Hvort sem ætlunin er að láta ilminn endast sem best í glasinu uppi í hillu eða þegar búið er að spreyja honum á kroppinn eru hér nokkur skotheld ráð.

Spreyjaðu á fötin þín

Ekki bara spreyja ilmvatninu á kroppinn heldur spreyjaðu því líka á fötin þín. Fataefnið getur haldið ilminum heillengi, jafnvel eftir að þú þværð flíkina, svo veldu ilminn vel.

Spreyjaðu á sjálfa/n þig

Sumir velja að spreyja ilminum út í loftið og ganga í gegnum ilmskýið og halda að það dugi til að ilma eins og sólin. En það virkar ekki alveg þannig, ilmurinn hverfur fyrr og þú hreinlega sóar dýru ilmvatni með þessari aðferð. Spreyjaðu einfaldlega beint á bert holdið og ilmurinn helst.

Spreyjaðu fyrir ofan eyrun

Þetta kann að hljóma undarlega en virkar. Því feitari sem húðin er því betur heldur hún í ilminn og fyrir ofan eyrun er hún aðeins feitari en t.d. á bak við eyrnasneplana.

Ekki geyma ilmvatnið inni á baðherbergi

Hiti, ljós og raki hefur allt skaðleg áhrif á ilmvatnið og minnkar styrk þess. Geymdu ilmvatnið frekar á köldum og þurrum stað eins og t.d. á snyrtiborðinu í svefnherberginu og gættu þess að það sé ekki við glugga.

Spreyjaðu ilmvatni á þig beint eftir sturtu

Raki húðarinnar læsir ilminn betur við hana auk þess sem að þannig kemurðu í veg fyrir að ilmvatnið seti blett í fatnaðinn.

Gott ráð er að spreyja ilmvatni á kroppinn beint eftir sturtu. Nordicphotos/Getty

Berðu vaselín á húðina

Nuddaðu vaselíni á innanverðan úlnliðinn áður en þú spreyjar ilmvatni þar og ilmurinn endist lengur. Rakinn læsir ilminn betur inni heldur en ef þú myndir spreyja á þurra húðina.

Berðu á þig ilmefnalaust krem

Nuddaðu ilmefnalausu kremi á húðina áður en þú setur á þig ilmvatn. Eins og áður var nefnt þá helst ilmurinn betur á feitri húð svo feitt ilmefnalaust krem hjálpar til við að viðhalda ilminum.

Ekki nudda úlnliðunum saman

Ef úlnliðunum er nuddað saman eftir að ilmvatninu er spreyjað á þá endist ilmurinn styttra.

Veldu staði með púls

Ef þú vilt láta ilminn endast lengur ættirðu að velja nokkra staði með púls. Heitir staðir hjálpa nefnilega til við að dreifa ilminum. Annað ráð er að spreyja ilminum á ökkla og kálfa því þannig stígur ilmurinn upp á við út daginn.

Nokkrir púlsstaðir eru: innanverðir úlnliðir, olnbogabót, háls, magi, hnésbót.

Gott er að spreyja ilmvatni á staði með púls, eins og t.d. innanverðan úlnliðinn. Nordicphotos/Getty

Spreyjaðu ilmvatni í hárburstann

Að spreyja ilmvatni með alkóhóli beint í hárið getur þurrkað það en gott ráð er að spreyja því í burstann áður en honum er rennt í gegnum hárið. Þannig kemur léttur ilmur í hárið án þess að það skemmist.

Blandaðu ilmvatni við ilmefnalaus líkamskrem

Ef ilmvatnið er alveg að klárast er ráð að blanda restinni við ilmefnalaust líkamskrem, eða handáburð og engu er sóað.

Notaðu hreinsiklút til að losna við ilm

Ef þú prófar ilm sem þér svo líkar ekki við er gott ráð til að losna við lyktina að nudda húðina með einnota farðahreinsiklút. Virkar hratt og örugglega.

Settu ilmandi bréf í fataskúffuna

Settu bréf neðst í fataskúffuna og spreyjaðu ilmvatninu þínu á þau. Þannig munu fötin þín ilma eins og þú vilt.