Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir eru stofnendur og eigendur Bókabeitunnar. Þær kynntust í kennaranámi og unnu fjölmörg verkefni saman á námsárunum. Hugurinn leitaði þó ekki inn í skólastofur landsins heldur vildu þær láta gott af sér leiða með útgáfu áhugaverðra barna- og unglingabóka.

Þær hófu reksturinn með eigin hrollvekjubókaflokki sem nefnist Rökkurhæðir. Það var þó ekki einfalt að vera allt í einu komnar með bókaforlag og Birgitta segir að fljótlega hafi borist til þeirra frábær handrit frá íslenskum rithöfundum sem þær töldu ástæðu til að gefa út.

„Við leggjum mikla áherslu á að bókin sé áhugaverð og skemmtileg. Að hún kveiki lestraráhuga hjá börnum,“ segir hún. „Bækurnar eru ekki kennslubækur heldur fyrst og fremst afþreying,“ bætir hún við.

Krakkakrimmar og ævintýri

Bækur Bókabeitunnar eru allar Svansvottaðar og var fyrirtækið með þeim fyrstu til að sleppa plastpökkun á nýjum bókum. Bókabeitan hefur gefið út fjöldann allan af vönduðum barna- og unglingabókum og má þar til dæmis nefna bækur Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur sem hlotið hefur margvísleg verðlaun fyrir skrif sín. Bergrún er bæði höfundur og teiknari.

Nýjasta bók hennar, Kennarinn sem fuðraði upp, hefur notið vinsælda eins og fyrri bækur úr þeim flokki. „Við köllum þessar bækur krakkakrimma enda eru þær æsispennandi,“ segir Birgitta.

Einnig er nýkomin út bókin Stúfur fer í sumarfrí, eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur, og einnig þrautabók sem er unnin í samvinnu við teiknarann Blævi Guðmundsdóttur en báðar eru bækurnar prýddar afar fyndnum, fallegum og fjörugum litmyndum.

Síðan má nefna bækurnar Bekkurinn minn, eftir rithöfundinn Yrsu Þöll Gylfadóttur og teiknarann Iðunni Örnu. Þetta er skemmtilegt konsept en sögupersónur allra bókanna eru í sama bekknum þar sem alls kyns ævintýri gerast með ólíkum nemendum sem koma úr mismunandi menningarheimum. Við höfum einfaldað tvær fyrstu bækurnar þannig að þær eru líka til í útgáfu sem ætluð er yngstu lestrarhestunum.

Lestraráhugi eykst hjá börnum

Lestraráhugi á meðal barna hefur verið að aukast mikið síðustu ár, að sögn Birgittu, og ekki síst vegna þess að úrvalið af barnabókum hefur batnað til mikilla muna.

„Krakkarnir eru ekki bara að lesa pappírsbækur heldur lesa þau líka bækur á lesbrettum eða hlusta á þær. Fyrir mér er lestur bara lestur, sama í hvaða formi hann er,“ segir hún. „Við viljum gefa út bækur fyrir breiðan aldurshóp, allt frá börnum sem eru að byrja að stauta og til lengra kominna. Við vinnum mikið með íslenskum höfundum og teiknurum,“ segir Birgitta og bætir við að sérstaða útgáfunnar sé þó barna- og ungmennabækurnar.

„Hjartað slær þar að mestu. Það er okkar hjartans mál að bækur séu skemmtilegar, aðlaðandi og aðgengilegar fyrir börn. Þær þurfa alls ekki að kenna börnunum heldur eiga þær að skapa áhugaverða skemmtistund. Bækur eiga að skapa lestrargleði hjá börnum rétt eins og hjá fullorðnum,“ segir hún.

Sarah Morgan er orðin eftirlætishöfundur margra íslenskra kvenna. Nýjasta bókin hennar er skemmtilegur félagi í sumarfríið.

Æðislegur vinskapur í sumfríið

Þótt við höfum verið langmest í barna- og unglingabókmenntum þá höfum við aðeins verið að færa okkur yfir í afþreyingu fyrir fullorðna. Við bjóðum bæði bækur eftir innlenda og erlenda höfunda. Við gáfum út bók í fyrra eftir Ragnheiði Gestsdóttur sem nefnist Farangur en hún hlaut Blóðdropann 2022 fyrir bestu glæpasögu ársins 2021. Sömuleiðis höfum við gefið út fræðibækur eins og Lífið í lit um mikilvægi litagleði í umhverfi okkar og Húðin og umhirða hennar. Það má því segja að við komum víða við,“ segir Birgitta.

