Fjögur erindi verða flutt á málstofunni. Í erindinu Ungt fólk og útsýnið á loftslagsbreytingar kynnir Arndís Ósk Magnúsdóttir laganemi niðurstöður rannsóknar sinnar um líðan og viðhorf 14-25 ára Hornfirðinga til loftslagsbreytinga.

„Sjálfur flyt ég síðasta erindið, Hernaðurinn gegn heiminum: Um mikilvægi þess að glata hvorki von né skopskyni. Það fjallar um stöðu loftslagsmála og kallast á við erindi Arndísar,“ segir Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði.

Tvö önnur spennandi erindi verða flutt á Vísindakaffinu og má nálgast dagskrána á visindavaka.is/visindakaffi/

Baráttan við hernaðinn

Titill á erindi Þorvarðar er tilvísun í blaðagrein Halldórs Laxness, Hernaðinn gegn landinu. „Þar ræddi hann umhverfismálin sem voru efst á baugi fyrir um hálfri öld á Íslandi. Í dag glímum við enn við sömu vandamál og til viðbótar hafa bæst við umhverfismál vegna loftslagsbreytinga. Þó svo birtingarmyndir loftslagsbreytinga séu að hluta til staðbundnar, þarf að takast á við þær í hnattrænu samhengi,“ segir Þorvarður.

„Loftslagsbreytingarnar eiga rót sína í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríku löndin á norðurhjara plánetunnar losa margfalt magn gróðurhúsalofttegunda á við lönd á suðurhjaranum. Orsökin eru vestrænir lifnaðarhættir og óhófleg iðnaðarframleiðsla.

Hnattrænu loftslagsáhrifin eru ekki bundin við löndin sem valda þeim, heldur geta komið fram hinum megin á hnettinum, í löndum sem hafa lítið eða ekkert sér til sakar unnið. Þau birtast í gríðarlegum þurrki, flóðum og ýktu hitastigi í til dæmis Pakistan, Indlandi, og fátækari löndum Afríku.“

Lausnin felst í skipulagi

„Loftslagsmálin verða æ alvarlegri. Þau má sjá alls staðar þar sem eru jöklar, jafnt á Íslandi sem á Grænlandi, Suðurheimskautinu, Himalajafjöllum og víðar. Við erum að hafa áhrif á grunnferla náttúrunnar sem eru af hnattrænni stærðargráðu. Við erum að fikta í reikistjörnunni sjálfri.

Hernaður er líka vísun í skýrslu sem kom út á vegum umhverfisstofnunar SÞ í ár: Friðmælst við náttúruna. Mannkynið hefur stundað hernað gegn náttúrunni og afleiðingarnar eru útrýming tegunda, eyðilegging vistkerfa og búsvæða og rýrnun náttúrulegrar fjölbreytni.

Það þarf að grípa skipulega til aðgerða á næstu árum og áratugum vegna loftslagsvandans, vernda líffræðilega og náttúrulega fjölbreytni og uppfylla heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun. Þessi svið þarf að hugsa sem eina heild í allri stefnumótun og aðgerðum opinberra aðila.“

Fyrirmyndarríkið Ísland

„Á Íslandi þurfum við öll að taka okkur tak, stjórnvöld, fyrirtæki, sveitarfélög og almenningur. Þó svo hvert og eitt okkar breyti ekki gangi sögunnar, skiptir máli að Ísland sendi skýr skilaboð til umheimsins að við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna við loftslagsbreytingum.

Við getum sótt í reynslu okkar af Covid-19 faraldrinum. Þar hugsuðum við um hlutina bæði á landsvísu og heimsvísu. Loftslagsváin er heimsfaraldur og allur heimurinn er þar undir. Það sem við lærðum í Covid-19 um samstöðu og umhyggju fyrir öðrum manneskjum þarf að teygja yfir aðrar lífverur og náttúruna til að ná raunverulegum árangri.“

Vitundarvakning fyrsta skrefið

„Undanfarin ár hefur orðið mikil vitundarvakning á meðal íslensks almennings um loftslagsvána. En skrefið frá hugmynd til athafna er stórt og þar þarf ríkisvaldið að hafa skýra sýn á það hvað almenningur getur gert. Ríkisvaldið setti hvata til þess að fólk geti keypt vistvænni bíla, en það nægir engan veginn. Þarf ekki líka að minnka notkun á einkabílnum með því að stórbæta almenningssamgöngur?

En hvar kemur skopskynið inn í þetta allt?

„Rannsókn Arndísar fjallar um vaxandi loftslagskvíða ungs fólks á Hornafirði. Í ljós kom að töluverður kvíði hefur hreiðrað þar um sig, enda erum við á suðausturhorninu viðkvæm fyrir loftslagsbreytingum með alla þessa jökla í bakgarðinum. Breytingar á náttúrunni sjást glöggt hér í bráðnun jöklanna síðustu 130 árin. Loftslagsbreytingarnar verða með okkur alla næstu öld og lengur. Unga fólkið í dag mun þurfa að glíma við afleiðingarnar af ákvörðunum og athöfnum eldri kynslóða. Vonin liggur í unga fólkinu, en það stefnir allt í voða ef það er lamað af kvíða.

Ég lít á það sem hlutverk mitt að valdefla almenning, sérstaklega ungt fólk og hvetja það til að gefast ekki upp. Skopskynið er ákveðið meðal sem gerir okkur betur kleift að takast á við hluti sem eru sorglegir og yfirþyrmandi. Ekki má gleyma að hafa gaman á meðan. Nýsköpun er lykilatriði í því að takast á við óvissu og ógnvekjandi framtíð. Stjórnvöld þurfa að efla nýsköpun á öllum sviðum, ekki síður í vísindum, listum, menningar- og samfélagslegri nýsköpun en í iðnaði eða fyrirtækjarekstri.“