EFLA er alhliða verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki sem hefur umhverfismál og samfélagslega ábyrgð í öndvegi og er í hópi brautryðjenda á því sviði hérlendis. „Við hjá EFLU leggjum mikinn metnað í að vinna öll verkefni með umhverfismálin í huga. EFLA er með vottaða umhverfisstjórnun, sem þýðir að við lágmörkum umhverfisáhrif í okkar eigin rekstri. Við aðstoðum aðra við að taka á sínum umhverfismálum og getum haft víðtæk áhrif út í samfélagið. Við sinnum til dæmis verkefnastjórnun og ráðgjöf fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir og komum að um þrjú þúsund verkefnum á ári,“ segir Helga Jóhanna Bjarnadóttir, efna- og umhverfisverkfræðingur og sviðsstjóri samfélagssviðs EFLU. Í vor hlaut EFLA Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum og á síðasta ári hlaut EFLA loftslagsviðurkenningu Reykjavíkur.

EFLA er núverandi handhafi Kuðungsins, sem er umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og var veitt fyrr á þessu ári.

Heimsmarkmiðin kortlögð

„Metnaður okkar liggur í að bæði við og okkar viðskiptavinir geri enn betur í samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum. Við höfum kortlagt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og dregið fram þau markmið sem við viljum vinna sérstaklega að. Í þeirri vinnu kom í ljós að okkar ráðgjöf tengist inn á flest heimsmarkmiðanna. Núna leggjum við mikla áherslu á nýsköpun og uppbyggingu, en það eru lykilþættir í allri framþróun í umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð. Við vinnum einnig mikið með ellefta heimsmarkmiðið, sem fjallar um sjálfbærar borgir og samfélög. Þar er áhersla lögð á vistvænar samgöngur, vistvænt skipulag, vistvæna hönnun bygginga, frárennslismál, úrgangsmál og hringrásarhagkerfið, auk sjálfbærrar orku og aðgerða í loftslagsmálum,“ segir Helga en EFLA kemur að rammaskipulagi Víðisstaðalands í Garðabæ þar sem ofantalið er í forgrunni.

Þegar á hönnunarstigi er mikilvægt að huga að þessum málum, hvort sem um er að ræða hönnun hluta, bygginga, vega eða skipulags. „Hönnun þarf að vera þannig að efni, landrými og auðlindir séu vel nýtt og dregið sé úr úrgangsmyndun ásamt því að auka endurvinnslu og endurnýtingu. Í allri hönnun skiptir máli að huga að þessu snemma í ferlinu því erfitt er að bæta fyrir eitthvað eftir á,“ segir Helga, en EFLA vinnur að slíkri nálgun með sínum viðskiptavinum svo þeir geti orðið umhverfisvænni og sjálfbærari.

Nýbygging við hjúkrunarheimilið á Höfn. Húsið er með grasþaki og er nú unnið að vistvænni hönnun og vottun skv. BREEAM-vottunarferlinu. Arkitektar eru Basalt arkitektar.

Kolefnislaust Ísland 2040

Þá nefnir Helga að loftslagsmálin hafi aldrei verið mikilvægari. „Markmið Íslands er að vera kolefnislaust árið 2040 og ætlunin er að standa við Parísarsáttmálann. Allir þurfa að leggja hönd á plóg til að svo megi verða; sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir. Við höfum lengi aðstoðað fyrirtæki og stofnanir við að innleiða umhverfisstjórnun. EFLA hefur meðal annars unnið með Reykjavík og reiknað út kolefnisspor borgarinnar og vinnur núna að því sama fyrir Vestmannaeyjabæ, en það er liður í að finna út hvar kolefnislosunin er og hvað hægt er að gera til að minnka hana. Heimsmarkmiðin fléttast inn í þessa vinnu og eru líka góður rammi til að vinna út frá,“ segir Helga.

Hún leggur áherslu á að mikilvægt sé að fara úr því sem kallast línulegt hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi. „Við þurfum að hætta að horfa bara á auðlindir til að framleiða, nota, menga og henda og fara yfir í að endurnota, gera við, endurvinna og samnýta. Eftirspurn eftir grænum vörum og þjónustu hefur aukist og í auknum mæli verður fjármagni beint í grænar fjárfestingar og umhverfisvænni verkefni,“ segir hún.

EFLA hefur unnið að landtengingu við rafmagn fyrir skip í höfnum.

Vottuð umhverfisyfirlýsing er framtíðin

EFLA aðstoðar fyrirtæki við að kortleggja sína stefnu í umhverfismálum og setur af stað aðgerðir til að hrinda þeim í framkvæmd. „Þetta á líka við um vörur. Þeir sem framleiða vörur, hvort sem það er steinull eða húsbygging, geta látið reikna út kolefnissporið og fengið ráðleggingar um hvað hægt er að gera til bóta. Hægt er að reikna út kolefnisspor fyrir allt mögulegt,“ segir Helga og tekur sem dæmi Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki. „Steinullin er meðal annars framleidd úr basaltsandi úr fjörunni og skeljasandi frá Faxaflóa. Við reiknuðum út kolefnisspor steinullarinnar og það er 3,5 sinnum lægra en hjá þekktum framleiðendum erlendis. Þetta er meðal annars vegna þess að töluverð orka er notuð við framleiðsluna og íslensk orka hefur lágt kolefnisspor. Þessi vara er nú komin með vottaða umhverfisyfirlýsingu, sem má líkja við næringarefnainnihaldslýsingu á matvælum nema hvað nú er lýst umhverfisáhrifum vörunnar. Kaupendur geta þá haft val um að kaupa umhverfisvæna steinull og vita nákvæmlega hver áhrif hennar eru á umhverfið.“

En af hverju ætti að huga að vistvænni hönnun bygginga? „Mikill úrgangur fylgir byggingariðnaðinum og hann er orkufrekur. Sem dæmi um byggingu sem við erum með í vistvænni hönnun er skrifstofa Alþingis, sem verður á Alþingisreit við Tjarnargötu. Þetta er steypt mannvirki og þar hafa hönnuðir til dæmis hugað að hámörkun á nýtingu steypu þannig að kolefnisspor verði sem minnst og sveigjanleiki hússins sem mestur. Hægt er að velja byggingarefni með lægra kolefnisspor við hönnun bygginga þegar það passar lögun byggingar og aðstæðum. Má nefna í því sambandi að í Hjúkrunarheimilinu á Höfn í Hornafirði erum verið að vinna að vistvænni hönnun og vottun og er valið að nota krosslímdar timbureiningar (CLT) með lægra kolefnisspor. Einnig er hægt að gera þær kröfur á verktímanum að draga úr eldsneytisnotkun,“ segir Helga.

EFLA hefur einnig unnið að verkefnum tengdum orkuskiptum hafna og skipaflotans. „Við höfum til dæmis unnið að landtengingu við rafmagn fyrir Herjólf sem notar þá alfarið rafmagn í höfn og á siglingu. Einnig eru í gangi verkefni fyrir Norrænu, Síldarvinnsluna, Eimskip og Samskip þannig að í náinni framtíð þarf ekki að brenna olíu þegar skipið er í höfn heldur verða skipin tengd við rafmagn,“ segir hún.

Loks nefnir Helga að hlutverk EFLU sé að koma fram með lausnir sem stuðla að framförum viðskiptavina og efli samfélög. „Hjá EFLU starfar hópur fólks með mikla reynslu og yfirgripsmikla þekkingu. Í raun vinnum við með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á hverjum degi.“