Tölfræðilegar greiningar á kynjahlutföllum skapa grundvöll fyrir upplýstar ákvarðanir til að jafna þau út. Það er mikilvægt að fyrirtæki sinni þessu, bæði af mannréttindaástæðum auk þess sem jafnari kynjahlutföll í stjórnunarstöðum bæta rekstur og afkomu fyrirtækja á ýmsan hátt.

„Í sívaxandi og breytilegum heimi þurfa fyrirtæki stöðugt að bregðast við breyttum rekstraraðstæðum, takast á við fjölbreytt verkefni og styðja við framþróun og nýsköpun. Kynjafjölbreytileiki er mjög farsæl leið til þess að ýta undir jákvæðar breytingar í starfsumhverfi, því þá verður sjóndeildarhringurinn mun víðari, en ef allir eru með sömu sýn fæðast færri hugmyndir,“ segir Rebekka Rún Jóhannesdóttir, rekstrar- og sjálfbærniráðgjafi hjá EY. „Því er það hagur fyrirtækja að stuðla að fjölbreytni í stjórnunarstöðum, meðal annars með því að viðhalda jöfnu kynjahlutfalli.“

Tölfræði hjálpar við upplýstar ákvarðanir

„Fyrsta skrefið í átt að jafnara kynjahlutfalli er að þekkja stöðuna, en í fjölmörgum fyrirtækjum og atvinnugeirum í heild sinni vantar greiningar og tölulegar upplýsingar um kynjahlutföll. Ef mælingar og staðreyndir eru dregnar fram er kominn góður grunnur til að vinna út frá, því þá er hægt að fylgja niðurstöðunum eftir og reyna að hafa jákvæð áhrif,“ segir Rebekka. „Án staðreynda og tölulegra upplýsinga situr einungis persónuleg reynsla og upplifun eftir, en oft teljum við okkur standa betur hvað varðar jöfn kynjahlutföll heldur en raun ber vitni.

Við hjá EY höfum til að mynda aðstoðað Konur í orkumálum og Nordic Energy Research við álíka greiningu fyrir orkugeirann á Norðurlöndunum einmitt í þessum tilgangi sem hafa reynst mikilvægur þáttur í upplýsingagjöf og hvatningu í átt að jafnara kynjahlutfalli innan orkugeirans,“ segir Rebekka.

Hægt að ráðast í ýmsar aðgerðir strax

„Ef tölulegar upplýsingar um kynjahlutföll sýna framfarir á milli ára á að sjálfsögðu að fagna þeim og jafnframt greina hvað það er sem hefur breyst, svo hægt sé að halda áfram áhrifaríkri vinnu,“ segir Rebekka. „Ef það eru hins vegar litlar sem engar jákvæðar breytingar, þá getum við verið óhrædd við að prófa nýjar leiðir.

Við sjáum enn mjög skakka stöðu í atvinnulífinu, sérstaklega þegar horft til kvenna í stjórnunarstöðum. Það er því mikilvægt að fyrirtæki setji sér markmið og vinni eftir skipulögðum áætlunum sem styðja konur í forystu fyrirtækja,“ segir Rebekka. „Fyrirtæki geta gripið til aðgerða strax í dag, hvort sem þau vilja bæta eða tryggja áframhaldandi jafna stöðu kvenna í stjórnunarstöðum. Hér eru nokkrar tillögur að aðgerðum sem hægt er að ráðast í tafarlaust:

Ráðningar

■Ráða og efla konur í leiðtogahlutverk til að brjóta niður neikvæðar staðalímyndir

■Breyta starfslýsingum til að stuðla að jafnrétti kynjanna og meta hvort breyta þurfi kröfum til að breikka hóp umsækjenda, til dæmis hvað varðar reynslu og menntun

■Ef konur sækja ekki um, leita betur. Einnig er hægt að aðstoða við að leiðrétta tilhneigingu kvenna sem takmarka starfsmöguleika þeirra, svo sem vanmat á þeirra eigin hæfni

Vinnustaðamenning

■Skapa vinnustaðamenningu sem byggir á þátttöku kvenna og karla

■Þroska kynin jafnt í öllum hlutverkum

■Bjóða upp á sveigjanleika fyrir alla starfsmenn og tryggja að hann komi ekki að sök ef starfsmenn nýta sér hann

■Fræða alla starfsmenn um mikilvægi og ávinning af fjölbreytileika til að breyta rótgrónum venjum og hugarfari

■Ganga úr skugga um að hópur matsaðila sé fjölbreyttur, ekki aðeins út frá kynjasjónarmiðum, heldur einnig með tilliti til fjölbreytileika í reynslu, bakgrunni, aldri, stöðu og svo framvegis

Ímynd

■Skapa fleiri fyrirmyndir og gera þær sýnilegri til að hvetja fleiri konur til þess að fara sömu leið og auka fjölbreytni

■Vera meðvituð um jafnvægi kynjanna og fjölbreytileika á ráðstefnum og námskeiðum, bæði varðandi samsetningu umræðuhópa og fyrirlesara

