Fiskidagurinn mikli var haldinn í 19. Sinn í Dalvíkurbyggð á laugardaginn. Hinsegin dagar voru heiðursgestir hátíðarinnar í ár og mátti sjá mark þeirra á fjölbreyttri dagskrá helgarinnar. Regnbogagata var vígð í bænum við hátíðlega athöfn og litríkir tónleikar sáu til að enginn hátíðargestur sneri heim með sárt ennið.

Gunnar Arason, skipstjóri, var heiðraður fyrir framlag sitt til sjávarútvegs í Dalvík en hann á farsælan skipstjóraferil að baki sér. Var hann meðal skipverja á skipinu Lofti Baldvinssyni EA 24, sem var á sínum tíma meðal tekjuhæstu skipa Íslands. Skipverjar skipsins eru rómaðir fyrir að hafa byggt upp heila götu í Dalvík á árunum 1970-1975 þegar best var í sjóinn.

Allir fengu súpu

Alls buðu 120 fjölskyldur upp á fiskisúpu á Fiskideginum mikla á föstudaginn þar sem gestir heimsóttu heimamenn og nutu þess að smakka ólíkar útgáfur af þessari frægu súpu. Allur matur sem varð afgangs yfir hátíðina var síðan sendur Samhjálp í Reykjavík svo ekkert færi til spillis.

Fjörur voru hreinsaðar á svæðinu þar sem sjálfboðaliðar tóku til hendinni og söfnuðu rusli úr fjörunni. Gífurlegt magn af rusli safnaðist og var svo sýnt gestum og gangandi til að stuðla að vitundarvakningu á neyslumenningu.

Tónleikar á heimsmælikvarða

Þotuliðið tróð svo upp á einum stærstu tónleikum sem sést hafa á Dalvík en fram komu heimamenn á borð við Friðrik Ómar og Matta Matt ásamt goðsögnum í líkindum við Pál Óskar, Svölu Björgvins, Bjartmar Guðlaugs, Siggu Beinteins og svo mætti lengi telja.

Hér má sjá myndir frá helginni:

Engin fiskisúpa var eins og sú næsta og því mikið verk að smakka þær allar.
Mynd/Bjarni Eiríksson
Boðið var upp á ýmsar krásir hafsins.
Mynd/Bjarni Eiríksson
Matseðill Fiskidagsins mikla hefur aldrei verið eins fjölbreyttur enda um 25 réttir á seðlinum.
Mynd/Bjarni Eiríksson
Gunnar Arason, skipstjóri, var heiðraður á hátíðinni.
Mynd/Bjarni Eiríksson
Heimamennirnir Matti Matt, Friðrik Ómar og Eyþór Ingi voru í essinu sínu.
Mynd/Bjarni Eiríksson
Engin lét sig vanta á eina glæsilegustu tónleika Dalvíkur frá upphafi.
Mynd/Bjarni Eiríksson
Páll Óskar bauð upp á litadýrð, glimmer og gleði á tónelikunum.
Mynd/Bjarni Eiríksson