ræningjadóttur út árið. Ég heiti Guðrún, sem er aðeins sýnd í október, er nær uppseld. Slá í gegn er að klárast, Fly Me to the Moon, Einar Áskell og svo sýningarnar í Þjóðleikhúskjallaranum.

Eins og máltækið segir: Allt er þegar áttatíu og tvennt er,“ segir hann og hlær.