Í gær var þeim merka áfanga náð í Þjóðleikhúsinu að sýningin Vertu úlfur var sýnd í 50. sinn fyrir fullu húsi. Unni Ösp Stefánsdóttir, leikstjóra, Héðni Unnsteinssyni, höfundi bókarinnar og Birni Thors, leikara verksins, var fagnað ákaft að sýningu lokinni og Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri óskað þeim sérstaklega til hamingju við þetta tækifæri.
Magnús Geir sagði eftir sýninguna að það væri alls ekki sjálfsagt að sýning nái þessum merka áfanga og afhenti Unni Ösp, Héðni og Birni blómvendi.
Í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu segir að sýningin hafi „ratað að kviku leikhúsgesta; snert þá og hreyft við þeim á þann hátt sem aðeins framúrskarandi leiksýning getur gert.“
Sýningin átti upphaflega að fara á svið í Kassanum en vegna samkomutakmarkana var ekki hægt að æfa mannmargar sýningar og því hentaði vel að færa hana á Stóra sviðið.
Sýningin er byggð á nýlegri sjálfsævisögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar Vertu úlfur! sem vakti verðskuldaða athygli og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Aðstandendur leiksýningarinnar hafa einnig leitað fanga í öðrum verkum eftir Héðin, og má þar nefna ýmsar blaðagreinar hans, svo sem greinina “Andrúmsloft á geðdeildum”, ljóð, fyrirlestra og viðtöl.
Héðinn Unnsteinsson hefur látið til sín taka á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, meðal annars sem sérfræðingur á vegum stjórnvalda og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.