Hvorki Birgitta né Marta höfðu komið nálægt bókaútgáfu þegar þær réðust í að stofna Bókabeituna. „Það má segja að hver dagur hafi komið okkur á óvart en að sama skapi hefur þetta verið mjög skemmtilegt. Við þurftum að læra ansi margt og oft á hlaupum. Vegna þess að við vorum ekki bundnar af neinum fyrir fram gefnum hugmyndum um hvernig bókaforlag ætti að vera þá gerði maður stundum mistök til að læra af, annað gerðum við og komumst að raun um að það væri betra en áður hafði tíðkast.“

Sumarsprengja í strandhúsi

Bókabeitan gefur út bókina Sumar í strandhúsinu eftir Söruh Morgan sem er ein vinsælasta kilja sumarsins. „Sarah er skoskur rithöfundur sem býr í Bandaríkjunum. Hún sendir frá sér tvær bækur á ári, aðra um sumar og hina að vetri. Í nóvember kom út bókin Vetrarfrí í hálöndunum. Bækur Söruh hafa selst í meira en 25 milljónum eintaka í heiminum. Þetta var sjötta bókin sem var að koma út núna og þær hafa allar verið mjög vinsælar,“ segir Birgitta.

„Við munum halda áfram að gefa bækur hennar út hér á landi og vorum svo heppnar að fá nýjasta handritið áður en bókin var gefin út ytra þannig að hún kom samtímis út hér og í Bandaríkjunum. Sarah er öflug í því að taka fyrir aðstæður fólks sem flestir kannast við, ég sé til dæmis vinkonur mínar oft í bókum Söruh. Ég get alveg mælt með bókum hennar til að taka með í fríið,“ segir Birgitta og bendir á að bækur Söruh séu einnig fáanlegar sem hljóðbækur.

Ný bók eftir metsöluhöfund

Á næstunni kemur út ný bók eftir Colleen Hoover sem er margfaldur metsölu- og verðlaunahöfundur. Þetta er fyrsta bókin sem þýdd er á íslensku og nefnist hún Þessu lýkur hér. „Við erum mjög spenntar að kynna þennan höfund hér á landi,“ segir Birgitta, en hægt er að tryggja sér eintak í forsölu á heimasíðu Bókabeitunnar. Collen Hoover höfðar mjög til yngri kvenna. Hún er aðeins þyngri en Sarah Morgan en er samt ekki þung og bókin er kynnt sem ástarsaga,“ segir Birgitta. „Með haustinu koma síðan nokkrar nýjar bækur frá okkur, meðal annars frá Ragnheiði Gestsdóttur.“

Nánar má kynna sér úrval bóka hjá Bókabeitunni á heimasíðunni bokabeitan.is þar sem þær eru jafnframt til sölu

Sumarlegar bækur fyrir börn

Bókabeitan gefur út fjörugar, skemmtilegar, spennandi og myndríkar sumarbækur fyrir krakka, fullkomnar til að taka með í sumarfríið. Stúfur fer í sumarfrí og Sumarþrautabók Stúfs Bókin Stúfur fer í sumarfrí, eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur, er þriðja bókin um jólasveininn góðkunna og fjallar um hann Stúf sem er í sumarfríi og lætur sig dreyma um ferðalög til fjarlægra landa. Hann verður himinlifandi þegar Lóa vinkona hans býður honum að koma með sér alla leið til Ítalíu. Stúfur skemmtir sér konunglega þegar hann kynnist ítalskri menningu og lendir í óvæntum ævintýrum í þessu besta sumarfríi lífs hans. Bókina prýða afar fyndnar, fallegar og fjörugar litmyndir eftir Blævi Guðmundsdóttur.

