Arnar lauk námi í náms- og starfsráðgjöf um aldamótin 2000 og eftir það starfaði hann hjá grunnskóla í 13 ár. „Ég hafði alltaf langmestan áhuga á því sem fellur undir náms- og starfsfræðslu, þá að ræða við ungt fólk um fjölbreytileika námsleiða og tengingu þess við atvinnulífið.

Árið 2013 gafst mér tækifæri til að koma að gerð upplýsingavefs um nám og störf. Það tækifæri hefur undið upp á sig og hef ég starfað að tengdum verkefnum síðan. Þar vinn ég að tveimur vefjum, naestaskref.is og svo namogstorf.is. Nám og störf er haldið úti af Iðunni fræðslusetri, Rafmennt og Samtökum iðnaðarins,“ segir Arnar.

Næsta skref

Næsta skref er starfrækt af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. „Vefurinn var opnaður árið 2018 í núverandi mynd og höfum við verið að breyta honum og bæta síðan. Vefurinn er, líkt og sambærilegir vefir flestra OECD-ríkja í kringum okkur, almennur upplýsingavefur um námsleiðir og störf, hugsaður til að hjálpa við upplýsingaleit og aðstoða fólk við upplýst námsval og að efla sig í starfi.

Vefurinn er mikið notaður og heimsóttu hann hátt í 60.000 manns á síðasta ári. Í upphafi var vefurinn hugsaður fyrir fullorðið fólk sem hafði ekki lokið námi á framhaldsskólastigi. Þegar við horfðum á sambærileg erlend vefsvæði sáum við að svona vefur gæti höfðað til mun breiðari hóps en svo. Núna eru flestir notendur fólk á þrítugsaldri þó svo að fólk á öllum aldri virðist nýta sér vefinn. Fólk er að skoða fjölbreytileikann sem er í boði í námsleiðum og í atvinnulífinu, en fólk í dag skiptir örar um starf en áður og er alltaf að bæta við sig þekkingu jafnt og þétt út starfsferilinn,“ segir Arnar.

Fyrirmyndirnar allt í kring

Arnar hefur birt fjölda greina um mikilvægi vefsvæða líkt og Næsta skref og Nám og störf. „Ég er að greina það hvert megi stefna með svona vefi og bera okkur saman við það sem nágrannaþjóðirnar eru að gera í upplýsingamiðlun og fræðslu um nám og þátttöku á vinnumarkaði. Ef við horfum til nágrannalandanna þá hafa þau, og sérstaklega Norðmenn, byggt upp mjög stórt kerfi þar sem svona vefsíður spila mikilvægt hlutverk. Norðmenn hafa stóreflt ráðgjöf og upplýsingamiðlun og þar talar til dæmis mjög vel saman rafræn ráðgjöf og upplýsingarnar á opinberri vefsíðu þeirra um nám og störf. Í greinunum hef ég skoðað hvort við gætum farið einhverjar svipaðar leiðir og Norðmenn í þessum efnum en það tekur auðvitað tíma. Við á Íslandi stöndum frammi fyrir spennandi möguleikum ef áhuga, vilja og kröftum okkar er beint í þá þátt.

Eitt af því sem þarf að gera er að auka fjármagn til verkefnisins. Það gengur eiginlega ekki að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins standi ein að svo viðamiklu verkefni sem alhliða upplýsingavefur um nám og störf er. Ef vel á að vera þurfa fleiri að koma að. Draumurinn er vissulega að gera það sem Norðmenn hafa gert síðustu tíu ár; að byggja upp alhliða vefkerfi um störf og námsleiðir í tengslum við aukna náms- og starfsráðgjöf.“

Grunnskólarnir sitja eftir

Arnar brennur auk þess fyrir auknu vægi náms- og starfsfræðslu í skólum, ekki síst grunnskólum. „Í Noregi er það skyldufag í öllum grunnskólum en ekki á Íslandi. Íslendingar hafa setið aðeins eftir og þarf að efla þetta fag mjög. Ég skrifaði grein um slíka fræðslu í 25 ára afmælisrit FNS árið 2007 og ef ég ætti að skrifa grein um sama efni í dag, þá myndi ég sennilega bara endurnýta þá grein, svo lítið hefur breyst síðan. Áherslan hefur verið annars staðar og þarna getum við gert miklu betur. Hér starfa margir hæfileika- og hugmyndaríkir náms- og starfsráðgjafar en vægi þessa þáttar í þeirra starfi í grunnskólunum mætti vera mun meira og skipulagðara. Það sárvantar raunar einnig heppilegt námsefni sem gerir ráðgjöfum í skólum enn erfiðara um vik. Það hefur hins vegar sýnt sig að náms- og starfsfræðsla skilar árangri en hana þarf að undirbúa vel í samvinnu skóla og atvinnulífs,“ segir Arnar að lokum.