„Síðustu 2–3 ár höfum við verið að auka og efla þjónustuna okkar, sérstaklega þann hluta sem snýr að því að sækja umbúðir heim til fólks. Við komum í húsfélög og setjum upp ílát sem henta stærð og umfangi hvers félags og svo komum við og sækjum þau og setjum ný ílát þegar þau fyllast,“ segir Júlíus Aðalsteinsson, rekstrarstjóri Grænna skáta. „Margir gefa okkur umbúðirnar, en við bjóðum líka upp á að greiða út skilagjaldið og þá borgum við að hámarki 11 krónur fyrir hverja einingu, en skilagjaldið er 18 krónur, svo við höldum eftir 7 krónum fyrir okkar þjónustu.

Við getum bæði komið og sótt ílátin reglulega í samráði við fólk og líka boðið upp á ílát sem eru búin skynjurum, þannig að við sjáum hvenær við þurfum að koma,“ útskýrir Júlíus.

„Við bjóðum líka upp á þessa þjónustu fyrir félagasamtök og fyrirtæki og umfangið hefur verið að aukast hratt eftir að fyrirtæki fengu starfsmenn sína aftur inn á vinnustaðina,“ segir Júlíus. „Veitingahús og veitingaaðilar hafa líka verið að leita til okkar í auknum mæli, en þau hafa verið að átta sig á hve þægilegt það er að fá okkur til að sjá um þennan hausverk.

Fyrirtækjaþjónustan okkar er í raun bara viðbót við almenna sorphirðu. Við erum byrjaðir að hasla okkur völl í þeim bransa,“ segir Júlíus. „Það er nýtt fyrir mörgum að það sé hægt að fá einhvern til að sækja þennan endalausa straum af umbúðum og margir vilja losna við vinnuna og sóðaskapinn sem þessu fylgir, en samt fá peninga út úr umbúðunum.“

Þríþættur megintilgangur

„Grænir skátar er fyrirtæki sem var stofnað fyrir rúmlega 30 árum þegar skilagjald var sett á einnota drykkjarumbúðir og hét þá Þjóðþrif,“ segir Júlíus. „Undanfarin ár höfum við hægt og rólega verið að byggja fyrirtækið upp og verið með gáma á öllum grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum líka verið að víkka starfsemina út austur fyrir fjall í sveitirnar þar og hægt og rólega byggt upp netið okkar. Stefnan er að geta einnig þjónustað önnur svæði á landinu.

Grænir skátar hafa þríþættan megintilgang. Við viljum auka umhverfisvitund, afla fjár fyrir skátana, sem rennur óskert í uppeldis- og félagsstarf ungs fólks á vegum íslenskra skáta víðs vegar um landið og veita þeim vinnu sem þurfa stuðning í vinnu í samvinnu við verkefnið Atvinna með stuðningi hjá Vinnumálastofnun,“ segir Júlíus. „Við erum með yfir 30 starfsmenn í mismunandi starfshlutfalli og langflestir starfsmenn okkar koma úr þessu verkefni. Við leggjum áherslu á þessa grunnþætti í öllum ákvörðunum og vinnu innan fyrirtækisins.“

Sparar tíma, vinnu og sóðaskap

„Fólk skilar líka umbúðum til okkar í grenndargámana og þá fáum við að eiga þær, en við tökum einnig við umbúðum í flöskumóttökunni í Hraunbæ, sem við rekum í samvinnu við Endurvinnsluna. Þar er hægt að skila umbúðum á sama hátt og fólk er vant og fá allan peninginn fyrir þær, en við fáum umboðsgjald frá Endurvinnslunni fyrir að sjá um stöðina,“ útskýrir Júlíus.

„Húsfélaga- og fyrirtækjaþjónusta okkar hefur notið vaxandi vinsælda að undanförnu, því fólki líkar vel að fá þessa þjónustu og þurfa bara að safna þessu saman og síðan ekki hugsa um það meir, því við sjáum um afganginn,“ segir Júlíus að lokum.


Nánari upplýsingar má finna á dosir.is