Controlant er leiðandi hátækni­fyrirtæki á sviði rauntíma vöktunarlausna fyrir alþjóðlega lyfjaiðnaðinn. Lausnir Controlant stuðla að öruggari, traustari, rekjanlegum og sjálfbærari flutningi lyfja á heimsvísu. Controlant var stofnað árið 2007 og hefur vaxið hratt undanfarin ár, en fyrirtækið gegndi lykilhlutverki í vöktun Covid-19 bóluefnis Pfizer í heimsfaraldrinum. Í dag starfa 430 manns hjá Controlant og starfsstöðvarnar eru á Íslandi, í Hollandi, Danmörku, Póllandi og Bandaríkjunum.

Anna Karlsdóttir, Vallý Helgadóttir og Elín María Björnsdóttir eru í framkvæmdastjórn Controlant. Þær segja nóg af skemmtilegum verkefnum fram undan hjá Controlant nú þegar því risavaxna verkefni að vakta bóluefni í heimsfaraldri sé að ljúka. Controlant ætlar að spila lykilhlutverk í þeirri umbyltingu sem fram undan er í aðfangakeðju lyfjaiðnaðarins með aukinni stafrænni þróun og nútímavæðingu.

Gæðamál hluti af DNA Controlant

Anna er framkvæmdastjóri Gæðasviðs Controlant, sem samanstendur af gæðadeild, verkefnadeild, þróun skipulagsheilda og upplýsingatæknideild. Alls starfa um 40 manns á sviðinu sem er helmingi fleira starfsfólk en starfaði hjá Controlant í heildina í janúar 2016 þegar Anna hóf störf. Hennar fyrsta verkefni sem gæðastjóri var að byggja upp gæðakerfi Controlant, sem tryggði að fyrirtækið væri metið sem hæfur birgir hjá lyfjafyrirtækjum.

„Gæðamál eru gríðarlega mikilvæg fyrir Controlant og óhætt að segja að þau hafi verið hluti af okkar DNA frá upphafi,“ segir Anna. Mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims reiða sig á lausnir Controlant og má þar meðal annars nefna Pfizer, Roche, og Johnson & Johnson. Lyfjafyrirtækin gera gríðarlegar kröfur þegar kemur að gæðamálum og regluverk og eftirlit með alþjóðlega lyfjaiðnaðinum er mjög umfangsmikið. Anna og hennar samstarfsfólk á gæðasviði sér til þess að Contorlant uppfylli allar kröfur sem lúta að gæðum og upplýsingaöryggi ásamt kröfum sem birgjar fyrir lyfjafyrirtæki verða að uppfylla.

Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi

Vallý Helgadóttir er framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Controlant. Rekstrarsviðið er ábyrgt fyrir þjónustu og innleiðingu lausna Controlant fyrir viðskiptavini auk þess að sjá um rekstur og framleiðslu. Miklar og hraðar breytingar hafa einkennt þann tíma sem Vallý hefur starfað hjá Controlant.

„Ég er alltaf að læra, læri eitthvað nýtt á svo til hverjum einasta degi. Lausnirnar okkar, bæði vél- og hugbúnaður, eru í stöðugri framþróun og þjónustan er alltaf að þróast. Sá lærdómur sem mér finnst kannski vænst um er að það er allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Til þess þarf þó gríðarlega öflugan, og fjölbreyttan, hóp og það er það sem við í Controlant státum af og höfum markvisst byggt upp,“ segir Vallý. Þetta kom svo sannarlega í ljós þegar Controlant fékk það gríðarlega umfangsmikla verkefni að vakta dreifingu bóluefnis Pfizer í heimsfaraldrinum. „Controlant hefur vaktað um það bil 7 milljarða af bóluefnaskömmtun og hafa 99,998% af bóluefnunum komist heilu og höldnu á áfangastað. Það er einstakur árangur í ljósi þess að árlega sóast um það bil 20% allra lyfja í flutningum,“ segir Vallý.

Sjálfbærni og menning er rauði þráðurinn

Elín María Björnsdóttir er framkvæmdastjóri mannauðs- og sjálfbærnisviðs Controlant sem er ábyrgt fyrir mannauðsmálum, samskiptum, menningu og sjálfbærnivegferð Controlant. „Sjálfbærni, fólkið og menningin er rauði þráðurinn í öllu sem við gerum. Hraður vöxtur Controlant og einstakur árangur í vöktun bóluefna hefði aldrei verið mögulegur nema fyrir það einstaka fólk sem starfar hjá Controlant og góða menningu. Við viljum styðja við þessa menningu og hjálpa fólkinu okkar að vaxa enn frekar meðal annars með markvissri fræðslu,“ segir Elín María.

„Sjálfbærni hefur aldrei verið mikilvægari en nú. Við horfum á sjálfbærni í víðu samhengi. Lausnir okkar stuðla að aukinni sjálfbærni í aðfangakeðju lyfja og við viljum einnig gera okkar besta í umhverfis- og efnahagsmálum. Þá er okkur einnig mjög umhugað um þau áhrif sem við höfum á samfélagið okkar, starfsfólk og samstarfsaðila. Við viljum vera til fyrirmyndar og tryggja að starfsfólkið okkar og samfélagið sem við störfum í njóti góðs af starfsemi okkar,“ segir Elín María.

Næg verkefni fram undan

Varðandi áskoranirnar fram undan þá verður af nógu að taka. „Ég ætla að halda áfram að byggja upp fyrirtækið með frábæru samstarfsfólki,“ segir Anna. „Áskorunin verður að forgangsraða og velja svo þau verkefni sem styðja best við okkar framtíðaráætlanir,“ segir Vallý. „Við erum einnig að setja aukinn kraft í stafræna umbreytingu sem mun gera okkur kleift að ná enn betri árangri við að þjónusta viðskiptavini okkar,“ bætir hún við.

„Á næstu mánuðum munum við setja aukinn kraft í sjálfbærnivegferð okkar og halda áfram að hjálpa starfsfólki okkar að ná árangri. Þá gerum við einnig ráð fyrir að bæta fleiri frábærum einstaklingum í teymið okkar en við gerum ráð fyrir að vera orðin 600 í lok þessa árs,“ segir Elín María. „Fókus okkar er í raun og veru mjög skýr, við ætlum að halda áfram að stuðla að sjálfbærum vexti Controlant, vexti teymisins og vexti okkar frábæra starfsfólks,“ segir Elín María.