Brúðarkjóll Díönu var engin smásmíði á sínum tíma og framleiðendur The Crown vilja láta hlutina ganga eðlilega fyrir sig. Þannig tók 600 klukkustundir að sauma eftirlíkingu af kjólnum. Þrjár manneskjur þurfti til að sauma kjólinn sem var fjóra mánuði í vinnslu. Þrátt fyrir allan þennan tíma sem tók að gera kjólinn er hann aðeins sýndur í nokkrar sekúndur í þættinum. Brúðkaup Díönu og Karls Bretaprins kemur fyrir í fjórðu þáttaröð The Crown.

Brúðarkjóll Díönu var umdeildur á sínum tíma. Sumir kölluðu hann ofskreytta rjómatertu. Kjóllinn var úr fínasta silki, skreyttur dýrindis blúndum, perlum og pallíettum. Hann kostaði á sínum tíma á aðra milljón króna, sem á núvirði hefur meira en tvöfaldast. Díana og Karl giftu sig í Dómkirkju heilags Páls í London 29. júlí 1981. Enginn brúðarkjóll þykir merkilegri en sá er Díana klæddist á brúðkaupsdaginn.

Leikkonan Emma Corrin fer með hlutverk Díönu og hún klæddist kjólnum góða sem hannaður var af Amy Roberts, búningahönnuði þáttanna, í þættinum. Til að hægt væri að gera kjólinn sem líkastan þeim sem Díana klæddist fékk Amy góð ráð frá upprunalegum hönnuðum, þeim David og Elizabeth Emanuel. Blúndur voru keyptar hjá sama framleiðanda. Díana prinsessa valdi sjálf hönnuðina fyrir sinn brúðarkjól.

Emma Corrin þurfti að máta Netflix-kjólinn fimm sinnum áður en hann var kláraður. Slörið er lengra en hjá Díönu, eða alls níu metrar. Um 95 metrar af efni fóru í kjólinn og 100 metrar af blúndu. Synir Díönu, prinsarnir Harry og Vilhjálmur, erfðu kjól móður sinnar sem er vel geymdur.

Þess má geta að búningarnir í þáttunum eru allir mjög vel gerðir og hönnuðurinn kynnti sér stíl og persónuleika þeirra persóna sem koma fram í þeim. Amy Roberts segist hafa haft sérstaklega gaman af því að hanna föt fyrir Margaret Thatcher, en hún var ávallt mjög smekklega klædd og hugsaði mikið um útlitið. Eftir því var tekið að Thatcher var oft bláklædd en sá litur þykir vera merki um völd. Hún gekk gjarnan í skyrtum með slaufu og hárið var alltaf fullkomlega uppsett. Áhorfendur ættu að gefa búningum þáttanna sérstakan gaum.