Tölvuleikjafyrirtækið Parity var stofnað árið 2017 af Maríu Guðmundsdóttur en hún stofnaði fyrirtækið með það að markmiði að auka fjölbreytni tölvuleikja og um leið fjölbreytileika þess fólks sem kemur að gerð þeirra. „Á næstu árum stefnum við að því að byggja upp sterkt vörumerki í kringum tölvuleikinn Island of Winds sem kemur út á næsta ári. Einnig viljum við styrkja samstarf okkar við íslensk söfn og nýta fleiri hluti þaðan inn í leikina okkar. Samspilunarleikur er svo næstur á dagskrá hjá okkur en ævintýraheimurinn Island of Winds býður upp á endalausa möguleika á nýjum sögum og leikjakerfum.“

Vilja vera sterk rödd

Hún segir Parity stefna á að vera sterk rödd í leikjaheiminum og meðal fyrirtækja í bransanum. „Leikjageirinn þarf meiri fjölbreytileika, bæði í formi teyma en einnig í tölvuleikjunum sjálfum. Tölvuleikir er svo geggjaður miðill og við hjá Parity viljum að enn fleiri fólk úr öllum áttum nýti sér hann.“

Starfsmannahópur Parity er afar fjölbreyttur og byggir á starfsfólki með ólíka menntun og bakgrunn, segir María. „Það er tekur tíma að byggja upp gott teymi. Að hafa teymi sem speglar aðeins sjálfan þig og þínar hugmyndir skapar minni dýpt, þekkingu og flæði hugmynda. Ég ákvað frá upphafi að ráða fólk sem hefði aðra kosti og þekkingu en ég og sé svo sannarlega ekki eftir því, varan sem þú þróar verður sterkari og fjölbreyttari fyrir vikið.“

Tölvuleikurinn Island of Winds frá Parity kemur út á næsta ári. Leikurinn sækir innblástur til 17. aldar Íslands.

Fyrirmyndir skipta máli

María segir Parity geta speglað sig í mörgum fyrirtækjum hér heima og erlendis, sérstaklega þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og jafnrétti. „Sem tölvuleikjafyrirtæki erum við að nýta stöðu okkur og rödd til að breyta þeirri menningu sem getur einkennst meðal tölvuleikjaspilara og í tölvuleikjaframleiðslu. Við tölum líka opinskátt um að við viljum ráða inn fjölbreyttan hóp af fólki og ég sem kvenkyns stofnandi er fyrirmynd sem er því miður ekki enn algeng í bransanum.“

Umhverfið er að breytast

Nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur tekið miklum breytingum undanfarna tvo áratugi en alltaf má gera betur að hennar mati. „Nýjungar sem hafa áhrif status quo taka tíma í þróun og þolinmæði er ekki sterk í DNA okkar Íslendinga. Umhverfið og veðurfarið hefur kennt okkur að grípa gæsina á meðan hún gefst en þetta er að breytast og það er kominn mun meiri skilningur á því að góðar hugmyndir taka tíma í þróun og markaðssetningu.“

Sem tölvuleikjafyrirtæki erum við að nýta stöðu okkur og rödd til að breyta þeirri menningu sem getur einkennst meðal tölvuleikjaspilara og í tölvuleikjaframleiðslu.

Island of Winds frá Parity býður upp á endalausa möguleika á nýjum sögum og leikjakerfum að sögn Maríu Guðmundsdóttur.

Stuðningsaðgerðir skipta máli

Hún segir Rannís, sem meðal annars stýrir Tækniþróunarsjóði, og annað styrkjaumhverfi hafa umbreytt nýsköpunarumhverfinu. „En oft eru þessir styrkir að koma inn um dyrnar mun seinna en fyrirtækin þurfa. Þar hjálpa hraðlar til en þeir mættu einnig vera á fleiri vaxtarstigum fyrirtækja.“

Skattaafsláttur vegna þróunarkostnaðar getur gert þar gæfumuninn að hennar sögn og þær stuðningsaðgerðir eru þegar byrjaðar að skila sér í fjölbreyttari þróun á vörum og vexti fyrirtækja. „Umhverfi fyrir fleiri vísisjóði er líka orðið mun betra en við þurfum að hugsa til lengri tíma þegar kemur að nýsköpun, að hugsa aðeins til eins til tveggja ára í senn mun ekki umbreyta nýsköpunarumhverfinu. Við þurfum langtímamarkmið sem við getum treyst á og vaxið með.“

Vantar fleira starfsfólk

Tölvuleikjageirinn mun einnig þurfa mun fleira starfsfólk með mismunandi menntun og sérfræðiþekkingu á næstu árum. „Við hjá IGI (Icelandic Gaming Industry) erum að vinna með Samtökum iðnaðarins að því að miðla þessu til stjórnvalda og lausnir okkar felast meðal annars í því að auðvelda ráðningu erlendra sérfræðinga, vinna að starfsþjálfunarumhverfi sem nýtist bæði fyrirtækjum og háskólum en einnig að miðla því til skóla á öllum stigum hvaða störf eru í boði í geiranum.“

Þetta viðtal birtist í sérblaði Samtaka atvinnulífsins sem gefið var út með Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. september 2022.