Amazon Prime

Coming to America 2

Leikstjórn: Craig Brewer

Aðalhlutverk: Eddie Murphy, Arsenio Hall, Jermaine Fowler, KiKi Layne, Leslie Jones

Eddie Murphy var frábær í hinum löngu sígildu myndum Beverly Hills Cop, Trading Places og 48 Hrs. sem á árabilinu 1982-1984 gerðu hann að eftirsóttasta og vinsælasta leikara níunda áratugarins.

Hann var því á hátindi frægðar sinnar og réði öllu sem hann vildi ráða þegar hann trommaði upp í gamanmyndinni Coming To America 1988 sem byggði á sögu sem hann samdi sjálfur og var allt í öllu.

John Landis leikstýrði myndinni en sá farsæli 80’s-leikstjóri hafði þá þegar gert garðinn frægan með til dæmis An American Werewolf in London, The Blues Brothers og Three Amigos! auk þess sem þeir Murphy höfðu áður unnið saman í Trading Places.

Sjálfum fannst Murphy hann svo fyndinn að hann lét sér ekki nægja að leika aðalhlutverkið heldur brá hann sér óþekkjanlegur í nokkur aukahlutverk og tókst ágætlega að stela senunni frá sjálfum sér sem eftirminnilega ruglaður rakari og fyrst og fremst söngvarinn Randy Watson í hljómsveitinni Sexual Chocolate.

Fyndinn Akeem

Coming to America sagði ósköp einfalda sögu dekurprinsins Akeem frá Afríkuríkinu Zamunda sem þvert á vilja föður síns, konungsins, hafnaði fyrirhuguðu hagsmunahjónabandi og hélt yfir hafið til New York í leit að sannri ást og drottningu í Queens-hverfinu.

Coming to America fékk fjórar stjörnur í Tímanum í október 1988 þar sem Akeem prins var sagður „léttur, fyndinn og beittur, eða einfaldlega góður“ og þess getið að hlátursöldurnar hafi margoft gengið um bíósalinn sem „þétt var setinn þótt um ellefu sýningu væri að ræða“.

Eddie Murphy og Arsenio Hall voru áttavilltir í Queens fyrir 30 árum.

Ekki þótti þó sérstök ástæða til þess að fylgja myndinni eftir með framhaldi fyrr en fyrst núna, 33 árum seinna. Eftirspurnin eftir Coming to America 2 virðist enda ekki hafa verið mikil og útkoman er þannig að betur hefði verið heima í Zamunda setið en af stað farið.

Í raun má deila um hvort Coming to America 2 sé boðleg bíómynd og því fer ákaflega vel á því að hún streymi í okkar átt frá Amazon Prime, hvar hún er ágætlega geymd.

Asnalegur Akeem

Murphy og Akeem báru gömlu myndina uppi en gera nú fátt markvert annað en draga framhaldið niður. Akeem er orðinn alger pappakassi og alveg pikkfastur í hefðunum sem hann reis upp gegn í fyrri myndinni og þar með hefur helsta grínmótornum verið kippt úr sambandi.

Murphy stendur því uppi ófyndinn og asnalegur þegar hann snýr aftur til New York til þess að leita að týndum syni sínum, getnum í lausaleik, þar sem elsta dóttir hans má ekki erfa konungsríkið og hann vantar tilfinnanlega son til þess að kvæna prinsessu nágrannaríkis og koma þannig í veg fyrir stríð. Allt er þetta margþvælt og þreytt og því miður átakanlega ófyndið.

Svo allrar sanngirni sé gætt er rétt að halda því til haga að undirrituðum þótti Coming to America frekar leiðinleg og hló lítið með salnum í Háskólabíói á sínum tíma. Þannig að væntingarnar voru ekki miklar til framhaldsins sem tókst engu að síður að valda vonbrigðum.

Úldið grín

Kjarninn í gríni gömlu myndarinnar var árekstur ólíkra menningarheima og hversu á skjön Akeem var við allt og alla í New York. Framhaldsmyndin hangir á sömu grunnhugmynd nema nú er öllu snúið á hvolf og úreltir og fullkomlega skrumskældir menningarheimar rekast nú á.

Zamunda minnir helst á einhvers konar glansmynd af Sádí-Arabíu þar sem konurnar eru almennt voða glaðar en mega hvorki erfa krúnuna né eiga fyrirtæki auk þess sem ekkert er sjálfsagðara en að þrjár naktar „baðkonur“, eða ambáttir öllu heldur, skelli sér í pottinn til þess að þrífa ríkisarfann.

KiKi Layne reynir að rétta hlut kvenna í súrum heimi Zamunda.

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um hversu óbærilega úrelt og glatað þetta er allt saman en af myndinni mætti ætla að nákvæmlega ekkert hafi gerst á síðustu 30 árum í gerð gamanmynda eða bara heiminum yfirleitt.

Eitthvað er þó verið að rembast við að rétta kynjahallann í ódýrum endalokum sögunnar en þær björgunaraðgerðir eru, eins og flest annað, átakanlega hallærislegar og bæta engan veginn fyrir að höfundum hafi dottið þessi grínfornleifafræðí í hug til að byrja með.

Wesley Snipes í stuði

Auk Murphys endurtaka helstu leikarar fyrri myndarinnar rullur sínar og tekst í örfáum tilfellum að kalla fram smá nostalgíu. Arsenio Hall er enn ágætur Semmi, hægri hönd prinsins, og aldurhniginn James Earl Jones er merkilega brattur sem gamli kóngurinn.

John Amos bregst heldur ekki í hlutverki tengdapabbans og hamborgarakóngsins McDowell en mest reisn er yfir Shari Headley í hlutverki drottningarinnar af Zamunda, sönnu ástarinnar sem Akeem fann í Queens fyrir 33 árum.

Útbrunninn Wesley Snipes ofleikur skemmtilega.

KiKi Layne er öflugasti nýliðinn sem elsta prinsessan, sem lætur ekki bjóða sér að þegja bara og vera sæt. Jermaine Fowler er hins vegar ósköp ráðvilltur sem týndi sonurinn og hefur ekki gramm af þeim gamanleikhæfileikum sem Murphy sýndi í fyrstu myndinni.

Sagan er svo máttlaus og myndin samhengislaus að hún stendur ekki undir lengdinni þannig að ítrekað er skipt yfir í tónlistar- og dansatriði sem mögulega eru það skemmtilegasta við myndina enda skjóta þar upp kollinum til dæmis En Vogue, Gladys Knight og Salt-N-Pepa í hörkustuði.

Hinn guðdómlegi Morgan Freeman er einnig ánægjulegur leynigestur en líklega segir allt sem segja þarf að Wesley Snipes er skemmtilegastur í þessu partíi sem króníska boðflennan, vondi herforingi nágrannaríkisins.

Niðurstaða: Salurinn hló víst eitthvað að Coming to America 1988 en sem betur fer er enginn salur lagður undir ófyndið og óþarft framhaldið sem keyrir á úreltu gríni og úldnum staðalmyndum og er ekki bíóferðar virði þótt líklega drepi það engan að streyma myndinni. Tekur því samt tæplega.