Fyrirtækið Wise á sér langa sögu, var áður Maritech en hefur starfað undir merkjum Wise síðastliðin 10 ár. Starfsemi fyrirtækisins byggir á endursölu á Microsoft 365 viðskiptalausnum, er einn stærsti söluaðilinn á Íslandi og er í fararbroddi í upplýsingatækni með áherslu á bókhald, ráðgjöf, hugbúnaðargerð og innleiðingar ásamt öflugri og persónulegri þjónustu.

Forstjóri fyrirtækisins, Jóhannes Helgi Guðjónsson, tók við forstjórastól Wise fyrir ári. Hann kom frá Össuri þar sem hann var forstöðumaður upplýsingatækni (CIO) síðastliðin fimm ár. Fram að því stýrði hann upplýsingatæknideildum meðal annars hjá MP banka, Heritable banka í London og Íslandsbanka. Jóhannes hefur því varið stórum hluta starfsferils síns í hlutverki viðskiptavinar fyrirtækja eins og Wise og hefur þar af leiðandi mikla þekkingu á því hvernig fyrirtæki eins og Wise geti stutt betur við fyrirtæki og hjálpað þeim að ná betri árangri.

Krefjandi tímar í COVID

Skömmu eftir að Jóhannes tók við stjórnartaumum Wise skall COVID-bylgjan á heimsbyggðinni. Fyrirfram hefði maður haldið að flest öll tæknifyrirtæki væru að blómstra í COVID-bylgjunni en henni hafa fylgt töluverðar áskoranir samhliða ákveðnum tækifærum.

„Við, eins og önnur fyrirtæki, þurftum að endurskipuleggja alla starfsemi fyrirtækisins, flestallir unnu að heiman stóran hluta síðasta árs. En við búum vel að því að vera með starfsemi í tækni en eins og við vitum þá var stórt stökk tekið hjá mörgum fyrirtækjum á þessu ári í tækniframförum. Það má segja að það sem við horfðum fram á að myndi gerast í tækniþróun á ca. tveimur árum hafi gerst á tveimur mánuðum í COVID.“

Wise flutti nýverið höfuðstöðvar sínar í Reykjavík úr Borgartúninu yfir í Ofanleiti 2.

Nýir tímar, nýjar áskoranir

Wise flutti höfuðstöðvar sínar í Reykjavík úr Borgartúninu í Ofanleiti 2 nú um áramótin. Starfsmenn Wise í Reykjavík eru 80 talsins og hafa eðli máls samkvæmt ekki komið allir saman í einu á nýju skrifstofuna. Tólf manns starfa á Akureyri. Jóhannes nefnir að hann hlakki til að hitta allt samstarfsfólk sitt í nýju höfuðstöðvunum, taka spjall við kaffivélina og því sem fylgir að vera hluti af drífandi hópi. En fjarvinna er núna farin að verða eðlilegur þáttur í daglegri starfsemi fyrirtækja í kjölfar COVID og mun örugglega hafa áhrif til framtíðar:

„Við erum að horfa til þess að fólk geti unnið meira heima í framtíðinni, ef það kýs, mörg stærri fyrirtæki úti í heimi eru komin með stefnu um „remote work“ eða vinnu að heiman og það er eitthvað sem við erum að vinna í með okkar fólki.“

Tækifæri og sérstaða Wise

Wise hefur vaxið á undanförnum misserum og starfsmenn nálgast nú 100 talsins. Wise hefur sérhæft sig í að samhæfa upplýsingatæknikerfi fyrirtækja með stöðluðum lausnum frá Microsoft ásamt öflugum sérkerfum frá Wise. Umsvif Wise eru að stærstum hluta á Íslandi en félagið er einnig að selja hugbúnað til um 25 annarra landa. Sérstaða fyrirtækisins liggur í háu þjónustustigi þess og almennri ánægju viðskiptavina með lausnir þess.

„Við höfum byggt upp viðskiptavinagrunn sem við höfum náð að halda vel utan um og sá grunnur stækkar ört. Við leggjum mikla áherslu á að þjóna okkar heimamarkaði vel þar sem framúrskarandi þjónusta við viðskiptavini er okkar langmikilvægasti þáttur. Við áttum okkur á því að það er stór ákvörðun hjá fyrirtækjum að endurskipuleggja upplýsingatæknimál sín. Þess vegna leggjum við okkur fram við að greina raunverulegar þarfir og byggja á stöðluðum lausnum. Staðlaðar lausnir frá traustum og öflugum aðila eins og Microsoft eru lykillinn. Staðlaðar lausnir virka vel saman og innleiðing þeirra er almennt einfaldari og ódýrari en sérsniðnar forritunarlausnir. Okkar metnaður liggur í að greina og uppfylla þarfir viðskiptavina okkar á þann hátt að auðvelt sé að breyta og bæta við lausnum eftir þörfum.“

Starfsmenn Wise eru 92 talsins og er fjarvinna nú farin að vera eðlilegur hluti af starfsemi fyrirtækisins. FRÉTTABLAÐIÐ/stefán

Stafræn umbreyting á einfaldan hátt

Jóhannes ræðir þá spennandi tíma sem fram undan eru hjá Wise. Tækniþróun er á mikilli siglingu og Wise ætlar sér að vera leiðandi á Íslandi í þeirri stafrænu umbreytingu sem á sér stað í heiminum í dag. Stafræn umbreyting (e. digital transformation) er mikið rædd í dag og skilningur fólks kannski ekki alltaf sá sami á því hugtaki. Stafræn umbreyting fyrirtækja er ekki eingöngu fólgin í því að gera neytendum auðveldara um vik að stunda sín viðskipti, heldur eru samhliða því mikil tækifæri í að gera allan rekstur fyrirtækja hagkvæmari ef rétt er staðið að málum. En hvernig sem á það er litið munu öll fyrirtæki þurfa á einn eða annan hátt að laga sig að nýjum stafrænum veruleika.

