„SÍMEY er vottaður fræðsluaðili sem hefur starfað í á þriðja áratug og býður upp á fjölbreytt námskeið, lengra nám, náms- og starfsráðgjöf, markþjálfun og vinnustofur fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga,“ segir Kristín Björk og bætir við að eitt markmiðið sé að einstaklingar á Eyjafjarðarsvæðinu hafi aðgang að hagnýtri þekkingu á öllum skólastigum. „Eitt af hlutverkum okkar er að efla símenntun og auka samstarf milli atvinnulífs og skóla og því vinnum við mikið með atvinnulífinu, þarfagreinum fræðsluþarfir starfsfólks, bjóðum upp á raunfærnimat og námskeið sem gera fólki kleift að vera betur í stakk búið til að takast á við síbreytilegan vinnumarkað.“

Gott aðgengi að veflægu námi

Hún segir áhersluna alltaf hafa verið á að bjóða upp á fjölbreytt námskeið og vera í takti við það sem vinnumarkaðurinn kallar eftir hverju sinni.

„Þar sem við erum alltaf í samtali við fólk erum við nokkuð fljót að heyra hvað það er sem liggur á fólki og reynum að aðlaga námsframboðið okkar því sem hentar hverju sinni. Þannig höfum við stórbætt aðgengi fólks að veflægu námi síðustu misserin og þar með stækkað markhópinn til muna. Við erum einnig að bjóða upp á veflæga náms- og starfsráðgjöf. Námskeiðin okkar eru frá því að vera stutt tveggja klukkustunda veflæg námskeið upp í tveggja ára réttindanám. Veflægu námskeiðin eru af fjölbreyttum toga og greiða mörg stéttarfélög þátttöku sinna félagsmanna að fullu.“

Í lengra náminu segir Kristín mikla áherslu vera á að auka sveigjanleika námsins, meðal annars með vendikennslu. „Þetta þýðir að nemendur geta horft á fyrirlestra kennara og unnið verkefni á þeim tíma sem þeim hentar. Fyrirlestrar í skólastofu eru því fátíðir en nemendur geta þess í stað horft á þá í tölvunni heima hjá sér, en jafnframt eiga þeir þess kost að koma hingað í SÍMEY til að hitta kennarana, fá svör við spurningum sem upp koma og/eða njóta aðstoðar við úrlausn verkefna.“

Fjölbreytt nám

Hún segir vinsælasta námið vera málmsuðusmiðju. „Það nám er oftast fullmannað áður en við auglýsum. Þá erum við líka að bjóða upp á kjarnagreinarnar í bóklegu námi á nokkrum stigum, skrifstofunám, myndlistarnám og síðan réttindanám til félagsliða sem og leikskólaliða og stuðningsfulltrúa svo eitthvað sé nefnt. Þá höfum við líka boðið upp á hæfnimat fyrir fólk af erlendum uppruna sem vill sjá hvar það stendur í íslensku sem öðru máli. Þetta er rafrænt mat, fólki að kostnaðarlausu og er óhætt að segja að því hafi verið afskaplega vel tekið. Þá getur fólk valið um íslenskunámskeið bæði sem stað- eða fjarnámskeið. Við höfum verið að kenna fjarnámskeiðin í samstarfi við Ásgarð og köllum það nám Íslenskuþjálfarann en þar er aðaláherslan lögð á að æfa tal og auka sjálfstraust fólks til að tala íslenskuna.“

Til viðbótar öllu þessu þá hýsir SÍMEY starfsemi Fjölmenntar. „Þar eru á hverri önn fjölmörg námskeið í boði sem ætlað er að auka lífsgæði fullorðinna einstaklinga með fötlun.“

Kristín segir þann markhóp sem sækir námskeiðin afar stóran og fjölbreyttan. „Við bjóðum upp á námsleiðir sem eru ætlaðar 18 ára og eldri sem hafa litla formlega menntun að baki en svo erum við með námskeið sem henta öllum, hvort heldur sem þau eru hugsuð til eflingar á vinnumarkaði eða einfaldlega til dægradvalar.“

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu simey.is en SÍMEY má líka finna á Facebook og Instagram. Einnig er velkomið að hafa samband beint með tölvupósti á simey@simey.is eða í síma 460-5720.