Einn þessara þráða er íslensk tunga sem er órjúfanlegur hluti af menningu þjóðarinnar. Íslenskan, bæði gömul og ný, er rannsökuð af fræðafólki og stofnunum, hún er hvort tveggja partur af nýsköpun á Íslandi og viðfangsefni nýsköpunar. Hún er viðfangsefni menntunar þeirra sem hana vilja tala og um leið eitt stærsta verkfærið til menntunar í íslensku samfélagi.

Þó nokkrir sjóðir, sem eru í umsýslu Rannís, hafa það að markmiði að styðja við íslenska tungu með beinum og óbeinum hætti.

Markáætlun í tungu og tækni

„Hlutverk Markáætlunar í tungu og tækni er annars vegar að vernda og efla íslenska tungu, og hins vegar að auðvelda nýtingu nýrrar samskiptatækni í íslensku samfélagi, til hagsbótar almenningi, stofnunum og fyrirtækjum,“ segir Ægir Þór Þórsson, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís.

Markáætlun í tungu og tækni er opinn samkeppnissjóður þar sem háskólar, stofnanir og fyrirtæki geta sótt um styrki fyrir rannsóknir og nýsköpun á sviði máltækni sem ætluð er til eflingar íslenskunnar í stafrænni upplýsingatækni og notkun hennar á þeim vettvangi.

„Í þessu samhengi erum við að tala um tækni á borð við vélþýðingar á texta eða tali frá erlendu tungumáli yfir á íslensku og öfugt, talgreiningu þar sem til dæmis tæki á borð við snjallsíma geta breytt talaðri íslensku yfir í texta eða talgervil þar sem texta er breytt í tal,“ segir Ægir.

„Á gildistíma áætlunarinnar er gert ráð fyrir að úthluta alls um 540 milljónum króna til máltæknitengdra verkefna og rannsókna. Heildarfjárhæðin skiptist niður á samtals 18 verkefni til eflingar á íslensku í stafrænni upplýsingatækni, þar af eru sjö ný verkefni sem fá úthlutað á þessu ári og með þeim er búið að ráðstafa öllu fjármagni markáætlunarinnar.“

Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku

Rannís hefur umsjón með sjóði um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Ægir segir að markmiðið sé að efla útgáfu bóka á íslensku með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við bókaútgáfu.

Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku hófst árið 2019 og fram til ársloka 2021 hafa um 850 milljónir verið endurgreiddar til útgefanda, þar af voru á síðasta ári endurgreiddar 374 milljónir til útgefenda íslenskra bóka. Fjölmennasti bókaflokkurinn sem naut stuðnings á síðasta ári var barna- og unglingabækur eða rétt rúmlega 30%. Flestar þeirra bóka voru í prentaðri útgáfu.

„Þessa ber að geta að lögin sem gilda um þennan stuðning, gilda til loka ársins 2023 og því ákveðin hvatning til þeirra sem hyggjast gefa út íslenska bók á næstunni að gera það tímanlega og stuðla þannig að vexti í flóru íslenskra bókmennta,“ upplýsir Ægir.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga

Rannís hefur umsjón með styrkjum fyrir íslenskukennslu fyrir útlendinga. Markmiðið með þessum styrkjum er að gefa öllum sem búsettir eru hér á landi og skráðir eru með lögheimili í Þjóðskrá, tækifæri á að öðlast nauðsynlega færni í íslensku til að þeir geti orðið virkir samfélagsþegnar á Íslandi að sögn Skúla Leifssonar, sérfræðings á mennta- og menningarsviði Rannís.

„Árleg úthlutun, í núverandi mynd, hefur farið fram frá árinu 2016, auk þess sem úthlutað var aukalega fyrir seinni helming ársins 2021 og fyrri helming ársins 2022. Frá 2016 hefur um 990 milljónum verið úthlutað til viðurkenndra framhaldsfræðsluaðila sem sjá um íslenskukennslu fyrir útlendinga. Á þeim tíma sem er liðinn hafa rúmlega 37 þúsund einstaklingar, sem búsettir eru víðs vegar um landið, lært íslensku hjá viðurkenndum aðilum,“ segir Skúli.

