Á banda­rísku frétta­skýringar­síðunni Vox hafa verið teknar saman ellefu banda­rískar kvik­myndir sem varpa ljósi á að­stæður svartra í Banda­ríkjunum, sögu þeirra og þann ras­isma sem þeir verða fyrir.

Það hefur lík­lega ekki farið fram hjá neinum að bylgja mót­mæla gegn kyn­þátta­mis­rétti og lög­reglu­of­beldi hefur farið um alla sam­fé­lags­miðla síðustu daga. Upp­spretta þess er mynd­band af lög­reglu­þjóni í Minnea­polis krjúpa á hálsi ó­vopnaðs svarts manns þar til hann lést.

Maðurinn hét Geor­ge Floyd og hefur dauði hans orðið til fjölda­mót­mæla um öll Banda­ríkin og víðar þar sem fólk kallar eftir rétt­læti.

Myllu­merkið #BlackLi­ves­Matter hefur sjaldan verið jafn mikið notað, og í gær birtu þúsundir not­enda svarta mynd með myllu­merkinu #BlackoutTu­es­day til að sýna sam­stöðu og minna á á­standið í Banda­ríkjunum.

Nú kalla aktiv­istar um allan heim eftir því að fólk sýni ekki að­eins sam­stöðu í orði heldur einnig á borði, ýmist með því að fræða sig eða taka þátt í bar­áttunni gegn kyn­þátta­mis­rétti. Eitt af því sem hvítt fólk getur gert er að líta í eigin barm og vera með­vitað um eigin for­réttindi.

Hér að neðan má lesa og horfa á stiklur úr ellefu kvik­myndum sem varpa ljósi á að­stæður svartra í Banda­ríkjunum.

Did You Wonder Who Fired the Gun (2017)

Kvik­myndin er heimildarmynd eftir Tra­vis Wil­ker­son. Lang­afi hans myrti svartan mann árið 1946 og komst upp með það.

Kvik­myndin fjallar um ferð barna­barns hans til Ala­bama, þar sem hann rann­sakar at­burðina.

Do the Rig­ht Thing (1989)

Um er að ræða klassíska mynd eftir Óskars­verð­launa­leik­stjórann Spi­ke Lee. Í myndinni bregst lög­regla við hópslags­málum með þeim af­leiðingum að einn litaður Banda­ríkja­maður lætur lífið.

Leik­stjórinn til­einkaði myndina Elea­nor Bumpurs, Michael Griffith, Arthur Miller Jr., Ed­mund Perry, Yvonne Smallwood, og Michael Stewart, en þau eru sex svört fórnar­lömb lög­reglu­of­beldis.

Harð­lega gagn­rýnd á sínum tíma fyrir að ýta undir spennu á milli svartra og hvítra en þykir í dag sýna raun­veru­leika svartra í Banda­ríkjunum með raun­sæjum hætti.

Get Out (2017)

Leik­stjórinn Jordan Peele leikur sér hér með hvers­dags­legan ras­isma sem svartir verða fyrir og gefur honum hryllings­legan blæ.

Hale Coun­ty This Morning, This E­vening (2018)

Heimildar­mynd RaMell Ross gefur sam­fé­lagi svartra í Hale sýslu í Ala­bama ljóð­rænan blæ.

Mark­mið leik­stjórans var að skora á hólm týpíska birtingar­mynd banda­rískra blökku­manna í kvik­myndum.

The Hate U Give (2018)

Amandla Sten­berg er hér í aðal­hlut­verki í kvik­mynd sem byggir á bók Angi­e Thomas.

Sten­berg fer með hlut­verk Starr, sem er ein fárra svartra nem­enda í einka­skóla. Hún verður vitni að því þegar lög­reglan skýtur svartan vin hennar til bana.

I Am Not Your Negro (2017)

Í ó­trú­legri heimildar­mynd er blásið nýju lífi í skrif rit­höfundarins og sam­fé­lags­rýnisins James Baldwin.

Baldwin lést árið 1987 og fjallar myndin ekki um hann heldur gefur hún orðum hans, undir sögu­lestri Samuel L. Jack­son, nýtt líf þar sem staða svartra í Banda­ríkjunum er skoðuð undir smá­sjá.

If Bea­le Street Could Talk (2018)

Barry Jenkins vann Óskarinn fyrir kvik­myndi sína Moon­light. If Bea­le Street Could Talk var hans næsta verk­efni.

Sögu­svið myndarinnar er Harlem og fjallar hún um ungt svart par sem er ást­fangið.

Fljót­lega vefjast þó kröfur sam­fé­lagsins á áttunda ára­tug síðustu aldar fyrir þeim.

Lo­ving (2016)

Í kvik­myndinni Lo­ving er fjallað um einn þekktasta dóm Hæsta­réttar Banda­ríkjanna frá 1967 sem ó­gilti lög gegn hjóna­bandi hvítra og svartra.

Myndin gerir hið pólitíska per­sónu­legt og er um að ræða ástar­sögu hins hvíta Richard Lo­ving og eigin­konu hans, hinnar svörtu Mildred Jeter.

Qu­est (2017)

Í heimildar­myndinni Qu­est er fylgst með Rain­ey fjöl­skyldunni sem býr í norður­hluta Fíla­delfíu. Myndin var tekin upp á tíu ára tíma­bili og fer myndin í ó­vænta átt þegar harm­leikur skekur fjöl­skylduna.

Rat Film (2016)

Kvik­myndin Rat Film fjallar, þó ó­trú­legt megi virðast, um rottur og rottu­eitur­sér­fræðinga sem og rottu­veiðara auk þeirra sem halda rottum sem gælu­dýrum.

En hún fjallar líka um sögu kyn­bóta­stefnu, dular­fullum vísindum, þjónustu­skerðingu íbúa í ýmsum hverfum og að­skildum hverfum hvítra og svartra í Baltimor­e.

Selma (2014)

David Oyelowo fer með hlut­verk bar­áttu­mannsins Martin Lut­her King yngri í myndinni sem fylgir honum eftir á há­tindi ferils hans.

Hefst hún árið 1964 þegar King fékk Nóbels­verð­laun og lýkur með frægri bar­áttu­göngu hans frá Selma, í Ala­bama til Mont­gomery árið eftir.

Myndin er í leik­stjórn Ava DuVernay og sýnir með á­hrifa­ríkum hætti þá þrek­raunir sem King og fé­lagar hans gengu í gegnum.