Síldarárin 1867-1969 eftir Pál Baldvin Baldvinsson, bókmenntafræðing og menningarrýni, kemur út núna um helgina. Um er að ræða yfirgripsmikið tímamótaverk um þetta tímabil í sögu þjóðarinnar. Bókin er afrakstur áralangrar vinnu Páls við söfnun ljósmynda, endurminninga og annarra heimilda um síldarævintýrið í sögu íslensku þjóðarinnar.

„Ég hafði áhuga á að fjalla um síldarárin út frá persónulegri reynslu og lífi þess fólks sem vann við síldina, hvort sem það stóð á síldarplaninu að salta síld í tunnur eða sótti sjóinn að veiða silfur hafsins. Í bókinni eru meðal annars frásagnir karla og kvenna, úr öllum stéttum samfélagsins,“ segi Páll, en hann hefur áður skrifað metsölubókina Stríðsárin 1938-1945.

„Þegar ég skoðaði heimildir rakst ég óneitanlega á margar frásagnir af karlmönnum en mig langaði að skoða sögu síldarkvenna og barna sérstaklega. Þær unnu mikla erfiðisvinnu við að salta síldina og ráku um leið heimili. Mér fannst líka áhugavert að varpa ljósi á líf barna sem ólust upp þegar þessar ofsaveiðar stóðu yfir og hvaða áhrif það hafði á þau,“ segir Páll og bætir við að það hafi verið feikilega gaman að kynna sér þessa merkilegu sögu sem hafði mikil áhrif á líf og efnahag þjóðarinnar. „Inn í þetta allt fléttast svo örlagasaga auðkýfinga og hvernig fór fyrir þeim. Sumir þeirra voru ríkir einn daginn en öreigar þann næsta. Einnig segi ég frá skemmtilegum síldarspekúlöntum,“ nefnir Páll.

Elti síldina í gegnum Íslandssöguna

Hann leitaði heimilda bæði hérlendis og erlendis og segist hafa elt síldina í gegnum Íslandssöguna. „Síldin átti sinn þátt í að Ísland breyttist úr örsnauðu landi í tæknivætt velferðarríki. Ósennilegt er að lífskjör væru hér sem raun ber vitni ef hennar hefði ekki notið við,“ segir hann.

Þetta ævintýralega skeið Íslandssögunnar hófst með síldveiðum Norðmanna undan Austurlandi á síðari hluta 19. aldar. „Í fyrstu höfðum við Íslendingar hvorki skip, síldartunnur, salt né verksmiðjur til að vinna úr síldinni og bræða úr henni lýsi en það átti eftir að breytast. Sumir þéttbýlisstaðir breyttust úr kaupstöðum í útgerðarbæi, söltunarbryggjur risu víða um land og sömuleiðis stórvirkar síldarverksmiðjur. Á þeim tíma voru þetta stærstu verksmiðjur landsins og þótt víðar væri leitað. Á Siglufirði og Djúpavík voru reistar gríðarstórar og fullkomnar verksmiðjur sem voru starfræktar í nokkur ár en þegar síldin hvarf stóðu þær tómar og eru nú orðnar rústir einar,“ bendir Páll á.

Síldin varð líka til þess að stórkostlegir fólksflutningar urðu landshorna á milli í hundrað ár, þar sem fólk fór tugum og jafnvel hundruðum saman, frá suður-, og suðvesturhorni landsins og austur á firði eða norður í land og settist þar að.

Bókin er prýdd fjölda mynda og hafa margar þeirra ekki áður sést á prenti. „Ég leitaði að myndum hér heima og úti, á héraðssöfnum, borgarsöfnum og þjóðminjasöfnum og tengi þær saman við textann,“ segir Páll að lokum en Forlagið gefur bókina út.

Páll Baldvin leitaði heimilda bæði hérlendis og erlendis og segist hafa elt síldina í gegnum Íslandssöguna.