„Miðað við alvarleika fíknisjúkdómsins eru batahorfur góðar, en framfarir í læknisfræði hafa sýnt að heili sjúklinga er þreyttur og þarf rúman tíma til að jafna sig. Myndatökur af heilanum sýna greinilega að það tekur vikur eða mánuði að fá boðefnabúskapinn í lag. Þess vegna bjóðum við upp á meðferð á þremur stigum,“ segir Karl S. Gunnarsson, dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ. „Fyrsta stigið er greining, afeitrun og fræðsla á Vogi. Annað stig er inniliggjandi 28 daga meðferð á Vík eða í meðferðarhópi á göngudeild í samsvarandi tímabil og þriðja stigið er svo eftirfylgni á göngudeild.

Það er ekki hægt að horfa á heildarmyndina án þriðja stigsins, því markmiðin sem er verið að vinna að eru til lengri tíma. Fólk er oft búið að vera veikt lengi og þá tekur batinn líka tíma,“ segir Karl. „Því er mikilvægt að skipuleggja eftirfylgnina vel.“

Sameiginlegur bati er bestur

„Markmið meðferðarinnar er að hjálpa fólki að komast aftur út í lífið án þess að nota áfengi og vímuefni. Í framhaldi hefst eftirfylgni sem varir í 3 til 12 mánuði,“ segir Karl. „Heili sjúklings sem kemur úr meðferð er enn þjakaður af breytingum vegna neyslu og það eru oft miklar áskoranir sem bíða hans við að byggja lífið upp á ný. Stóra verkefnið er að fara aftur út í umhverfið sem fólk kom úr.

Markmiðið eftirfylgninnar er að virkja áhugahvöt til bata og bindindis. Þetta byggist allt á bindindi og samtali, byggja upp traust og ná stjórn á innri líðan og lífi,“ segir Karl. „Oft þarf líka að læra að eiga við önnur veikindi sem hafa hlotist af neyslunni og læra inn á streitu, reiðistjórnun og vinna að sátt, bæði við sjúkdóminn og umhverfi sitt. Það þarf líka að eignast nýja vini, lagfæra vinabönd og fjölskyldusambönd.

Við leggjum mjög mikla áherslu á að lagfæra traustið innan fjölskyldunnar. Bati heppnast best þegar aðstandandi fær aðstoð á sama tímabili og sjúklingurinn,“ segir Karl. „Þess vegna leggjum við áherslu á sameiginlegan bata fjölskyldunnar.“

Göngudeild með stórt hlutverk

„Göngudeild SÁÁ, Von, er mjög aðgengilegt og opið umhverfi sem er auðvelt að koma inn í. Oft byrjar fólk á því að koma í viðtal á göngudeild því það er stundum of stórt skref að fara bara beint inn á Vog,“ segir Karl. „Hér fer fram frumgreining og svo fer fólk áfram á Vog ef þörf krefur.

„Þetta hús er líka félagsheimili SÁÁ og hér fer fram alls kyns félagsstarfsemi, málstofur og fundir. Þannig að göngudeildin hefur víða skírskotun í okkar starfi,“ segir Karl.

Góð fræðsla fyrir aðstandendur

„Við erum með fjögurra vikna námskeið fyrir aðstandendur sem fara fram tvisvar í viku. Þar er veitt fræðsla um fíknisjúkdóminn og áhrif hans á fjölskyldur. Eftir hvern fyrirlestur er svo alltaf hópastarf,“ segir Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi og dagskrárstjóri fjölskyldudeildar SÁÁ. „Við erum líka með fræðslu fyrir foreldra ungmenna sem eru 25 ára og yngri sem er byggð upp á svipaðan hátt.

Við höfum samband við aðstandendur þeirra sem eru inni á Vogi til að láta vita af göngudeildinni okkar en allir sem hafa áhyggjur af einhverjum geta komið á námskeiðin,“ segir Halldóra. „Þeir sem hafa áhyggjur geta líka komið til okkar og bókað ráðgjafarviðtal til að fá upplýsingar.