Þær Eva Rún og Blær gáfu einnig út Sumarþrautabók Stúfs sem er þrautabók með fjölbreyttum mynda- og orðaþrautum og myndum til að lita sem allar tengjast nýjustu bókinni um hann Stúf. Það er tilvalið að taka þessa tvennu með í sumarfríið! Stúfur fer í sumarfrí er nýjasta bókin í Ljósaseríunni sem er metnaðarfullur bókaflokkur fyrir krakka, en í bókaflokknum er að finna myndríkar barnabækur með fjölbreyttum efnistökum. Bækurnar eru allar eftir íslenska höfunda og myndlýstar af íslenskum teiknurum. Bækurnar eru misþungar en hafa allar þægilegt letur og rúmt línubil.

Hægt er að gerast áskrifandi að klúbbnum og fá þeir krakkar senda glænýja bók inn um lúguna fjórum sinnum á ári.

Kennarinn sem fuðraði upp

Höfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir sendi frá sér í vor æsispennandi krakkakrimma, Kennarann sem fuðraði upp, sem er jafnframt fjórða bókin í kennarabókaflokknum geysivinsæla. Bergrún Íris er bæði höfundur texta og mynda. Krakkarnir í BÖ-bekknum eru að jafna sig á öllu sem dunið hefur yfir undanfarið og Engilbert kennari, sem kom fram í síðustu bók, var sem betur fer blásaklaus. Nú eru það vinirnir Óli Steinn og Axel sem segja söguna og fjallar sagan m.a. um vinskap þeirra þegar óvænt afbrýðisemi skýtur upp kollinum. En einhver er með hræðileg og háleynileg áform sem munu breyta þessu öllu og lífshætta steðjar að krökkunum og þeir þurfa að glíma við leyndarmál og svik. Enn á ný reynir á samvinnu bekkjarfélaganna og ekki síst þeirra Óla Steins og Axels. Kennarabækurnar hafa notið mikilla vinsælda bæði hjá börnum og unglingum.

Fyrsta bókin í flokknum, Kennarinn sem hvarf, vann Bókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur árið 2019.

Bekkurinn minn

Bekkurinn minn er vinsæl bókasería fyrir byrjendur í lestri eftir textahöfundinn Yrsu Þöll Gylfadóttur og myndhöfundinn Iðunni Örnu. Hjólahetjan fjallar um Jón Ingva sem lendir í vandræðum með hjólalásinn sinn þegar hann fer með pabba í vinnuna. Feðgarnir þurfa að redda málunum og lenda í óvæntri eftirför á leiðinni heim. Hver bók í bókaflokknum Bekknum mínum er sögð frá sjónarhorni eins nemanda í íslenskum grunnskóla. Lesandi fær því að kynnast fjölbreyttum veruleika ólíkra barna, bæði innan og utan veggja skólans. Sögurnar eru áhugaverðar og spennandi, með góðum og fjölbreyttum orðaforða, aðgengilegu letri og rúmu línubili.

Bekkurinn minn – Lauflétt að lesa

Bekkurinn minn – Lauflétt að lesa er einfaldari útgáfa af hinum vinsæla bókaflokki Bekknum mínum. Þegar fyrstu bækurnar í seríunni Bekkurinn minn komu út sýndu viðtökurnar að það var greinilegur skortur á lesefni fyrir nýlega læs börn. Það kom fljótt í ljós að jafnvel fluglæs börn hafa gaman af Bekknum mínum og eru forvitin að kynnast öllum þessum ólíku börnum í bekknum, hverju með sína sögu og sjónarhorn. Enda endurspegla bækurnar íslenskan veruleika sem flest grunnskólabörn þekkja. Fljótlega sáu höfundar að það vantaði líka skemmtilegt lesefni fyrir börn sem eru rétt farin að stauta sig fram úr orðum og setningum. Það eru fáar þannig bækur til sölu á almennum markaði. Þá kviknaði hugmyndin að Lauflétt að lesa seríunni.

Bækurnar eru enn þá léttari útgáfa af fyrri bókum: sama saga, sömu myndir, en textinn er enn einfaldari og letrið stærra. Bókin Bekkurinn minn - Bjarni Freyr, fjallar um Bjarna Frey sem finnst hann hafður fyrir rangri sök og ákveður að strjúka úr frístund með Mikael vini sínum. En ferðalagið endar á annan hátt en þeir héldu. Bókin Bekkurinn minn - Nadira fjallar um stúlkuna Nadiru sem er nýflutt til Íslands frá Írak. Nadira er feimin í fyrstu en hún er fljót að eignast vini og læra nokkur ný orð.