Tilnefningar til Razzie-verðlaunanna voru opinberaðar í vikunni og er óhætt að segja að þær hafi valdið talsverðu fjaðrafoki eftir að tólf ára stúlka hlaut tilnefningu sem versta leikkonan.
Tilnefningar til Razzie-verðlauna eru opinberaðar um svipað leyti og tilnefningar til Óskarsverðlauna. Í stað þess að verðlauna það besta eru viðurkenningar veittar fyrir það versta í Hollywood.
Hin tólf ára Ryan Kiera Armstrong, sem er aðeins 12 ára, hlaut tilnefningu sem versta leikkonan fyrir leik sinn í kvikmyndinni Firestarter. Var það harðlega gagnrýnt að forsvarsmenn hátíðarinnar skyldu veita barni tilnefningu en Armstrong var 11 ára þegar hún lék í myndinni.
Forsvarsmenn Razzie-verðlaunanna hafa nú brugðist við þessu og dregið tilnefninguna til baka. John Wilson, stofnandi hátíðarinnar, segir að gagnrýnin hafi verið réttmæt og héðan í frá verði einstaklingar undir 18 ára ekki tilnefndir í neinum flokkum.
Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér bað hann Armstrong afsökunar á tilnefningunni. „Stundum gerir maður hluti án þess að hugsa,“ bætti hann við.
Meðal þeirra sem gagnrýndu tilnefninguna var leikarinn ungi Julian Hillard úr Wandavision. Sagði hann að Razzie-verðlaunin væru taktlaus og það væri fyrir neðan allar hellur að tilnefna barn sem versta leikarann. Julian er sjálfur 11 ára.
Í umfjöllun Guardian er bent á að Armstrong sé ekki fyrsta barnið til að hljóta tilnefningu í 42 ára sögu hátíðarinnar. Jake Lloyd hlaut tilnefningu fyrir leik sinn í myndinni Phantom Menace og þá var Macaulay Culkin tilnefndur sem versti leikarinn í þremur myndum árið 1995.