Páll Jakob skoðar hvernig samspil umhverfis og fólks er og hvaða áhrif byggt umhverfi hefur á heilsu og líðan almennings, en samkvæmt Páli vantar vísindalega nálgun á sviði sálfræði við hönnun og skipulag húsa og hverfa.

„Yfirskriftin er: Hvers konar þéttbýli viljum við? Ég ætla að fara í stuttu máli yfir hvers konar þétt umhverfi virkar hvað best fyrir okkur. Þótt ég sé ekki mikill aðdáandi þess að gefa einhverjar þumalputtareglur í þessum efnum að þá er það nú samt þannig að þegar við erum að horfa á þéttbýli þá sýna niðurstöður rannsókna að manneskjulegur skali er það sem við viljum sjá. Við viljum sjá fjölbreytileika í umhverfinu og að það sé tenging við sögu, menningu og náttúru. Þetta eru atriði sem vísindin hafa sýnt með nokkuð skýrum hætti að virka. Þetta eru útgangspunktarnir sem ég tala út frá í þessu tilviki,“ segir Páll Jakob.

Vísindaleg nálgun á samspil fólks og umhverfis

„Mín orðræða almennt er sú að við tökum vísindalega nálgun á þetta samspil fólks og umhverfis. Hvernig við erum að upplifa umhverfið og hvaða áhrif umhverfið hefur á okkur. Við eigum að hætta að tala um þessi mál á þeim grunni að þetta sé bara smekkur, að þinn smekkur sé ekkert merkilegri en minn eða öfugt. Vissulega er smekkurinn ólíkur. Ég er ekki að gera lítið úr því en málið er að það er svo miklu meira sem sameinar okkur en sundrar þegar við erum að horfa á upplifun okkar á umhverfinu. Við erum miklu líkari en við höldum að við séum. Niðurstöður rannsókna sýna ákveðnar tilhneigingar í hinar og þessar áttir og við þurfum að sigta þær út úr vísindalegum gögnum sem hefur verið safnað upp með kerfisbundnum hætti. Á því stigi sem ég er að tala um er það nánast óþekkt á Íslandi og niðurstaðan er að við fáum umhverfi sem mætir ekki þörfum okkar sem manneskjum. Við erum með mjög umdeild verkefni í gangi, umdeilda stefnu, umdeilda uppbyggingu og við erum með umhverfi sem er ekki að virka. Ég tek Hjartagarðinn oft sem dæmi. Í sumar stígur borgarfulltrúinn Hjálmar Sveinsson fram og segir að Hjartagarðurinn sé ekki að virka, en í upphafi þeirrar vegferðar var sagt að hann ætti að vera á barmi suðupunkts mannlífs,“ segir Páll.

Páll segir að fulltrúar náttúrunnar, svo sem blóm, tré, vatn og gras, séu mjög mikilvægur hluti af okkar byggða umhverfi.

„Það er svo mikilvægt að hafa þetta. Alveg frá upphafi borgarmenningar fyrir tíu þúsund árum þá hafa þessi „element“ alltaf verið tekin með inn vegna þess að við höfum svo sterka þörf fyrir tengsl við náttúruna. Sumir ganga svo langt að segja að þörfin sé meðfædd og því harðvíruð í okkur. Þess vegna megum við ekki taka þetta út úr hinu byggða umhverfi og líta á þetta sem einhverjar afgangsstærðir eins og oft er gert. Þetta eru hlutirnir sem eru fyrstir að hverfa í uppbyggingunni. Náttúran og fulltrúar hennar hafa góð áhrif á líðan fólks. Fjölmargar rannsóknir sem byggjast á mati fólks á eigin líðan, mælingum á hugrænni hæfni þess og lífeðlisfræðilegum viðbrögðum, svo eitthvað sé nefnt, styðja það,“ segir Páll Jakob og bætir við að veður sé klárlega hlutur sem verður að taka miklu alvarlegar.

„Við þurfum ekki annað en að horfa á Höfðaborgarturninn og Hafnartorgið. Á þessum stöðum er næðingur og getur orðið mjög vindasamt. Svo er búið að vera að tala um birtuna og mikilvægi hennar. Við þurfum að horfa miklu betur á góðu svæðin og læra af þeim. Sem dæmi er Austurvöllur gott svæði en það er líka vegna þess að þar er skjólríkt, sólríkt, þar er saga og menning, góð hlutföll og að mörgu leyti ágætur arkitektúr.“