Svanhildur Jónsdóttir samgönguverkfræðingur og Stefán Gunnar Thors, umhverfishagfræðingur hjá VSÓ Ráðgjöf, eru í sérfræðiteymi sem vinnur að frumdrögum að 1. áfanga Borgarlínunnar. Teymið samanstendur af ráðgjöfum og fagaðilum frá eigendum Borgarlínunnar, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin.

„Núna eru í vinnslu frumdrög fyrir fyrsta áfanga Borgarlínunnar, sem er frá Ártúni að Hlemmi og frá Hlemmi að Hamraborg í gegnum Kársnesið. Þessi áfangi snýr að því að byggja upp innviði tengda samgöngum, svo sem sérrými fyrir Borgarlínu, stíga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og akbrautir fyrir bíla. Áætlað er að þessi hluti verði tilbúinn árið 2023. Í framhaldi frumdraga fyrir 1. áfanga verður unnið að næstu skrefum varðandi Borgarlínuna,“ segir Svanhildur.

Með tilkomu þessa áfanga munu Borgarlínan og vagnar Strætó geta nýtt innviði á umræddum kafla og fengið sérrými og forgang á gatnamótum. „Samhliða þessu verður tekið upp nýtt og betra leiðakerfi Strætó bs., sem er lykilþáttur í því að þjónusta fyrir farþega verði bæði skilvirkari og betri,“ segir Svanhildur en hún hefur áður unnið að fjölbreyttum verkefnum á öllum hönnunarstigum, verið umferðaröryggisrýnir og gert rannsóknaverkefni um umferðaröryggi og Borgarlínuna. Hún segist einnig læra mikið af klárum samstarfsfélögum og kraftmiklum konum í Félagi kvenna í atvinnulífinu, FKA.

Svanhildur Jónsdóttir, samgönguverkfræðingur og sviðsstjóri, og Stefán Gunnar Thors, umhverfishagfræðingur og sviðsstjóri, eru fyrir hönd VSÓ Ráðgjafar í teymi sem vinnur að fyrsta áfanga Borgarlínunnar.?FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Áhrif Borgarlínunnar mikil

Svanhildur segir mjög spennandi að taka þátt í frumdrögum að almenningssamgöngum á þann hátt sem ekki hefur verið gert áður á Íslandi. „Fyrir mig sem samgönguverkfræðing er þetta draumaverkefni. Tilkoma Borgarlínunnar og nýs leiðakerfis Strætó bs. á eftir að gjörbreyta samgöngum á höfuðborgarsvæðinu í heild sinni. Samgöngur verða ekki aðeins greiðfærari og áreiðanlegri fyrir þá sem nota almenningssamgöngur, heldur einnig fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Þetta gerir það að verkum að það verður raunhæfur kostur fyrir fleiri að velja vistvæna ferðamáta. Vissulega munu margir halda áfram að velja einkabílinn sem sinn aðalferðamáta, en fólk fær meira val en áður, sem er jú markmiðið með Borgarlínunni. Líklegt er að fleiri velji og geti lifað bíllausum lífsstíl og ýtir tilkoma deilileiga, sem nú eru að koma inn á markaðinn, undir það. Jafnframt munu t.d. heimili sem reka tvo bíla geta átt einn bíl í staðinn, sem getur haft mikil áhrif á fjármál heimilisins og jákvæð áhrif á lýðheilsu,“ bendir Svanhildur á.

Sjálfbærni mun aukast

Lögð verður áhersla á að umhverfi stöðva Borgarlínu verði aðlaðandi. „Í kringum stöðvarnar er stefnt að þéttingu byggðar, sem er lykilinn að því að fleiri geti búið og unnið í nágrenni við stöðvarnar. Ákveðinn þéttleiki þarf að vera til staðar til að Borgarlínan geri það gagn sem henni er ætlað að gera. Með tilkomu Borgarlínunnar, vistvænna ferðamáta og samgöngumiðaðs skipulags, er mótuð umgjörð sem getur aukið sjálfbærni höfuðborgarsvæðisins. Nefna má að með tilkomu svokallaðra örflæðistækja, svo sem rafskúta, kemst fólk lengri vegalengd á styttri tíma, og getur auðveldlega tekið slík tæki um borð í vagna Borgarlínunnar, sem styrkir líklega farþegagrunn hennar,“ segir Svanhildur.

Unnið þverfaglega

VSÓ Ráðgjöf hefur einnig unnið að breytingum á aðalskipulagi og svæðisskipulagi vegna Borgarlínunnar, gert umferðarspár og vefsjá, auk þess að sinna þróunarvinnu með fasteignafélögum. „Borgarlínuverkefnið er unnið þverfaglega á milli sviða hjá VSÓ Ráðgjöf, en hjá fyrirtækinu starfar rúmlega áttatíu manna samhentur hópur verkfræðinga, tæknimenntaðra starfsmanna og annarra sérfræðinga. Víðtæk reynsla og þekking starfsmanna VSÓ byggir m.a. á fjölbreyttum verkefnum sem fyrirtækið hefur unnið að hér á landi og erlendis, á þeim rúmlega 60 árum sem liðin eru frá því fyrirtækið var stofnað árið 1958. VSÓ er með skrifstofu í Borgartúni og í Noregi,“ segir Svanhildur að lokum.

Nánari upplýsingar www.vso.is

Hér er dæmi um glæsilega borgarlínustöð sem er í Metz í Frakklandi.