Á erfiðum tíma í endurhæfingunni á Grensási, birtist mér í einum svip fegurð lífsins og jarðarinnar okkar. Síðan þá hef ég meðvitað reynt að njóta lífsins og þess sem það hefur upp á að bjóða.“

Þetta segir tónlistarkonan Helga Þórarinsdóttir sem varð fyrir mænuskaða á hálsi þegar leið yfir hana fyrir utan veitingahús árið 2012 með þeim afleiðingum að hún féll í götuna og lamaðist fyrir neðan brjóst.

„Yfirleitt er ég frekar létt í skapi en róðurinn er þó stundum þungur. Lífið á það til að vera ansi flókið og erfitt en ég gleymi því jafnóðum þegar ég vel að gera eitthvað skemmtilegt. Ég er heppin að eiga góða fjölskyldu og vini og að hafa áhuga á mörgu. Að sættast við orðinn hlut tekur langan tíma. Ég er á leiðinni þangað,“ segir Helga.

Hlustar, nýtur og ferðast

Helga var víóluleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, þegar slysið breytti öllu.

„Ég spila ekki framar á víóluna. Það er útilokað mál. Í staðinn er ég fastur tónleikagestur hjá Sinfó og bara alls staðar, því ég fer mikið á tónleika, hlusta og nýt þess út í ystu æsar,“ segir Helga sem er líka mikill náttúruunnandi.

„Ég geng ekki lengur um fjöll og firnindi, sem var mitt líf og yndi, en ég get enn notið náttúrunnar og fer oft til Þingvalla, því þar kemst ég um á hjólastólnum. Ég fer líka stundum norður í land og almennt mikið út, til dæmis um göngustígana í Elliðaárdalnum og þótt þetta sé ekki beint torfæruhjólastóll hef ég farið á honum yfir hraunstíginn inn í Skógarkot á Þingvöllum; auðvitað ekki ein en með vini sem er stór og sterkur. Það er staður sem ég elska, ég finn fyrir mótunarsögunni eins og Jónas lýsir í „Fjallið Skjaldbreiður". Fegurðin í mosanum og hrauninu er einstök, svo ekki sé minnst á fjallahringinn. Það er einhver sérstakur kraftur og mikil saga á Þingvöllum, finnst mér.“

Á lúxusgræju um allar trissur

Helga er nýkomin á splunkunýjan rafmagnshjólastól frá Stoð.

„Nýi stóllinn er algjör lúxusgræja. Það vantar bara á hann fluggírinn en það kemur kannski í næstu útgáfu,“ segir Helga og hlær. „Í nýja stólnum get ég staðið upp. Þá set ég upp hnéhlíf og get staðið eins lengi og ég þoli. Það er dásamleg tilfinning og mikill léttir, því það er þreytandi fyrir bakið að sitja endalaust auk þess sem það ku vera gott fyrir beinin.“

Helga segir rafmagnshjólastólinn hafa opnað sér dyr að lífinu.

„Ég hef oft hugsað að hefði ég lamast fyrir uppfinningu rafmagnshjólastólsins lægi ég sennilega mest bakk og ósjálfbjarga í rúminu. Stólinn gerir mig frjálsari, og gerir mér kleift að taka þátt í lífinu og vera á meðal fólks. Ég nota hjólastólinn til að rúnta um allar trissur því mér finnst nauðsynlegt að komast út undir bert loft og fer iðulega um bæinn í stólnum til að fá frískandi vind í fangið, andlitið og hárið,“ segir Helga sem býr í miðbæ Reykjavíkur.

„Þar eru upphitaðar gangstéttir og ég kemst leiðar minnar í búðir þegar snjór er. Er svo enga stund að koma mér í Hörpu, Þjóðleikhúsið og Bíó Paradís. Ég fer auðvitað bara á staði þar sem er gott aðgengi, en það er bæði menningarlegt og nútímalegt að hafa gott aðgengi fyrir fatlaða og mikill doði að gera ekki úrbætur þar sem þarf.“

Unglingarnir yndislegir

Helga starfar sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Seltjarnarness og Tónskóla Sigursveins og stjórnar þar strengjasveit elstu nemenda.

„Við æfum vikulega og unglingarnir kynnast tónbókmenntunum. Af því leiðir yndisleg samvera og vinátta. Það er óskaplega gaman að vinna með ungu fólki,“ segir Helga.

Strengjasveitin á vinahljómsveit í Ameríku og hefur Helga farið með henni vestur um haf í rafmagnshjólastólnum, rétt eins og þrumuguðinn Þór sem fór á sínum vagni sem hann beitti höfrunum Tanngrisni og Tanngnjóstri fyrir.

„Ég hef ferðast mikið út fyrir landsteinana á hjólastólnum. Þannig hef ég meðal annars þvælst um Rómarborg og Vínarborg, en þegar ég kvaddi gamla rafmagnshjólastólinn minn í sumar hafði ég keyrt á honum yfir 9.000 kílómetra á fimm árum, sem samsvarar þó nokkrum hringjum í kringum landið. Þegar ég fór til Rómar bjóst ég frekar við að lenda í vandræðum, að Ítalir væru óskipulagðir. En viti menn, þessi forna menningarþjóð er fyrsta flokks í aðgengi fatlaðra. Reykjavíkurborg mætti vel taka sér Róm til fyrirmyndar og sýna svolitla reisn."

Hlakkar til heimsókna í Stoð

Á ferðalögum sínum um heiminn hefur Helga hvergi séð jafn flotta og fullkomna rafmagnshjólastóla og hún notar. Þeir eru sænskir, en Stoð flytur þá inn og sér um að breyta þeim og þjónusta.

„Það gerir gæfumuninn að hafa svo góðan rafmagnshjólastól til umráða, því þótt ég hafi mátt í handleggjunum eru hendurnar og fingurnir kraftlitlir og ég get ekki ýtt mér áfram í venjulegum hjólastól svo vel sé. Þetta er mikil lömun en það vefst ekki svo mikið fyrir mér þegar ég er í stólnum því þá get ég gert það sem ég vil og er andlega hress og klár á öllu,“ segir Helga, sem dásamar bæði starfsfólkið og þjónustuna í Stoð.

„Þegar gamli stóllinn var að syngja sitt síðasta var ég eins og grár köttur í Stoð og í hvert sinn mætti ég sömu einstöku ljúfmennskunni enda er starfsfólkið þar alveg sérstakt. Því er alltaf auðvelt fyrir mig að fara í Stoð, ég er himinsæl með þjónustuna og samskiptin, og auðvitað með stólinn.“