Rafal er með öfluga framleiðsludeild og deild rannsókna og þróunar sem sérhæfir sig í tæknilega flóknum verkefnum í raforkugeiranum.

„Vegferðin okkar hjá Rafal er skýr en með leiftrandi áhuga, framúrskarandi hæfni og ríkulegum auðlindum ætlum við að verða leiðandi þekkingar- og þjónustumiðstöð rafmagns og fjarskipta á heimsvísu,“ segir Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, mannauðsstjóri Rafals. „Í dag starfa hjá okkur um 120 manns í þremur fyrirtækjum, en dótturfyrirtæki Rafal eru Verkfræðistofan Afl og orka sem sérhæfir sig í rafmagnsverkfræði og Lýsir sem vinnur að lorawan- og IoT-lausnum og sölu og sérfræðiþekkingu á ljósleiðarastrengjum og allri þjónustu í kringum það.

Við erum gríðarlega stolt yfir þessum ótrúlega hæfa hópi sem hjá okkur starfar, en margt af okkar starfsfólki hefur fylgt okkur um árabil. Fólkið okkar er klárlega hjartað í starfsemi okkar.“

Tækniheimurinn fyrirmynd

Ingibjörg, sem áður starfaði í tæknigeiranum, meðal annars hjá Spotify, segist telja að tæknigeirinn hafi vaknað af værum blundi fyrir 8-10 árum þegar stjórnendur áttuðu sig á því að heilu tæknifyrirtækin sem voru nánast eingöngu skipuð karlmönnum. „Það var gríðarleg skemmtilegt að fá að taka þátt í því verkefni að breyta þessu hjá Spotify, þar sem bæði stjórnendur og starfsmenn tæknideildar voru nánast eingöngu karlmenn. Í dag er staðan hins vegar gjörbreytt enda fyrirtækið löngu búið að átta sig á mikilvægi þess að vera með fjölbreyttan vinnustað. Ég held það skapi fyrirtækjum gríðarlegt samkeppnisforskot og bæti vinnustaðamenninguna í fyrirtækinu að hafa vinnustaðinn sem fjölbreyttastan.“

Eftir farsæl ár í tæknigeiranum gekk Ingibjörg til liðs við Rafal um um mitt ár 2020 og það sló hana strax hve fáar konur störfuðu hjá fyrirtækinu. „Þetta voru svo sannarlega öflugar konur þar en þær voru fáar og nánast engin þeirra í stjórnunarstöðu. Mér leið stundum eins og ég væri að eiga sömu samtölin um mikilvægi fjölbreytileikans og ég átti fyrir um átta árum í tæknigeiranum.“

Ingibjörg segir tæknigeirann hafa tekið stór skref í átt að jafnrétti á undanförnum áratug og telur iðnaðinn mikið geta lært af þeirri vegferð.

„Mig langaði strax að kanna hvort það væri ekki áhugi hjá stjórnendum á að breyta þessu og búa til vinnustað sem væri líka eftirsóknarverður og aðlaðandi fyrir konur. Þeir voru heldur betur til í það svo undanfarin ár höfum við markvisst unnið að því að breyta þessu með gríðarlega góðum árangri,“ segir Ingibjörg. „Í dag starfa hjá okkur 17 ótrúlega flottar konur, þar af níu sem eru rafmagnsmenntaðar. Hlutföllin eru líka að verða jafnari í stjórnendahópnum, en í framkvæmdastjórn Rafal sitja í dag þrjár konur og tveir karlar. Erla Björk Þorgeirsdóttir leiðir svo Verkfræðistofuna Afl og orku, en ég held að það séu afar fáar framkvæmdastýrur á verkfræðistofum á Íslandi.“

Konur sækja ekki um

Ingibjörg segir hluta vandans fólginn í því að rafiðnaðurinn hafi ekki verið kynntur almennilega fyrir konum.

„Ég væri ansi rík ef ég hefði fengið krónu í hvert sinn sem einhver sagði við mig „það sækja ekki neinar konur um…“ Þetta er náttúrulega engin afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Við þurfum að kynna þennan iðnað fyrir ungum konum, hvetja þær til að sækja sér menntun í faginu og bjóða þeim svo upp á vinnustað þar sem þær fá að njóta sín. Við verðum að galopna þennan heim fyrir þeim. Rafvirkjun er til dæmis starf sem hentar konum ansi vel, þar sem mikil áhersla er lögð á nákvæmnisvinnu og öryggi.“

Frábærar fyrirmyndir

Þróun síðastliðinna ára hefur verið mjög góð í orkugeiranum. „Í dag erum við með gríðarlega flottar konur eins og Höllu Hrund orkumálastjóra og Margréti Halldóru sem er formaður félags íslenskra rafvirkja og eru þær mikilvægar fyrirmyndir fyrir konur í þessum iðnaði. Eins hafa nokkur orkufyrirtæki náð mjög góðum árangri en þar langar mig sérstaklega að hrósa fyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur fyrir allt það sem þau hafa lagt á vogarskálina í þessum málaflokki.

En til þess að við getum raunverulega farið að hreyfa nálina verðum við öll að standa saman. Við þurfum öll að taka þátt í þessari byltingu. Ég vil því hvetja alla okkar samstarfsaðila og samkeppnisaðila til að taka höndum saman og taka þátt í þessu samfélagslega mikilvæga verkefni,“ segir Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir að lokum. ■

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir er mannauðsstjóri hjá Rafal.