Kjötkompaní býður upp á stórglæsilegt kjötborð á aðventunni. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

Jólastemningin stigmagnast hjá starfsmönnum Kjötkompaní á aðventunni enda uppáhaldstími starfsmanna, segir Jón Örn Stefánsson, eigandi Kjötkompaní. „Vinnudagarnir lengjast þessar vikurnar en það er óhætt að segja að stemningin sé farin að magnast hjá okkur öllum. Það er sannarlega mjög gaman í vinnunni á aðventunni og gaman að segja frá því að við fáum oft símtöl frá fyrrverandi starfsmönnum sem vilja fá að kíkja inn á nokkrar vaktir fyrir jólin, bara svona til að fullkomna jólastemninguna.“

Fleskesteik með sultuðum rauðlauk er girnilegur smáréttur.

Mjög vinsæl jólahlaðborð

Vöruúrvalið í Kjötkompaní er frábært allt árið en sérstaklega glæsilegt vikurnar fyrir jólin. „Tilbúnu jólahlaðborðin hafa til dæmis verið gríðarlega vinsæl hjá viðskiptavinum okkar síðustu árin. Þar fær viðskiptavinurinn hlaðborðið algerlega tilbúið og þarf bara að koma veitingunum á borðið heima eða á vinnustaðnum. Forréttirnir koma tilbúnir á bökkum og heiti maturinn kemur í frauðkassa sem heldur öllu vel heitu. Svo fylgir desert öllum jólahlaðborðum frá okkur. Það gæti ekki verið einfaldara að halda flotta jólaveislu heima.“

Wellington-steikin frá Kjötkompaní er alltaf vinsæl yfir jólin.

Jólasmáréttirnir frábær lausn

Fyrir þau sem vilja hafa borðhaldið einfaldara og léttara þá eru jólasmáréttir Kjötkompaní frábær lausn, segir Jón Örn. „Þar bjóðum við upp á gott úrval smárétta eins og mini-wellington steik, tvítaðreyktan lambatartar, hreindýramús, purusteik á maltbrauði, rauðsprettu, danska lifrarkæfu og fleiri flotta rétti.“

Jólasmáréttirnir innihalda meðal annars mini Wellington steik, tvítaðreyktan lambatartar og hreindýramús.

Vinsælir jólakassar

Jólakassarnir frá Kjötkompaní eru af mörgum gerðum. Þeir innihalda eingöngu vörur sem Kjötkompaní framleiðir sjálft og eru sérstaklega hentugir til að auðvelda verslunarleiðangurinn, segir Jón Örn. „Forréttakassarnir eru vinsælustu kassarnir hjá okkur. Þar erum við með hreindýrapate, grafna gæsabringu, heitreykta andabringu, grafinn lax og fleira góðgæti. Svo eru steikarkassarnir einnig vinsælir en þar erum við meðal annars með nautalundir, lambafile, krónhjartarlundir, tvítaðreykt hangilæri og grísahamborgarhrygg.“

Hvítsúkkulaði- brownie er frábær eftirréttur.

Fjölbreytt úrval

Það er því óhætt að segja að búðir Kjötkompaní við Dalshraun í Hafnarfirði og á Grandanum í Reykjavík séu stútfullar af góðgæti fyrir jólin. „Enda er það markmið okkar að viðskiptavinurinn geti fengið allan matseðilinn hjá okkur, forréttinn, aðalréttinn, meðlætið og desertinn. Svo erum við með fulla búð af háklassa ítölskum vörum ásamt frábærum ítölskum eldhúsáhöldum eins og brettum, steikarhnífum, ostahnífum og fleira.“

Girnileg T-bone steik er tilvalin á aðventunni.

Þakklát fyrir móttökurnar

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar undanfarin ár. „Salan eykst ár frá ári og við erum mjög þakklát fyrir það. Markmið okkar er að bæta vöruúrvalið og að reyna að bæta þjónustuna með hverju árinu sem líður. Einn liður í því er að bjóða upp á gjafabréf en þau eru frábær gjöf að mínu mati. Þar velur þú algerlega sjálfur það sem þig langar í í veislumatinn og einnig hvenær þú notar gjafabréfið.“

Nánari upplýsingar á kjotkompani.is.

Mini-Wellington með sveppamauki er ómótstæðilegur smáréttur.