68 prósent Breta vilja að Harry og Meg­han verði svipt titlum sínum, sam­kvæmt glæ­nýrri skoðana­könnun sem gerð var af Tatler tíma­ritinu. Meiri­hluti Breta telur jafn­framt að hjónin ættu ekki að tjá sig um banda­rísk stjórn­mál.

Fregnirnar berast í kjöl­far þess að hjónin á­vörpuðu banda­rísku þjóðina í sér­stöku mynd­bands­á­varpi á dögunum. Þar studdu þau Joe Biden, for­seta­fram­bjóðanda Demó­krata og biðluðu til kjós­enda um að kjósa gegn Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta.

Skoðana­könnunin sem um ræðir var gerð af rann­sóknar­fyrir­tækinu Sa­vanta Com­res. Fyrir­tækið ræddi við 4174 Breta. 68 prósent sögðust telja að svipta ætti hjónin titlum sínum fyrir að hafa sagt skilið við störf konungs­fjöl­skyldunnar í janúar.

63 prósent Breta þótti að Meg­han ætti ekki að tjá sig um banda­rísk stjórn­mál, jafn­vel þó hún sé banda­rísk. Þá sögðust 35 prósent við­mælenda telja að Meg­han vilji verða for­seti Banda­ríkjanna einn daginn.