Foreldrar þeirra sem eru 25 ára og yngri koma á sérstakt námskeið og foreldrar þeirra sem eru eldri geta komið á blandað námskeið með mökum, foreldrum, systkinum og nánum vinum fólks í vímuefnavanda. Það er opið fyrir alla,“ segir Halldóra. „Fólk þarf bara að koma til okkar eða hringja til að fá upplýsingar. Þá er líka hægt að panta viðtal, alveg án skuldbindinga.“

Eftirfylgni skiptir sköpum

„Kvennameðferðin byrjar á Vogi þar sem konur eru í sér hóp og svo fara þær á Vík í 28 daga innlögn. Síðan koma þær á göngudeildina einu sinni eða tvisvar í viku í ársmeðferð sem er framhald af meðferðinni á Vík,“ segir Halldóra. „Í eftirfylgdinni fá þær fræðslu um það sem þarf að takast á við til að breyta um lífsstíl og vera edrú í gegnum hópastarf og verkefnavinnu. Það er líka oft feluleikur í kringum meðferðir og því styrkist fólk við að hitta aðra í svipaðri stöðu.

Það er mjög mikilvægt að bjóða upp á þessa eftirfylgni, því eftir því sem hún er betri, því betri árangur næst af meðferðinni,“ segir Halldóra.

Páll Heiðar Jónsson sálfræðingur segir að spilafíkn sé raunverulegur vandi sem verði að taka á. MYND/AÐSEND

Sérstök dagskrá fyrir ungmenni

„Ungmennameðferðin er í boði fyrir alla sem eru yngri en 25 ára og þeim er komið að í meðferð eins fljótt og hægt er, yfirleitt innan tveggja vikna. Innlögn á Vogi varir svo yfirleitt í 7-10 daga,“ segir Páll Heiðar Jónsson sálfræðingur. „Í upphafi þarf oftast að sinna afeitrun og um leið er hugað að líkamlegri og andlegri heilsu og lögð áhersla á að ungmennunum líði vel.

Það er sérstök umgjörð um ungmennameðferðina og þau hafa sér dagskrá þar sem reynt er að koma til móts við þarfir þeirra,“ segir Páll. „Þau hafa þétta dagskrá alla daga sem er að mestu kynjaskipt, en fyrirlestrar eru sameiginlegir.

Ungmennum stendur einnig til að boða að fara í kynjaskipta inniliggjandi eftirmeðferð á Vík, sem getur verið annað hvort 14 eða 28 dagar. Eftir það heldur ungmennið meðferðinni áfram á göngudeildinni okkar, alla miðvikudaga klukkan 17,“ segir Páll. „Öllum ungmennum með fíknivanda sem vilja vera edrú er frjálst að mæta. Við reynum að hafa einhverja afþreyingu einu sinni í mánuði og pitsu og spil í síðustu viku hvers mánaðar.“

Spilafíkn er raunverulegur vandi

„Það er að verða hugarfarsbreyting varðandi spilavanda í samfélaginu og erum við að auka þjónustu fyrir þennan hóp á öllum okkar starfsstöðvum,“ segir Páll. „Á göngudeildinni er boðið upp á átta vikna meðferð við spilavanda sem er öllum opin og ókeypis. Hún fer fram vikulega á mánudögum milli klukkan 16.30 og 18.30. Við tökum inn nýja þátttakendur í hverri viku. Það er líka boðið upp á stuðningshóp sem fólk getur sótt eins lengi og því hugnast, hann er alltaf klukkan 17.30 á mánudögum og er líka ókeypis. Einnig eru í boði viðtöl við áfengis- og vímuefnaráðgjafa í göngudeildinni eftir þörfum og samhliða hópmeðferð.

Við bjóðum einnig upp á hugræna atferlismeðferð við spilavanda með sálfræðingi, sem er veitt í gegnum dulkóðaðan fjarfundabúnað,“ segir Páll. „Hún felur í sér greiningu og mat á spilavanda, vinnu með áhugahvöt, atferlislega þætti og þær hugsanir og hugsanaskekkjur sem tengjast fjárhættuspilum. Þetta er í boði sem einstaklingsþjónusta en hópmeðferðir eru settar á laggirnar eftir þörfum.

Það er mjög gott að koma í inniliggjandi meðferð á Vogi og Vík ef maður er með spilavanda enda er heilmargt sammerkt með spilafíkn og áfengis- og vímuefnafíkn,“ segir Páll. „Spilavandi getur birst sem mjög alvarleg og skæð fíkn. Hann ber að taka alvarlega og sinna heils hugar, annars getur hann læðst aftan að manni.“