Hægt er að grípa til þessara aðgerða strax og fylgjast með breytingum með tölulegum greiningum. Ég tel að þannig munum við einn daginn ekki lengur þurfa að skrifa greinar eða skýrslur um jafnt kynjahlutfall, því það verður orðinn sjálfsagður hluti af starfsemi, menningunni og samfélaginu,“ segir Rebekka. „En þangað til þurfum við að gera það sem í okkar valdi stendur til að brúa bilið.“

Konur í stjórnunarstöðum bæta afkomuna

„Konur eru um 48% jarðarbúa en þær eru á sama tíma eingöngu 27% þeirra sem eru í stjórnunarstöðum fyrirtækja. Það eru ekki eingöngu grundvallarmannréttindi að allir hafi jafna möguleika á að komast til áhrifa, heldur skapar það líka frábær viðskiptatækifæri fyrir fyrirtæki,“ segir Rebekka. „Rannsóknir sýna að jafnt kynjahlutfall stuðlar að betri stjórnarháttum, betri ákvarðanatöku og meiri skilvirkni stjórnar. Fjölbreytni veitir víðtækari þekkingu, reynslu og sjónarmið og á slíkum grunni verða ákvarðanir betri og fleiri aðilum og hópum til góðs.

Aukinn kynjafjölbreytileiki styrkir fyrirtæki á margvíslegan hátt.

Fjölbreytni skilar sér einnig í auknum fjárhagslegum ávinningi fyrir fyrirtæki. Fjöldi rannsókna um heim allan hefur sýnt fram á fylgni milli jafnara kynjahlutfalls í stjórnunarstöðum og aukinnar arðsemi, betri árangurs í viðskiptum og sterkari fjárhags fyrirtækja,“ útskýrir Rebekka. „Fyrirtæki eru 35% líklegri til þess að standa sig betur ef kynjahlutfall þeirra er jafnt. Þá eru starfsmenn 3,5 sinnum líklegri til þess að hámarka þátttöku sína í nýsköpun ef teymið sem unnið er í er fjölbreytt.

Á sama tíma geta fyrirtæki með fjölbreytni í stjórnunarstöðum brotið niður staðalímyndir, haft jákvæð áhrif á menninguna og búið til fyrirmyndir sem stuðla að áframhaldandi fjölbreytni,“ segir Rebekka. „Rannsóknir hafa einnig sýnt að jafnt kynjahlutfall í stjórnum styður við getu til að laða að og halda í fólk með mikla hæfileika, gefur fyrirtækinu aukinn skilning á viðskiptavininum, getur aukið framleiðni liðsheilda og stuðlar að betri árangri við að ná ófjárhagslegum vísum.“

Jafnrétti er nauðsynlegur grunnur sjálfbærni

„Hröð þróun á sér stað í ófjárhagslegri upplýsingagjöf félaga og krafa viðskiptavina, fjárfesta og samfélagsins alls um að skipulagseiningar tileinki sér samfélagslega ábyrgð eykst með hverjum deginum sem líður,“ segir Rebekka. „Jafnrétti er ein af grunnstoðum sjálfbærrar þróunar líkt og kemur fram í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í UFS leiðbeiningum Nasdaq, en þar er meðal annars horft á kynjalaunamun, kynjafjölbreytni og kynjahlutfall stjórnar.

Ef laun kynjanna eru ójöfn stefna fyrirtæki orðspori sínu í hættu og geta einnig átt hættu á að lenda í lagalegum vanda vegna mismununar,“ segir Rebekka. „Mæling á kynjafjölbreytileika í UFS leiðbeiningunum lítur á kynjahlutfall fyrirtækis, allt frá byrjunarstörfum yfir í efsta stig ákvörðunar- og áhrifavalds og viðleitni fyrirtækja til að innleiða vinnuhætti sem nýta vinnuafl og hæfileika sem best með tilliti til stöðuhækkana og starfsaldurs. Það sama má segja með UFS mælingar á kynjahlutfalli stjórnar, sem líta á viðleitni fyrirtækis til að innleiða starfshætti án aðgreiningar og til að hámarka nýtingu vinnuafls og hæfileika.“

Fjölbreytt fyrirtæki vinsælli hjá fjárfestum

„Fjárfestar eru í auknum mæli farnir að leggja áherslu á sjálfbærni í sínum fjárfestingum og áhættugreiningum. Þar er ekki eingöngu einblínt á umhverfismálin, heldur einnig hvernig kynjahlutföllum í stjórnunarstöðum fyrirtækja er háttað og hvort fyrirtæki uppfylli ákvæði jafnlaunavottunar,“ útskýrir Rebekka. „Sumir fjárfestar sigta sérstaklega út fyrirtæki sem eru fjölbreyttari eða hafa jafnari kynjahlutföll.

Þetta þýðir einfaldlega að fyrirtæki sem stuðla ekki að fjölbreytileika og jöfnum kynjahlutföllum í stjórnunarstöðum gætu orðið út undan hjá mörgum fjárfestum, ásamt því að upplýstir neytendur gætu beint viðskiptum sínum annað,“ segir Rebekka. „Þessi þróun getur haft mjög jákvæð áhrif innan viðskiptalífsins, en við verðum að taka fyrsta skrefið. Af hverju að láta viðskiptatækifæri sem býður upp á svona mikla möguleika bíða?“ ■