„Þessi sjóður heyrir undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið en við hjá Rannís önnumst umsýslu sjóðsins og afgreiðslu umsókna fyrir ráðuneytið.“

Tónlistarsjóður

Tónlistarsjóður er styrktarsjóður í umsjá Rannís og hefur það hlutverk að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra, bæði hér á landi og erlendis. Ragnhildur Zoëga, sérfræðingur á mennta- og menningarsviði Rannís, segir að styrkhæf verkefni geti til dæmis verið viðburðir, stakir tónleikar eða tónleikaraðir innanlands eða kynningar og markaðssetning á íslensku tónlistarfólki á erlendri grundu.

„Þó ekki sé skilyrði fyrir því að styrkhæf verkefni séu flutt eða fari fram á íslensku er mikill fjöldi styrktra verkefna og kynninga á íslensku, sérstaklega hér innan landsteinanna og má því segja að fyrir vikið styðji sjóðurinn óbeint við íslenska tungu,“ segir Ragnhildur.

„Tónlistarsjóður hefur frá árinu 2013 úthlutað styrkjum til tæplega 1.100 tónlistartengdra verkefna og heildarupphæð styrkja nemur um 511 milljónum króna.“

Hljóðritasjóður

Annar sjóður í umsjá Rannís er Hljóðritasjóður en hlutverk hans er að efla íslenska hljóðritagerð í tónlist með fjárhagslegum stuðningi við útgáfu hljóðrita.

„Hér er því ekki um að ræða stuðning við viðburði eða kynningar- og markaðsmál íslenskrar tónlistar heldur stuðning við útgáfu á íslenskri tónlist hvort sem hún er sungin á íslensku eða öðru tungumáli,“ segir Ragnhildur.

„Líkt og með tónlistarsjóð þá er ekki skilyrði fyrir því að styrkhæf verkefni séu gefin út á íslensku en þó ber að nefna að fjöldi styrktra verkefna, sem gefin eru út á íslenskri tungu, er umtalsverður og stuðla þau verkefni tvímælalaust að eflingu íslenskunnar í menningu og listum.“

Ragnhildur útskýrir að Hljóðritasjóður styrki aðeins verkefni til hljóðritunar á nýrri íslenskri tónlist en veiti ekki framhaldsstyrki til hljóðritunarverkefna sem þegar hafa verið styrkt af sjóðnum eða áður styrkt af Tónlistarsjóði.

Hljóðritasjóður hefur frá árinu 2016 úthlutað styrkjum til rúmlega 650 útgáfuverkefna og nemur heildarupphæð styrkja um 213 milljónum króna. Báðir sjóðirnir heyra undir menningar- og viðskiptaráðuneytið og úthlutað er tvisvar á ári úr hvorum sjóði.

Barnamenningarsjóður

„Síðast en ekki síst ber að nefna Barnamenningarsjóð en styrkveitingar úr honum hófust árið 2019 og nær áætlun sjóðsins til ársins 2023. Sjóðurinn er opinbert átaksverkefni og gert er ráð fyrir að stuðningurinn skjóti styrkari stoðum undir fjölbreytt menningarstarf í þágu barna og ungmenna til framtíðar,“ segir Ragnhildur.

„Verkefnin sem sjóðurinn hefur styrkt frá árinu 2019 eru gríðarlega fjölbreytt og innan þess hóps eru fjölmörg verkefni sem tengjast íslenskri tungu. Þetta eru til dæmis verkefni á borð við íslenskuörvun fyrir fjöltyngd börn, verkefni Árnastofnunar um íslensku handritin fyrir börn og skapandi skrif í grunnskólum landsins, svo fátt eitt sé nefnt. Rannís hefur umsýslu með Barnamenningarsjóði fyrir hönd íslenskra stjórnvalda,“ segir hún og bætir við að sjóðirnir sem hafa verið nefndir hér á undan séu ekki tæmandi listi yfir stuðning við rannsóknir, nýsköpun, menntun og menningu þar sem íslensk tunga er viðfangsefnið. Ægir og Skúli taka undir það og að lokum taka þau fram að Rannís óski öllum innilega til hamingju með dag íslenskrar tungu.