Sólveig Grétarsdóttir og maðurinn hennar Hörður Harðarson keyptu Verslun Guðsteins fyrir einu og hálfu ári, en Sólveig hafði þá unnið sem rekstrarstjóri í versluninni síðan vorið 2016. Sólveig segir að frá þeim tíma hafi hún tekið eftir miklum breytingum á Laugaveginum.

„Ekki bara núna síðan í vor heldur alveg frá 2016 hefur verið mikið af ferðamönnum á Laugaveginum og mun færri Íslendingar. Maður sér það vel núna þegar ferðamaðurinn er ekki lengur á götunum. Laugavegurinn er tómur virka daga en það færist líf á götuna um helgar, en kannski minna núna þegar COVID er í hámarki,“ segir Sólveig.

Hún veltir fyrir sér af hverju ekki er hægt að hafa Laugaveg opinn á virkum dögum á veturna og vera með lokað á laugardögum.

„Þá væri hægt að vera með einhverjar uppákomur til að trekkja Íslendinginn í miðbæinn. Sumarlokanir eru fínar að mínu mati en ekki allt árið um kring.“

Ástæða þess að Sólveig og Hörður hafa opnað aðra Guðsteins verslun er slæmt aðgengi og lokun Laugavegs allt árið sem var samþykkt núna í september.

„Við höfum verið að fá símtöl og tölvupósta þess efnis að fólk er að tilkynna okkur að það geti ekki lengur verslað hjá okkur vegna lokunar götunnar og einnig vegna mjög ruglingslegrar aðkomu að miðbænum,“ útskýrir Sólveig. Við erum einfaldlega að mæta þörfum viðskiptavina okkar.

„Algengt var að fólk væri keyrt upp að dyrum til þess að viðkomandi kæmist til okkar. Viðskiptavinir okkar komu einnig oft í leigubílum.“

Sólveig segir að þau hafi sérstaklega fundið fyrir þessari ruglingslegu aðkomu þegar Reykjavíkurborg ákvað að snúa umferðarkaflanum frá Frakkastíg að Klapparstíg við, en hann hélst þannig síðasta vetur og hefur mætt miklum pirringi hjá fólki að sögn Sólveigar.

Í versluninni er vönduð skólína frá þýska merkinu Digel.

Viðskiptavinir snúa aftur

Í Verslun Guðsteins er mikið af vörum sem þarfnast þjónustu, eins og jakkaföt og buxur sem þarf að stytta og eiga við hjá klæðskera.

„Við höfum fundið fyrir miklu þakklæti og fengið frábærar móttökur frá okkar viðskiptavinum vegna þess að við höfum opnað aðra Verslun Guðsteins. Við erum byrjuð að fá viðskiptavini til okkar aftur sem ekki hafa komið á Laugaveginn síðastliðin ár,“ segir Sólveig.

„Fólk er einnig mjög ánægt með að heyra að við ætlum að hafa Verslunina á Laugaveginum opna áfram, margir hafa sterkar taugar til þessarar gömlu verslunar.“

Það er mikil saga á bak við þetta 102 ára gamla fjölskyldufyrirtæki, sem Sólveig segir að þurfi að passa að týnist ekki.

„Það eru ekki margar svona verslanir hér á landi og til að geta haldið lífi þá var þetta niðurstaða okkar, að opna aðra Verslun Guðsteins. Svo kemur í ljós hvort við náum að halda gömlu búðinni líka sem er klárlega stefna okkar,“ segir Sólveig.

„Það verður svipað vöruúrval á Laugavegi og í Ármúla, en Laugavegurinn verður meira í boutique-stíl. Þar verðum við til dæmis með Harris Tweed föt sem við erum nýkomin með frá Buckrout Tailoring og vörur frá JOOP sem er klassískt merki með glæsilegan fatnað.“

Fjölbreytt vöruúrval

„Við ætlum að stíga lengra í að gera Verslun Guðsteins á Laugavegi fallegri og meira í anda gamla tímabilsins, en ég lagði áherslu á að hanna Verslun Guðsteins í Ármúla 11 opna og nýtískulega, hún er björt og með gott aðgengi,“ segir Sólveig.

„Við erum með okkar vinsælu buxur frá þýska merkinu Meyer sem er 60 ára fyrirtæki. Þeir eru með flotta stefnu hjá sér, orðnir lífrænir, kaupa bómull beint af bændum og varan er öll framleidd í Evrópu. Þetta eru mjög góðar og vandaðar buxur og koma upp í góðar stærðir fyrir herramenn. Annað vörumerki hjá okkur er Digel sem er einnig þýskt, en við erum við með jakkaföt, staka jakka, skyrtur, peysur og alveg frábæra skólínu frá þeim.“

Einnig tekur Sólveig fram að verslunin sé með æðislegar peysur frá Ítalíu, mjög gott skyrtuúrval, frá Olymp, bæði í slim fit og modern fit sniðum, sem henta öllum gerðum af karlmönnum og skyrtur frá Bosweel, Digel og JOOP og nú er einnig hægt að fá skyrtur frá Rael Brooks.

„Okkar klassísku hnepptu náttföt eru einnig komin til okkar aftur frá Rael Brooks og líka frá Jockey og Hajo, sem eru snillingar í kósífötum eða heimafötum.“

Verslun Guðsteins hefur alltaf verið mikil jólabúð og Sólveig segir að hún verði það áfram.

„Ég myndi mæla með að fólk fari tímanlega af stað í jólagjafaleiðangur til að létta á COVID-spennu í desember.“

Vandaður jakki og peysa frá Digel.
Verslunin er með úrval af skyrtum.