Ávarp frá Ágústi Hirti Ingþórssyni, forstöðumanni Rannís.

Markmiðið með Vísindavökunni er að færa vísindin nær almenningi, gefa fólki kost á að hitta og ræða við okkar fremsta vísindafólk og vekja athygli á mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Á Vísindavökunni verður það gert á lifandi og skemmtilegan hátt á stóru sýningarsvæði, þar sem hægt er að kynnast rannsóknarstarfi á öllum fræðasviðum, allt frá raunvísindum til hug- og félagsvísinda. Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, sem haldin er samtímis í helstu borgum Evrópu árlega undir heitinu European Researchers' Night. Vísindavaka er styrkt af Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.

Þátttakendur í Vísindavöku koma víðs vegar að úr vísindasamfélaginu á Íslandi og í ár höfum við fengið frábært vísindafólk til liðs við okkur. Stærstu þátttakendurnir eru háskólarnir í landinu, með öllum sínum deildum og fræðasviðum, en einnig öflugar rannsóknastofnanir eins og Matís, Veðurstofan, Landspítalinn og Hafrannsóknastofnun, að ógleymdum fyrirtækjum sem stunda rannsóknir og nýsköpun, til dæmis Össur, Alvotech, Bláa Lónið og fleiri. Við opnun Vísindavöku mun ráðherra vísindamála, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, veita viðurkenningu Rannís fyrir vísindamiðlun, áður en Sprengju-Kata sprengir Vísindavökuna í gang.

Á sýningarsvæðinu verður hægt að prófa ýmis tæki og tól sem vísindafólk vinnur með í sínu daglega starfi, og þar á meðal er risastór radar á vegum Veðurstofunnar, sem hefur það hlutverk að fylgjast með Heklu gömlu. Svo er hægt að prófa geimsjónauka, læra hvernig tölvuleikir eru þróaðir, sjá hvernig tónlist er samin með aðstoð gervigreindar, kynnast drónum og geimbílum, fylgjast með hvernig líffæri eru prentuð í þrívídd í undirbúningi skurðaðgerða, læra um rannsóknir í loftslagsmálum, hitta lifandi maura og fræðast um hvernig líftækni nýtist í heilbrigðisvísindum.

Á Vísindavökunni í ár verða ótalmörg tækifæri til að fikta og prófa hvernig vísindi og nýsköpun virka. Vísindasmiðja Háskóla Íslands verður á svæðinu, en þar geta börn og ungmenni, jafnt sem fullorðnir, gleymt sér í skemmtilegum tilraunum. Skema og Háskólinn í Reykjavík bjóða gestum að prófa tölvuleikjagerð, Össur sýnir hvernig rafræn hné virka og FabLab Reykjavík býður upp á að sýsla með mýsli, sem er afar forvitnilegt.

Í aðdraganda Vísindavöku verður hellt upp á Vísindakaffi, annars vegar í Bókasamlaginu í Reykjavík og hins vegar á sex stöðum víðs vegar um landið. Vísindakaffi er hugsað sem notaleg kvöldstund á kaffihúsi, þar sem almenningi gefst kostur að kynnast áhugaverðum viðfangsefnum vísindanna, en þar segir vísindafólk frá rannsóknum sínum í afslöppuðu spjalli og gestir fá tækifæri til að spyrja það spjörunum úr. Í ár munum við einnig vera með VísindaSlamm í Stúdentakjallaranum, þar sem ungt vísindafólk segir frá rannsóknum sínum á lifandi hátt.

Vísindavakan er frábært tækifæri til að hitta vísindafólk okkar og kynnast viðfangsefnum þess og eru allir þátttakendur boðnir og búnir að spjalla og segja frá uppgötvunum sínum og rannsóknum. Ekki spillir fyrir að hægt er að snerta, fikta, prófa og jafnvel smakka á ýmsu því sem í boði verður. Fyrst og fremst mæli ég með því að fólk taki alla fjölskylduna með á Vísindavöku, því þar finna allir eitthvað við sitt hæfi, börn, ungmenni og fullorðnir. Svo vonum við að Vísindavakan verði til þess að einhverjir krakkar og ungmenni ákveði að hasla sér völl í vísindum til góða fyrir íslenskt samfélag í framtíðinni, hver veit?

Sjá dagskrá Vísindavöku og Vísindakaffis á visindavaka.is