Myndband úr smiðju rússneska stjórnarandstöðumannsins Alexei Navalny heldur því fram að Vladimir Pútin, Rússlandsforseti, eigi 175 milljarða króna höll sem fjármögnuð var með illa fengnu fé. Fram kemur að forsetinn vilji ekki að neinn viti af tilvist hallarinnar.
Myndbandið hefur farið eins og eldur um sinu og hefur það þegar verið spilað 43 milljón sinnum. Í myndbandinu segir Navalny að bandamenn Putins, þeirra á meðal olíu forstjórar og billjónamæringar, hafi borgar fyrir byggingu hallarinnar sem á að hafa kostað 1,35 milljarð dollara, eða 175 milljarða íslenskra króna.
„Þeir byggðu höllina fyrir yfirmann sinn með hans eigin peningum,“ útskýrir Navalny. Hann fullyrðir að þarna séu á ferðinni íburðarmestu mútur mannkynssögunnar.
Öllu til tjaldað
Í myndbandinu eru sýndar myndir af svæði við Svarta hafið þar sem höllin og aðrar byggingar á lóðinni sjást. Höllin sjálf er tæplega 13 þúsund fermetrar á stærð. Þá voru birtar 3D teikningar innan úr höllinni þar sem meðal annars er að finna sundlaug, leikhús, spilavíti og strípistað.
Navalny hefur ætíð verið gagnrýnin á Pútín en hann var síðastliðna helgi úrskurðaður í 30 daga varðhald við endurkomuna til Rússlands. Hann mun sitja í fangelsi að minnsta kosti til 15. febrúar. Fimm mánuðir eru síðan eitrað var fyrir Navalny í Síberíu en hann telur rússnesk stjórnvöld hafa staðið að baki morðtilræðisins.











