Stelpur diffra er námskeið þar sem lögð er áhersla á að rækta áhuga stelpna og stálpa sem hafa gaman af stærðfræði og vilja læra umfram það sem námið í framhaldsskólum býður upp á.

Hugmyndina að Stelpur diffra fékk Nanna Kristjánsdóttir, BS-nemi í stærðfræði við Háskóla Íslands, þegar hún var að ljúka námi í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir tveimur árum. Hana hafði langað til að fara í ýmiss konar stærðfræðinámsbúðir sem haldnar eru erlendis en þátttaka í þeim er oftar en ekki mjög kostnaðarsöm, auk þess sem hún vildi hjálpa til við að jafna kynjahlutföllin innan greinarinnar hér heima.

„Markmið búðanna er að auka þátttöku stúlkna og stálpa í heimi stærðfræðinnar en þar er töluverður kynjahalli sem sést til dæmis á þátttöku í stærðfræðikeppnum og hvernig hlutfall kvenna og kvára lækkar mikið á hærri menntunarstigum í greininni.“

Nanna vann lokaverkefni í MH þar sem hún skoðaði hvernig mætti setja upp slíkar námsbúðir hér á landi og notaði hún meðal annars Stelpur rokka sem fyrirmynd. Þannig vildi hún búa til námsbúðir þar sem stelpur og stálp fengju tækifæri til að sökkva sér í heim stærðfræðinnar samhliða sjálfstyrkingu og í raun að verða smá pönkarar innan stærðfræðinnar,“ segir Anna Helga Jónsdóttir, dósent í tölfræði og leiðbeinandi í verkefninu, en það hefur tvisvar hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna, árið 2021 og 2022.

Styrkir hjálpuðu til

„Það að fá styrkina gerði okkur í raun kleift að bjóða upp á námsbúðirnar en gríðarleg vinna liggur að baki þeim. Með því að fá styrkina gat Nanna unnið í tvö sumur við það að skipuleggja og svo að bjóða upp á námsbúðirnar og erum við óendanlega þakklátar fyrir að hafa fengið þessa styrki. Styrkirnir hafa einnig gert okkur kleift að halda þátttökugjaldi búðanna sem lægstu fyrir þau sem hafa áhuga á að taka þátt,“ segir Anna Helga.

„Ólíkt flestum námsgreinum á háskólastigi eru karlar í meirihluta í svokölluðum STEM-greinum (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði). Rannsóknir sýna að ástæðan er ekki sú að önnur kyn hafi minni áhuga á þessum greinum eða minni getu til að stunda þær heldur séu það ytri þættir, svo sem skortur á fyrirmyndum, sem ráða för og því viljum við breyta,“ bætir hún við og segir að áhugi á verkefninu sé mjög mikill.

„Það er greinilegt að það hefur verið vöntun á búðum sem þessum. Sem dæmi má nefna að allar konurnar sem hafa komið að kennslu og skipulagningu búðanna hafa nefnt að þær vildu óska að sambærilegar námsbúðir hefðu verið til þegar þær voru í námi. Að auki hafa ýmis félög og stofnanir sýnt áhuga á verkefninu og lagt okkur lið, svo sem Verkfræðingafélagið, mennta- og barnamálaráðuneytið, Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, Raunvísindastofnun, Íslenska stærðfræðafélagið og Vísindafélag Íslands.“

Öðruvísi kennslufræði

Þegar Nanna er spurð hverjir séu helstu áhersluþættir, svarar hún: „Á námskeiðinu er meðal annars fjallað um þær greinar stærðfræðinnar sem falla undir Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna og spreyta þátttakendur sig á gömlum dæmum þaðan, svo fáum við heimsóknir, kynningar og kennslu frá stærðfræðimenntuðum konum sem starfa víða í samfélaginu.

Kennslufræðin er ólík því sem venjan er oft í stærðfræðitímum en til dæmis leysa þau þrautir, vinna í hóp, efnið er sett í sögulegt og samfélagslegt samhengi og þau eru hvött til þess að ræða saman um efnið og gera mistök. Á lokadegi búðanna hafa þátttakendur unnið stærri verkefni þar sem þau nota það sem þau hafa lært yfir vikuna sem verkfæri til að skoða heiminn í kringum okkur. Haldin hafa verið tvö námskeið og stefnt er að því að halda þeim áfram. Nemendur eru í framhaldsskóla og gert er ráð fyrir að þau hafi klárað fyrsta árið á því námsstigi.“

Eins og áður var nefnt miðla búðirnar stærðfræði á hátt sem er líkari því hvernig stærðfræðingar hafa unnið í gegnum aldirnar. Þátttakendur hafa bæði talað um að fá forskot og víðari yfirsýn í skólanum eftir búðirnar og meira sjálfstraust en á námskeiðunum takast þau á við ýmiss konar áskoranir og verkefni sem þau höfðu ekki endilega sjálf trú á að þau gætu leyst í fyrstu. Nemendur hafa einnig lýst ánægju með að læra efnið stærðfræðinnar vegna en ekki bara til að muna allt utan að fyrir próf.

„Við höfum passað upp á að taka tíma í búðunum frá til þess að fjalla um það stærðfræðinám sem er í boði í háskólunum en fá líka yfir vikuna fyrirmyndir sem starfa í tengdum eða jafnvel ótengdum greinum, sem nota samt stærðfræði á einn hátt eða annan. Það virðist hafa hjálpað mörgum þátttakendum að móta hugmyndir um eigin framtíð betur,“ útskýrir Nanna.

Ýmsar stærðfræðitengdar sumarnámsbúðir eru til í öðrum löndum en hafa ekki verið haldnar hér á landi með sambærilegu sniði áður. „Þar sem búðirnar draga innblástur sinn meðal annars frá Stelpur rokka, auk þess að vera hannaðar með íslenskar aðstæður í huga, má með sanni segja að ekki sé hægt að finna sömu námsbúðir neins staðar annars staðar,“ segir Anna Helga en auk hennar hefur Bjarnheiður Kristinsdóttir leiðbeint Nönnu í verkefninu. „Við erum afskaplega þakklátar þeim mörgu konum sem hafa komið og kennt á námskeiðinu.“