„Ég hef farið oftast í sóttkví af öllum vinum mínum og fjölskyldu og ég held það sé af því að ég er alltaf að leika við einhvern og á „acrobat“ æfingum,“ segir Adríana Alba, einlæg og yfirveguð.

„Ég er orðin svo vön þessu að ég er eiginlega ekki mikið að hugsa út í þetta og ef ég fæ fréttir um að ég sé komin í sóttkví, þá er það bara ekkert mál.“

Adríana er í fimmta bekk í Helgafellsskóla og æfir „acrobat“ í Plié Listdansskóla og segist ekki hafa miklar áhyggjur af viðveru sinni í skólanum, þar sem hún er komin jafn langt eða lengra en hinir í bekknum.

„Við erum ekki í neinni fjarkennslu, en í fyrstu bylgjunni lærðum við heima og ég fékk skóladót sent heim. Annars les ég líka alltaf heima,“ segir Adríana.

Rafræn danskeppni

Adríana hefur æft „acrobat“ frá því hún var sex ára gömul, en var áður í ballett og fimleikum. „Ég átti að keppa á heimsmeistaramótinu, Dance World Cup árið 2020 í Róm og síðan á Spáni 2021,“ segir hún, en Covid setti strik í reikninginn.

„Ég fór að gráta þegar ég gat ekki farið. Ég var búin að leggja svo mikið á mig,“ segir Adríana, sem æfir fimm sinnum í viku, þrjá tíma í senn.

„Í fyrra tókum við upp dansinn og sendum hann út í keppnina,“ segir Adríana, sem er byrjuð að undirbúa sig fyrir næstu keppni sem verður á Spáni í júní.

Adríana æfir acrobat hjá Plié Listdansskóla.
Mynd/Pétur Kjartan Kirstinsson

Vantaði mömmuknús

„Ég er bara búin að vera í símanum og horfa á sjónvarpið og svo hef ég reyndar líka farið í göngutúr,“ svarar Adríana, þegar hún er spurð hvernig hún hafi stytt sér stundir þessa 50 daga af heimahangsi.

„Mamma hefur oftast verið með mér, en pabbi fór út að smíða ef hann hafði ekkert að gera,“ segir hún og hlær. „Mér fannst samt erfiðast að mega ekki knúsa mömmu og að fá ekki að fara á æfingar.“