Sea Saver Karlsson ehf. er fjölskyldufyrirtæki og framkvæmdastjóri þess er Ásta Karen Ágústsdóttir. Hún útskýrir að um er að ræða rafknúið hraðskeyti með mikilli sjálfvirkni, svo sem sónar og lidar, sem er stýrt með fjarstýribúnaði eða sjálfstýringu:

„Með búnaðinum verður hægt að bjarga mönnum úr sjó á skemmri tíma og við verri aðstæður en áður og í flestum tilfellum án þess að þörf sé á að senda aðra menn í sjóinn á eftir þeim. (Undantekning er ef viðkomandi er meðvitundarlaus eða mikið slasaður en þá má senda mann með). Sjálfvirkur sjósetningarbúnaður gerir það kleift að hægt er að bregðast mjög hratt við þegar menn falla frá borði og geta björgunaraðgerðir hafist strax. Að auki er á hraðskeytinu búnaður sem ekki er hægt að fjalla um á þessi stigi vegna einkaleyfissjónarmiða.“

Mikil sérþekking margra

„Margþætt verkefni sem þetta er bæði dýrt í framkvæmd og kallar á mikla sérþekkingu margra. Þar hafa Tækniþróunarsjóður með styrkveitingum og Háskólinn í Reykjavík, með samstarfi úrvalsnemenda og leiðbeinenda, reynst sterkir bakhjarlar. Áherslur liggja í tæknilegum lausnum, miðað við nýjustu mögulegu tækni, svo og viðskiptaáætlanir og markaðskönnun á fjölþjóðavettvangi. Þá má bæta því við að Samgöngustofa og Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hafa veitt verkefninu stuðning.“

Tvær útfærslur á björgunartækinu

Ásta Karen segir að kveikjan að verkefninu hafi sennilega orðið til við vangaveltur um hvernig hægt hefði verið að komast hjá stórslysum með hraðari björgunaraðgerðum.

„Ýmis tilbrigði festust í huga Ágústar, en í tímans rás fóru þessar hugrenningar að verða áleitnari og leiddu til þess að útfærslur að hugmyndinni tóku að þróast og hugmyndavinna og grunnteikningar, ásamt smíði á frummódeli, leiddu til þess að erfitt var að snúa til baka.

Björgunartækið hefur þróast í nokkur ár frá fyrstu hugmynd. Það hefur breyst mjög mikið í meðferð áhugasamra háskólanemenda í Háskólanum í Reykjavík og með tilliti til nýjustu framfara í hátæknivísindum sem notaðar hafa verið við gerð og þróun Sea Saver.

Ferlið hefur verið langt og stundum strangt, allt frá því að hugmyndin fór fyrst á blað og þar til núna nýverið, þegar fyrsta prófun á prótótýpunni fór fram í Skerjafirði þar sem niðurstöðurnar uppfylltu ýtrustu kröfur.

Sennilega verður um tvær útfærslur á björgunartækinu að ræða. Annars vegar ætlað fyrir skip og báta með nokkurra manna áhöfn þar sem fleiri koma að björgunarstarfi. Hins vegar er önnur útfærsla ætluð fyrir smærri báta, skemmtisnekkjur, með eins til þriggja manna áhöfn, þar sem einn aðili fellur fyrir borð og er hægt með aðstoð sendibúnaðar, sennilega festum við handlegg mannsins, gerir mögulegt að stöðva vél eða gera segl óvirkt og maður í sjó getur látið tækið fara sjálfkrafa af stað með boðum frá handtæki, sent farið beint að stöðvuðu farartæki eða að hann getur stýrt sjálfur björgunartækinu með aðstoð handstýribúnaðar.“

Stöðug þróun

„Sea Saver björgunarskeytið er í stöðugri þróun. Búnaður allur verður að vera eins öruggur og völ er á og standast gæðavottanir. Tækið má ekki bregðast á ögurstundu. Að því er stefnt með frekari prófunum og tekið er tillit til árangurs. Samstarf við Háskólann í Reykjavík hefur verið árangursríkt og er nú haldið áfram. Næstu verkefni í þessu samstarfi er gerð og útfærsla á prótótýpu nr. 2, ásamt hönnun og smíði sjálfvirks sjósetningarbúnaðar.

Framtíðarsýn Sea Saver er að hanna, þróa og framleiða hátæknibjörgunarbúnað sem notast við erfiðar aðstæður við björgun fólks úr sjávarháska. Markmiðið með framleiðslu búnaðarins er að efla íslenska hátæknivöru og hugvit, til að skapa verðmæti á mörkuðum innan lands og utan. Þá eru ótalin verðmæti lífsbjargar sem ekki verða metin til fjár.“