Við erum sífellt að ná betur utan um losun sem á sér stað í starfsemi bankans en frá því bankinn undirritaði loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 höfum við unnið að því að ná vel utan um allan reksturinn okkar með það að markmiði að draga úr losun og menga minna“, segir Hlédís Sigurðardóttir, verkefnastjóri samfélagsábyrgðar hjá Arion banka.

„Sem dæmi um verkefni í tengslum við umhverfisvænan rekstur höfum við hjá Arion banka rafvætt hluta bílaflotans okkar. Við höfum líka, frá árinu 2012, veitt starfsfólki okkar sem notar vistvænan ferðamáta til og frá vinnu samgöngustyrki með góðum árangri,“ upplýsir Hlédís en í fyrra nýttu 25 prósent starfsfólks Arion banka sér samgöngustyrk allt árið eða hluta úr árinu.

„Við leggjum einnig áherslu á aukið hlutfall flokkaðs úrgangs sem nú er komið í 67 prósent og þar ætlum við að sjálfsögðu að gera enn betur. Við erum að vinna í að minnka notkun á einnota plasti, notum lífniðurbrjótanlega bolla og ílát þar sem því verður ekki viðkomið að nota fjölnota, bjóðum upp á hreina kranavatnið okkar á fundum í höfuðstöðvum, í stað þess að kaupa vatn í plasti, og svo mætti áfram telja. Við erum því að gera fullt af litlum hlutum sem saman skila miklu. Við erum reglulega með fræðslu fyrir starfsfólk um umhverfismál ásamt því að hvetja starfsfólk til umhverfisvænni lífshátta, bæði í starfi og heima fyrir,“ segir Hlédís.

Tímarnir eru að breytast

Áherslur Arion banka á stafræna þjónustu hafa dregið verulega úr pappírsnotkun í starfseminni og viðskiptavinir hafa möguleika á að sinna bankaviðskiptum sínum þegar þeim hentar, hvar og hvenær sem er án ferðalaga í útibú.

„Við hvetjum viðskiptavini okkar til að afpanta útprentuð yfirlit og önnur skjöl þegar því verður við komið,“ segir Hlédís.

Hún tekur dæmi um skemmtilegt verkefni í tengslum við umhverfismálin.

„Við höfum farið í vitundarvakningu um matarsóun í mötuneyti höfuðstöðva bankans og allur matur sem til fellur af diskum starfsfólks er mældur daglega og niðurstöðurnar birtar. Góður árangur hefur náðst og það sem kannski mestu skiptir er að þessi vitundarvakning hefur einnig skilað sér heim til starfsfólksins. Stórt fyrirtæki eins og Arion banki, með um 800 starfsmenn, á einfaldlega að vera til fyrirmyndar þegar kemur að umhverfisvænum rekstri og hvatningu til starfsfólks og viðskiptavina. Það skilar sér með margvíslegum hætti til alls samfélagsins.“

Áætla má að vegna samnings Arion banka um kolefnisjöfnun starfseminnar muni Kolviður gróðursetja allt að 5.000 tré fyrir þetta rekstrarár bankans.

„Það er jákvætt að fara í mótvægisaðgerðir sem þessar. Skógrækt tekur að sjálfsögðu tíma en það tekur að líkindum um 60 ár að kolefnisjafna rekstrarárið 2019. Þetta er því engin skyndilausn en engu að síður mikilvæg aðgerð í baráttunni við það neyðarástand sem við stöndum nú frammi fyrir í loftslagsmálum.“

Hlédís segir að tímarnir séu að breytast í fjármálageiranum, bæði hér heima og á alþjóðavísu, og að umhverfis- og loftslagsmál verði sífellt fyrirferðameiri.

„Straumar og stefnur liggja í eina átt og við munum sjá miklu meira af því í nánustu framtíð að áhrif á umhverfi og loftslag séu tekin með inn í fjárfestinga- og lánaákvarðanir. Þarna eru ótal tækifæri til að hafa jákvæð áhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar.“