Wise leggur mikið upp úr því að gera íslenskum fyrirtækjum kleift á einfaldan og ekki síst, skalanlegan hátt, að vera þátttakendur í þessari stafrænu umbreytingu. Það þarf ekki að gleypa allan stafræna fílinn í einum bita, heldur er hægt að byggja upp stafrænan hluta fyrirtækja í smærri bitum. Lykilatriðið er að greina þarfirnar í byrjun og gera áætlun sem er fólgin í því að stíga varlega til jarðar en geta jafnframt skalað upp stafrænan hluta rekstrarins eftir þörfum, á einfaldan og hagkvæman hátt.

„Þegar talað er um hugtakið stafræn umbreyting þá hugsa margir um netverslun eða eitthvert ákveðið app sem léttir því lífið. Það er hins vegar bara lítill hluti þessarar umbreytingar. Neytendur gera sífellt meiri kröfur á fyrirtæki og stofnanir. Einfaldara aðgengi, gegnsæi, stöðu á þeirra málum, sjálfvirkni og pappírslaus viðskipti. Stafræn umbreyting mun því hafa gríðarlega mikið að segja fyrir öll fyrirtæki í nánustu framtíð til að geta verið áfram samkeppnishæf í sínum rekstri, eða jafnvel náð samkeppnisforskoti.“

Jóhannes Helgi segir mikilvægt að fyrirtæki sem vilji vera samkeppnishæf þurfi að aðlaga sig að stafrænum veruleika. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Hjá Wise starfar öflugt hugbúnaðarþróunarteymi sem þróar lausnir sem smellpassa við Microsoft lausnir. Wise hefur stórt tækifæri til að koma sínum lausnum á framfæri í gegnum markaðstorg Microsoft. Á þessu markaðstorgi geta samstarfsaðilar Microsoft, líkt og Wise, boðið fram sínar lausnir í áskrift fyrir þá viðskiptavini sem nota kerfi í Microsoft. Þessu markaðstorgi svipar til App Store fyrir iOS og Play Store fyrir Android. Þarna er hægt að leita að sérhæfðum lausnum þvert á þróunar- og söluaðila Microsoft. Lausnirnar fá einkunn frá notendum ásamt umsögn og er því auðvelt fyrir viðskiptavini að koma auga á og meta þær lausnir sem henta best. Þarna er mikið tækifæri til að koma lausnum Wise á framfæri bæði hér heima sem og erlendis.

Hvernig getur Wise hjálpað þínu fyrirtæki?

Fyrsta skrefið er að meta þarfir fyrirtækisins, bæði út frá núverandi umsvifum og áætlunum þess í framtíðinni. Aðkoma Wise byggir fyrst á ráðgjöf á stöðluðum Microsoft lausnum og í framhaldinu að sjá til þess að þær séu aðlagaðar rekstri fyrirtækisins. Mögulegt er að gera slíkar aðlaganir með viðbótum frá Wise án þess að breyta staðlaða kerfinu frá Microsoft. Sem dæmi má nefna lausnina sem nefnist Wise Móttaka, en hún umbreytir pappírsreikningum og PDF-skjölum yfir í stafræna reikninga sem fækkar villum við innslátt og sparar þar með dýrmætan tíma. Annað dæmi um lausn er Wise Rafræn Staðfesting sem býður upp á snertilausa samþykkt fyrir úttektum vara í fyrirtækjum út frá tilboðum og sölureikningum. Fleiri dæmi eru til dæmis „Field Service“ frá Microsoft sem hentar sérlega vel fyrir fyrirtæki sem þurfa að skrá og halda utan um þjónustubeiðnir frá sínum viðskiptavinum og meðhöndla úrlausn verka og reikningagerð á staðnum. Allar þessar lausnir tala við önnur kerfi Microsoft á sjálfvirkan hátt.

Fyrirtækið mitt langar að skoða hvernig það getur nýtt sér betur stafræna tækni. Hvar byrja ég?

Starfsfólk Wise eru sérfræðingar í að greina þarfir hvers fyrirtækis með það að leiðarljósi að sjálfvirknivæða ferla og innleiða þær lausnir sem henta best. Flestir viðskiptavinir velja að hafa kerfið uppsett í Microsoft Azure skýjaumhverfinu í stað þess að hafa kerfið á netþjónum hjá sér og losna þannig við mikla rekstraráhættu. Með skýinu fæst skalanleiki sem er ekki í boði þegar kerfið er hýst á staðnum hjá viðskiptavinum. Í skýinu er seldur aðgangur að kerfinu eftir notkun og eða fjölda notenda hverju sinni. Auðvelt er fyrir fyrirtæki að fjölga og fækka notendum niður á hvern mánuð fyrir sig. Þessi sveigjanleiki er nauðsynlegur í því síbreytilega umhverfi sem við lifum í.

Wise er staðsett að Ofanleiti 2

Sími: 5453200

wise@wise.is

http://www.wise.is