Í gær var þeim merka á­fanga náð í Þjóð­leik­húsinu að sýningin Vertu úlfur var sýnd í 50. sinn fyrir fullu húsi. Unni Ösp Stefánsdóttir, leik­stjóra, Héðni Unn­steins­syni, höfundi bókarinnar og Birni Thors, leikara verksins, var fagnað ákaft að sýningu lokinni og Magnús Geir Þórðar­son þjóð­leik­hús­stjóri óskað þeim sér­stak­lega til hamingju við þetta tæki­færi.

Magnús Geir sagði eftir sýninguna að það væri alls ekki sjálf­sagt að sýning nái þessum merka á­fanga og af­henti Unni Ösp, Héðni og Birni blóm­vendi.

Í til­kynningu frá Þjóð­leik­húsinu segir að sýningin hafi „ratað að kviku leik­hús­gesta; snert þá og hreyft við þeim á þann hátt sem að­eins fram­úr­skarandi leik­sýning getur gert.“

Sýningin átti upp­haf­lega að fara á svið í Kassanum en vegna sam­komu­tak­markana var ekki hægt að æfa mann­margar sýningar og því hentaði vel að færa hana á Stóra sviðið.

Sýningin er byggð á ný­legri sjálfs­ævi­sögu­legri frá­sögn Héðins Unn­steins­sonar Vertu úlfur! sem vakti verð­skuldaða at­hygli og var til­nefnd til Ís­lensku bók­mennta­verð­launanna. Að­stand­endur leik­sýningarinnar hafa einnig leitað fanga í öðrum verkum eftir Héðin, og má þar nefna ýmsar blaða­greinar hans, svo sem greinina “And­rúms­loft á geð­deildum”, ljóð, fyrir­lestra og við­töl.

Héðinn Unn­steins­son hefur látið til sín taka á sviði geð­heil­brigðis­mála í tvo ára­tugi, meðal annars sem sér­fræðingur á vegum stjórn­valda og hjá Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnuninni.