„Það verður fjallað um upplýsingaöryggi, persónuverndarmál, gæðamál og umhverfismál, svo tala ég um öryggismálin,“ segir Eyþór Kári Eðvaldsson, öryggisstjóri RARIK.

„Hluti af þeim er átaksverkefni sem Landsbjörg stendur fyrir sem kallast: Vertu snjall undir stýri. Svanfríður Anna Lárusdóttir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg kemur með mér og segir frá verkefninu en RARIK ætlar að vera þátttakandi í því. Verkefnið snýst um að nota ekki snjalltæki við akstur. Það er talið að snjalltækjanotkun valdi 25% umferðarslysa. En það er erfitt að festa algjörlega hönd á það.“

Vertu snjall undir stýri er samfélagsverkefni sem snýst meðal annars um að fá atvinnubílstjóra til að setja gott fordæmi fyrir aðra í umferðinni. Landsbjörg vill því fá öflug fyrirtæki sem halda úti atvinnutækjum í umferðinni í lið með sér. Landsbjörg býður upp á fyrirlestra fyrir bílstjóra fyrirtækjanna en einnig hafa verið hannaðir límmiðar til að setja aftan á bifreiðar með skilaboðum sem ætlað er að nota til að ná til annarra ökumanna.

„Við erum búin að halda tvær kynningar í Reykjavík og eftir þær skapaðist mikil umræða,“ segir Eyþór. „Fólk talaði mikið um hversu þarft þetta verkefni væri. Ég vona að þegar við förum með fræðsluna út á land fái hún jafn góðar viðtökur og jákvæða umræðu.“