Europa Cinemas, samtök 1232 listabíóa í 43 löndum, hafa sent borgarstjóra og mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem lýst er yfir stuðningi við Bíó Paradís og hvatt til þess að forða bíóinu frá lokun. Greint er frá þessu inn á Klapptré.

„Bíó er eitt af flaggskipum Europa Cinemas; eina listakvikmyndahúsið á íslandi þar sem sjálfstæðar evrópskar kvikmyndar fá að fara í sýningu. Þar er einnig einstakt fræðslusetur fyrir ungmenni. Frá því að Bíó Paradís opnaði árið 2010, hafa sýningar á kvikmyndum, frá öðrum framleiðslufyrirtækjum en í Hollywood, fjórfaldast á Ísland. Sala á miðum eykst með hverju ári og fór úr 37 þúsund upp í 59 þúsund frá 2011 til 2019,“ sagði Claude-Eric Poiroux, forstjóri Europa Cinemas.

Tilkynnt var í lok janúar að Bíó Paradís hefði sagt upp öllu sínu starfsfólki og að bíóhúsið myndi loka 1. maí næstkomandi. Að baki voru ýmsar ástæður; leigusamningur bíósins rennur út í byrjun maí og reksturinn hefur ekki haft svigrúm til að bregðast við þeirri hækkun leiguverðs sem við blasir.

Ótalmargir hafa kallað eftir aðstoð frá yfirvöldum til að koma í veg fyrir lokunina. Leikarinn Vilhelm Neto setti á laggirnar undirskriftalista til að vekja athygli á starfseminni og hvetja stjórnvöld til að skarast í leikinn og koma í veg fyrir lokunina.

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur skoruðu einnig á yfirvöld og eigendur Herfisgötu 54 að finna lausn á húsnæðisvanda kvikmyndahússins Bíó Paradísar.

„Bíó Paradís hefur verið samkomuhús fyrir unnendur kvikmynda, vagga stórra og smárra kvikmyndahátíða sem og burðarstólpi í uppbyggingu kvikmyndafræðasamfélagsins á Íslandi,“ sagði Silja Björk Björnsdóttir kvikmyndafræðingur inn á vef Hugrás nú á dögunum.

Line Bjørn Daugbjerg Christensen, framkvæmdastjóri Öst for Paradis, systurbíós Bíó Paradísar í Árósum, hefur einnig sent frá sér stuðningsyfirlýsingu:

„Menning Íslands myndi skorta mikið ef ekki væri fyrir þær einstöku Arthouse sýningar í Bíó Paradís. Að þetta skuli gerast, í einni af fremstu borgum heims á sviði menninga, er hörmung!“

Line Bjørn Daugbjerg Christensen, framkvæmdastjóri Öst for Paradis, systurbíós Bíó Paradísar í Árósum.
Mynd/Krogerup Hojskole