Á veturna gegnir Úlfur stöðu aðstoðarskólastjóra hjá skátafélaginu Segli. „Síðustu ár hef ég verið sjálfboðaliði en næsta vetur verð ég launaður starfsmaður hjá þeim.“ Skáta- og björgunarsveitarstarfið heillaði snemma því eins og hann segir, þá var alltaf alls konar sniðugt og spennandi að gera. Úlfur hefur gaman af göngum og gengur oft á fjöll. Hann segist þó ekki viss um hvort sá áhugi komi úr skátastarfinu eða annars staðar frá. „Ég hef verið svolítið upptekinn í sumar í öðru en ég gekk samt Laugaveginn á einum degi núna síðast. Þá var ég duglegri síðasta vetur að ganga á fjöll.“

Grænkeri frá unglingsaldri

Úlfur býr hjá móður sinni og hefur verið grænkeri síðan hann var þrettán ára. „Ég hef mjög gaman af því að elda mat og baka og hef eiginlega eldað minn mat sjálfur frá því ég varð vegan. Þá er ég líka í súrdeigsbakstri og annað.“ Aðspurður hvort hann sé kokkurinn á heimilinu þá segir hann móður sína vera hrifnari af einfaldari máltíðum þegar hún kemur heim úr vinnunni. „Ég er mun duglegri að elda og baka með vinum mínum.“

Sem grænkeri og sælkeri, hvernig mat tekurðu með þér í göngur?

„Ég er mikið með flatkökur með alls konar áleggi eins og hummus eða hnetusmjöri. Svo eru til mjög góðir tilbúnir réttir í Veganbúðinni sem ég hef verið að nýta mér. Satt best að segja þá er úrvalið á tilbúnum grænkeraréttum sem henta í göngur eiginlega betra en á öðrum tilbúnum mat. Þeir í Veganbúðinni eru með alls konar grænmetisrétti, núðlur og pasta. Svo er til matur sem maður hitar upp, alls konar girnilegur dósamatur og svo réttir sem þarf bara að hella heitu vatni út á. Sjálfur hef ég prófað að blanda minn eigin mat í margnota sílíkonpoka sem maður hellir svo vatni út á. Plastpoki virkar líka vel ef ég er að fara í lengri göngur því þeir eru léttari.“

Lifrapylsan innihélt engar kjötafurðir en sló í gegn á klifurmótinu. Fréttablaðið/Getty

Vegan slátur sló í gegn

„Ég er líka í klifri og hef síðustu ár eldað súpu fyrir klifurmót.“ Núna síðast ákvað Úlfur að breyta út af venjunni og fann uppskrift að vegan lifrarpylsu á vefsíðunni graenkerar.is. Þá bauð hann upp á vegan lifrarpylsu með grjónagraut. Uppskriftin vakti forvitni Úlfs og ákvað hann að skella í lifrarpylsuform. „Þegar ég var krakki var alltaf til lifrarpylsa heima hjá mér. Fólkið á mótinu var yfir sig hrifið. Ég var ekkert að upplýsa það um að þetta væri vegan uppskrift og gestirnir virtust ekki kippa sér upp við að það væru engar kjötafurðir í lifrarpylsunni. Sjálfum fannst mér skemmtilegt að prófa þetta og svo var þetta bara geggjað gott. En ég hef enn ekki prófað að fara með vegan slátrið í göngur.“

Kokkurinn kannski næstur

Úlfur var í húsasmíðanámi og hefur klárað allt nema samninginn. „Ég hef ekki lengur áhuga á húsasmíði en hef ákveðið að færa mig yfir á félagsfræðibraut og klára stúdentinn þannig. Svo er aldrei að vita nema kokkurinn komi eftir það. Þá þyrfti ég eiginlega að fara í nám erlendis. Kokkanámið heima býður því miður eiginlega ekki upp á vegan matreiðslu. Ég gæti til dæmis farið til Svíþjóðar, London eða Spánar en það fer eftir því hvernig mat ég myndi vilja elda, þá hvort ég myndi halda mig við hollustumatseldina, en ég er ekkert endilega viss um að ég myndi vilja reka svoleiðis veitingastað.“ ■