Í janúar koma í kvikmyndahús myndirnar The 355 og Scream sem fjallað er um annars staðar í þessu blaði.

Í febrúar verður Jackass-gengið á ferðinni með Johnny Knoxville og Steve-O í broddi fylkingar í myndinni Jackass Forever. Rómantíska gamanmyndin Marry Me með Jennifer Lopez og Owen Wilson í aðalhlutverkum kemur einnig í kvikmyndahús sem og endurgerð á Death on the Nile eftir sögu Agatha Christie í leikstjórn Kenneth Branagh. Þá verður ævintýramynd í anda Indiana Jones, Uncharted, sem skartar stórstjörnum á borð við Tom Holland, Mark Wahlberg og Antonio Banderas, sýnd í mánuðinum.

Í mars birtist Batman á nýjan leik í myndinni The Batman með her stórstjarna um borð og frá Pixar kemur ævintýramyndin Turning Red um þrettán ára stúlku sem umbreytist í risastóran rauðan pandabjörn ef hún verður of æst. Einnig verður sýnd í mars rómantíska spennumyndin The Lost City með Söndru Bullock og Channing Tatum um rithöfund sem lendir í ævintýrum í frumskógi eftir að reynt er að ræna henni.

Í apríl kemur myndin Morbius með Jared Leto í aðalhlutverki. Þessi mynd er í Batman-veröldinni og Michael Keaton kemur fyrir í henni, sem gæti verið spennandi. Einnig verður Sonic the Hedgehog 2 frumsýnd. Spennutryllirinn Ambulance með Jake Gyllenhaal er endurgerð á danskri mynd frá miðjum síðasta áratug. Teiknimyndin Bad Guys frá DreamWorks er um þrjóta sem hafa bætt ráð sitt. Einnig verður sýnd í apríl myndin The Northman, hefndartryllir með Alexander Skarsgård í aðalhlutverki.

Maí býður upp á Marvel-veislu þegar Doctor Strange in the Multiverse of Madness með Benedict Cumberbatch verður frumsýnd. Teiknimyndin DC League of Super Pets kemur á hvíta tjaldið og rúsínan í pylsuendanum í maí er svo Top Gun: Maverick, með Tom Cruise í aðalhlutverki og enginn skortur er á stórstjörnum í öðrum hlutverkum. Þar má nefna Jennifer Connelly, John Hamm og Val Kilmer.