Því fylgir mikið áfall að greinast með krabbamein. „Að takast á við krabbamein og meðferð við því er krefjandi, ekki bara líkamlega heldur einnig sálrænt og félagslega. Þeim sem greinist með krabbamein og hans nánustu er kippt út úr hinu venjubundna lífi inn í heim veikindanna,“ segir Auður.

„Eðli sjúkdómsins, meðferðarinnar og einstaklingsbundnir þættir hafa alltaf mismunandi áhrif hjá hverjum og einum. Óhætt er þó að fullyrða að nær alltaf eru áhrifin veruleg á daglegt líf viðkomandi.“

Stuðningur mikilvægur

Auður segir endurhæfingu gegna lykilhlutverki í bataferli krabbameinssjúklinga. „Endurhæfing er mikilvægur þáttur í því að fólk nái aftur sem bestum bata og lífsgæðum. Ýmislegt er hægt að gera til að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir ákveðin líkamleg og andleg vandamál.“

Þá sé brýnt að bregðast við breyttu og bættu landslagi vegna þeirra framfara sem náðst hafa í læknavísindum undanfarin ár. „Nú læknast mun fleiri af krabbameini en áður auk þess sem fleiri lifa með ólæknandi krabbamein í lengri tíma en áður hefur þekkst. Þessar jákvæðu framfarir leiða þó til þess að aukinn fjöldi tekst á við einkenni og fylgikvilla til lengri tíma vegna krabbameins eða krabbameinsmeðferðar. Þetta er því stækkandi hópur og það eykur þörfina á stuðningi.“

Þörf sé á áframhaldandi stuðningi, jafnvel þótt meðferð sé lokið, en skrefin geta reynst þung. „Rannsóknir sýna að einstaklingar sem greinast með krabbamein og aðstandendur hafa ríka þörf fyrir stuðning bæði í veikindunum og eftir að krabbameinsmeðferð lýkur. Fyrir marga er það hins vegar oft erfitt og stórt skref að leita eftir þeirri aðstoð sem býðst.“

Til staðar fyrir þig

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins stendur þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra til boða ýmis þjónusta. Stuðningur, fræðsla og ráðgjöf, bæði í formi viðtala og símaráðgjafar, námskeið, fyrirlestrar, hópastarf og djúpslökun. „Allt starfið miðar á einn eða annan hátt að því að veita einstaklingunum aðstoð við að takast á við þær tilfinningar, hugsanir, streitu, líkamleg einkenni og fleira sem algengt er að komi upp hjá þeim sem greinast með krabbamein, bæði meðan á veikindum og meðferð stendur en líka í kjölfarið,“ skýrir Auður frá.

„Hjá Ráðgjafarþjónustunni starfa hjúkrunarfræðingar, sálfræðingur, félagsráðgjafi, læknir, lýðheilsufræðingur og kynfræðingur og er nær öll þjónustan í boði án endurgjalds. Undanfarin misseri hefur þjónustan verið efld til muna á landsbyggðinni og er nú í boði á fimm stöðum á landinu; Reykjavík, Akureyri, Austurlandi, Selfossi og Suðurnesjum.“

Námskeið og fyrirlestrar af ýmsu tagi

Auður segir ótal möguleika í boði fyrir þau sem leita til Ráðgjafarþjónustunnar. „Þau námskeið og fræðslufyrirlestrar sem boðið er upp á, eru af ýmsu tagi og í sumum tilfellum í samstarfi við aðildarfélög. Má þar nefna námskeið um núvitund, einbeitingu og minni, þreytu, hugræna atferlismeðferð, jóga nidra og svefn. Einnig hreyfinámskeið (FysioFlow) gegn verkjum, streitu og stífleika og námskeiðið Mín leið sem er fyrir konur sem hafa lokið meðferð við brjóstakrabbameini og er í samstarfi við Landspítala og Brjóstaheill.“

Þjónustan er þá ekki bundin við höfuðborgarsvæðið. „Krabbameinsfélög á landsbyggðinni bjóða einnig upp á ýmislegt, til dæmis stendur Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis fyrir fjölbreyttum námskeiðum og fræðslu, m.a. fyrir börn, auk þess sem starfsemi á Austurlandi, í Árnessýslu og á Suðurnesjum hefur eflst. Kraftur býður meðal annars upp á Fítonskraft sem er hreyfing og útivist fyrir ungt fólk á aldrinum 18-40 ára.“