Í dag kemur í verslanir 66°Norður bolur sem hannaður var í sam­starfi við Rúrik Gíslason, lands­liðs­manninn og vel­gjörðar­sendi­herra SOS barna­þorpanna. Allur á­góði af sölu bolsins mun renna til þeirra. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fyrir­tækinu.

Þar kemur fram að SOS barna­þorpin veiti munaðar­lausum og yfir­gefnum börnum stað­gengil fyrir þá fjöl­skyldu sem þau hafa misst. Sam­tökin starfa í 136 löndum og reka 559 barna­þorp úti um allan heim. Sam­tökin starfa óháð stjórn­málum og trúar­brögðum og ná til milljóna barna, ung­menna og full­orðinna í gegnum meira en 2300 verk­efni.

„SOS barna­þorpin á Ís­landi vinna frá­bært starf og ég er svo heppinn að fá að styðja við þeirra öfluga starf. Þegar ég gerðist vel­gjörðar­sendi­herra fór ég strax að hugsa hvað ég gæti gert til að vekja at­hygli á sam­tökunum og hvernig hægt væri að styðja þau fjár­hags­lega. Þar sem ég hef mikinn á­huga á tísku datt mér í hug að það væri gaman að hanna bol og selja til styrktar sam­tökunum,“ er haft eftir Rúrik í til­kynningunni.

„Þetta verk­efni er alveg í anda 66°Norður og á­nægju­legt að vinna að því með Rúrik og full­trúum SOS barna­þorpa. Í þessari veg­ferð höfum við fengið að læra um þeirra frá­bæra starf en auk barna­þorpanna þá reka sam­tökin fjölda leik­skóla, grunn­skóla, verk­náms­skóla og heilsu­gæslu­stöðva auk þess að sinna neyðar­að­stoð. Það er á­nægju­legt að geta lagt þeirra góða starfi lið á þennan hátt, “ segir Fannar Páll Aðal­steins­son, markaðs­stjóri 66°Norður.

Ragnar Schram, fram­kvæmda­stjóri SOS barna­þorpanna á Ís­landi, fagnar sam­starfinu við Rúrik og 66°Norður og segir söluna muna miklu fyrir sam­tökin. „Við erum afar sátt við út­komuna og ljóst að fjöldi fólks hefur lagt metnað sinn í hönnun og fram­leiðslu á bolnum. Á þeim 70 árum sem sam­tökin hafa hjálpað börnum hafa sam­tökin haft já­kvæð á­hrif á um 13 milljónir ein­stak­linga um allan heim. Bolurinn er ekki bara vandaður og flottur, heldur er hann yfir­lýsing þess sem honum klæðist að við­komandi vilji gera heiminn betri fyrir munaðar­laus og yfir­gefin börn.“

Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend
Fréttablaðið/Aðsend