Þjónustubók

Bílar þurfa reglulega á þjónustu að halda og rétt er að skipta um olíu og olíusíu á 15.000 kílómetra fresti, að lágmarki. Bílum á að fylgja þjónustubók þar sem þetta er skráð og gott er því að blaða aðeins í henni. Þar myndi meðal annars koma fram hvort skipt hafi verið um bremsur eða loftsíu svo eitthvað sé nefnt auk stærra viðhalds.

Eigendasaga

Eigendasaga getur skipt miklu máli. Sumir bílar hafa gengið á milli og verið í eigu fjölda eigenda. Líklegra er að bíllinn hafi fengið rétt viðhald ef eigendur eru fáir. Margir notaðir bílar hafa aðeins verið í eigu bílaleiga og venjulega er viðhald á bílum þar gott, þótt sum fyrirtæki séu betri enn önnur.

Ábyrgð

Rétt er að skoða hvort bíllinn sé enn í ábyrgð eða ekki. Misjafnt er hversu lengi ábyrgð nær milli umboða og hvað hún nær yfir. Sum umboð bjóða fimm til sjö ára ábyrgð á meðan önnur bjóða aðeins þriggja ára ábyrgð, og notaður bíll sem er enn í ábyrgð er alltaf betri kostur en sá sem er það ekki.

Akstur/BGS

Kílómetrastaða bíls skiptir vissulega máli og gott getur verið að fara inn á heimasíðu Bílgreinasambandsins og skoða hversu mikils virði bíllinn er miðað við akstur. Þar er hægt að setja inn ýmislegar upplýsingar um bílinn til að fá verðmat hans. Bíll sem fengið hefur gott viðhald getur enn verið í góðu lagi þótt hann sé mikið keyrður og stundum hægt að gera góð kaup í slíkum bíl.

Dekkjabúnaður

Rétt er að skoða ástand dekkja og hvort þau séu í lagi því mikill kostnaður er falinn í endurnýjun dekkja. Skipt getur máli hvort bíllinn sé boðinn með aukagangi af vetrardekkjum svo ekki sé talað um hvort þau séu á felgum og borgar sig alltaf að spyrja að því.

Lakk og ryð

Ávallt skal skoða hvernig ástand er á lakki. Bíll sem er alltaf þveginn með bursta fær fínar rispur í lakkið sem gerir það mattara. Talsvert er um steinkast á Íslandi, jafnvel á götum höfuðborgarinnar og því er rétt að skoða hvort kvarnast hefur úr lakki. Skoða þarf hvort ryð sé farið að myndast í stálhlutum og sumir bílar eru viðkvæmir fyrir ryði í grind.

Aukabúnaður

Vel búinn bíll getur verið verðmætari en sams konar bíll sem er ekki eins vel búinn. Eins getur búnaður sem settur er eftir á skipt máli eins og til dæmis dráttarbeisli. Þótt erfitt geti verið að verðmeta slíkt er vel búinn bíll alltaf sölulegri.

Er bíllinn bilanagjarn?

Skoða má hversu mikið bílar bila almennt með því að gúggla tegund bílsins með orði eins og „repair“ eða „maintenance“ og sjá hvort komi upp reynslusögur um bilanir. Eins getur borgað sig að skoða hvort innkallanir séu skráðar á viðkomandi tegund en það má gera með því að gúggla tegund með orðinu „recall.“

Innrétting

Umgengni lýsir innri manni. Hvernig bíllinn lítur út að innan segir mikið um hvernig fyrri eigandi umgengst bílinn. Illa þrifinn bíll með rifin sæti er ekki góður kostur til dæmis. Hundaeigendur eru margir og hugsa mismunandi vel um umgengni hundanna við bílinn og því rétt að skoða ástand aftursætis og farangursrýmis líka.

Söluskoðun

Ef kaupandi notaðs bíls treystir sér ekki til að skoða vel ofantalda hluti getur borgað sig að fara með bílinn í söluskoðun til skoðunarfyrirtækja. Þar er boðið upp á yfirgripsmikla skoðun á ástandi bílsins. Einnig er hægt að fá ástandsskoðun hjá þjónustuverkstæðum.